Skattskylda innlánsstofnana

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 14:46:00 (2070)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég játa það hreinskilnislega að ég er vinur ritfrelsis, frjálsrar hugsunar. Ég get einnig lýst því yfir að ég taldi ekki eðlilegt að ég færi að ritskoða þennan leiðara sem ég las hér upp eftir Jónas Kristjánsson. Mér fannst það bara ekki við hæfi. Auðvitað mat ég það fyrir mig hver voru aðalatriði þessa leiðara. Hafi þar eitthvað verið rangt og ókristilega að hæstv. fjmrh. vikið mannar hann sig að sjálfsögðu upp í það að skrifa grein og koma henni á framfæri. Það er hins vegar í sjálfu sér ekki andsvar við mig þó að hann fari að lýsa gremju sinni yfir því að Jónas Kristjánsson viti ekki allt sem er að gerast í Stjórnarráðinu. Hitt tel ég fullkomlega eðlilegt að vakin sé athygli á því að blaðið sem sópaði atkvæðum fyrir núv. stjórnarflokka í seinustu kosningum til þeirra stuðningsmanna messar nú yfir ráðherrunum eins og þeir væru götustrákar.