Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 16:07:00 (2083)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins í tilefni af því sem var sagt um árangur af baráttu friðarhreyfinganna láta það koma hér fram að það var þrátt fyrir stefnu þeirra um einhliða afvopnun að samningar náðust og það var ekki fyrr en Vesturlönd og Atlantshafsbandalagið hafði framkvæmt stefnu sína í kjarnorkumálunum varðandi Evrópukjarnorkuvopnin sem samningar tókust um gagnkvæma afvopnun á kjarnorkusviðinu í Evrópu. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram að ég er ósammála hinni sögulegu skýringu hv. ræðumanns varðandi gildi friðarhreyfinganna.
    Í öðru lagi vil ég lýsa því yfir að mér finnst furðulegt að enn skuli haldið við það að hlutleysi sé besta stefna Íslands í öryggis- og varnarmálum þegar þær þjóðir sem hafa verið hlutlausar eins og Svíar og Finnar eru að hverfa frá þeirri stefnu vegna þess einfaldlega að hlutleysi var á milli ákveðinna blokka í Evrópu. Nú hafa þessar blokkir horfið þannig að hlutleysishugtakið er raunverulega líka úr sögunni við þær miklu breytingar sem orðið hafa hér í okkar álfu.