Skattskylda innlánsstofnana

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 14:53:00 (2074)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að í ræðu síðasta hv. ræðumanns var fjallað um bílamál ráðherra og skatta af þeim. Ég sá ekki betur en að ég hefði rétt til þess að veita andsvar við því efnisatriði sem þannig kom fram í málflutningi hv. ræðumanns. Ég taldi það jafnframt skyldu mína af því það var farið rangt með. Ég ætla ekki að gera það umtalsefni að sinni, tel það ekki við hæfi, en skal gera það hvenær sem er að ræða þessi mál, þar á meðal við hv. 8. þm. Reykn., jafnt um bílamál hans og annarra. Ég hef ekki lesið í skattskrár heldur hef ég þetta frá einstökum ráðherrum. Þar að auki liggur fyrir samþykkt þeirra ríkisstjórna, sem hv. þm. átti sæti í, um að breytingar yrðu gerðar á reglum til þess að skattmat breyttist af því að hv. þm., sem þá sátu í þeirri ríkisstjórn, sættu sig ekki við það skattmat sem þá lá fyrir. Þessu var beint til fjmrn. og fjmrh., sem auðvitað hlaut að vera næsti fjmrh.
    Ég vil hins vegar taka fram að þeir, sem notuðu bíla ráðuneytisins og létu t.d. starfsmenn ráðuneytanna aka sér, greiddu að ég held, ekki skatt af þeim notum enda voru þau not eingöngu í þágu ráðuneytanna. Ég vil að þetta komi hér fram vegna þess að ranglega hefur verið sagt frá því í blöðum, og þar á meðal í því blaði sem lesið var upp úr, að menn hefðu greitt samkvæmt gamla skattmatinu. Ég veit um eitt dæmi þess og það skal

koma hér fram. Það er að hæstv. fyrrv. dómsmrh. greiddi skatta samkvæmt því. Mér er kunnugt um það --- ekki vegna þess að ég hafi lesið það í skattskrá heldur vegna þess að ég treysti orðum hans.
    Vandamálið, og það er rétt að það komi fram fyrst menn eru að ræða þetta, er m.a. fólgið í því að skattumdæmin lögðu misjafnt mat á framtöl fyrrverandi ráðherra. Að meginreglu til greiddu þeir ekki skatt, þeir fengu frest til þess að eiga við málin á meðan fjmrn., að ósk ríkisstjórnarinnar, skoðaði málin. Nú er komið að því að þeir greiði skatta og þá auðvitað frá þeim tíma sem lagt var á samkvæmt þeim reglum sem við nú höfum sett.
    Kjarni málsins er þessi: Nú eru þessi mál komin í lag og héðan í frá greiða menn skatt eftir notkun, einkanotkun, á viðkomandi bifreiðum. Þetta vil ég að komi fram og ég tel mig ekki einungis hafa rétt heldur beinlínis skyldu til þess í andsvari að leiðrétta hv. ræðumenn og ekkert síður ef þeir lesa úr gögnum annarra manna eða fjölmiðlum.