Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 16:21:00 (2089)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Ég tek ekki undir aðfinnslur í garð hv. 8. þm. Reykn. þótt hann tali svo sem hálfa klukkustund hér um jafnmikilvægt mál á áhugasviði hans. Þvert á móti. Ég tel það til mikilla bóta þegar hv. 8. þm. Reykn. ræðir málefnalega um áhugamál sín í samanburði við þau ósköp sem við höfum mátt heyra á undanförnum dögum og vikum, nefnilega að hv. þm. eyðir tíma sínum og annarra í að skeyta skapi sínu á þingsköpum lon og don, og ég viðurkenni fúslega að sú iðja hans er bæði mér og öllum þorra hv. þm. bæði til ama og leiðinda þannig að málefnaleg umræða af hans hálfu er mér fagnaðarefni.
    Virðulegi forseti. Í tilefni af athugasemdum um fjarveru utanrrh. í morgun er rétt að það komi fram að ég hafði gert ráðstafanir til að verða kvaddur hingað í húsið um leið og umræðan byrjaði. Það mun af einhverjum ástæðum hafa misfarist og biðst ég velvirðingar á því.
    Hv. þm. hafa fyrst og fremst beint máli sínu og spurningum að því hverjar líkur eru á að þessi mikli og sögulegi afvopnunarsamningur nái fullgildingu og staðfestingu þjóðþinga og þá ekki síst hvaða horfur eru á að hann komi til framkvæmda í ljósi nýjustu atburða í Sovétríkjunum. Menn spyrja: Eru einhverjar líkur á því að hin nýju lýðveldi sem áður mynduðu Sovétríkin muni staðfesta samninginn? Eru líkur á því að þau geri kröfu til þess að hann verði að einhverju leyti tekinn upp að nýju? Eru líkur á því að hin aðildarríkin komi ekki við að gegna eftirlitshlutverki sínu? Það eru fyrst og fremst spurningar af þessu tagi sem hafa vakað í máli manna.
    Ég vil, virðulegi forseti, rifja upp að þegar ég gerði grein fyrir samningnum í framsöguræðu 27. nóv. sl. var að þessu máli vikið. Þá var þegar ár liðið frá því að samningurinn var undirritaður í París og þá þegar, á því ári, hafði margt breyst frá því að hann var undirritaður. Menn hafa vakið upp spurningar um það hvort samningurinn væri að úreldast í ljósi breyttra aðstæðna. Nægir í því sambandi að nefna að annað bandalagið sem aðild á að samningnum, Varsjárbandalagið, er úr sögunni og að Eystrasaltslöndin þrjú, sem áður voru uppistaðan í svokölluðu Eystrasaltsherstjórnarsvæði Sovétríkjanna, hafa nú endurheimt fullt og óskorað sjálfstæði. Að þessu var vikið strax í framsöguræðu og þá sagt, með leyfi forseta:
    ,,Óhætt er að fullyrða að þrátt fyrir slíka ófyrirsjáanlega atburði haldi samningurinn gildi sínu fullkomlega óskertu. Brotthvarf Varsjárbandalagsins breytir í grundvallaratriðum engu um þá staðreynd að framkvæmd niðurskurðar á grundvelli þeirra markmiða sem samkomulag varð um á milli bandalaganna tveggja er eftir sem áður á ábyrgð einstakra aðildarríkja samningsins. Sá vandi sem hlaust af sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna í tengslum við gildissvæði samningsins var enn fremur leystur með sérstakri lagalega bindandi yfirlýsingu sem tekur gildi um leið og samningurinn.``
    Þetta eru dæmi, virðulegi forseti, um það að samningurinn er þann veg gerður að

unnt hefur verið á þessu ári að laga hann að breyttum aðstæðum þannig að hann lenti ekki ógöngum.
    Að því er varðar upplausn Ráðstjórnarríkjanna var vikið að væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu sem þá var vitað að færi fram 1. des. varðandi sjálfstæði Úkraínu. Að því máli var vikið með þessum orðum, með leyfi forseta: ,,Lýsi stjórn Úkraínu lýðveldið sjálfstætt ríki í kjölfar atkvæðagreiðslunnar, eins og yfirgnæfandi líkur eru taldar á, er nánast óhugsandi að stjórnvöld í Kænugarði telji sig bundin af fullgildingarákvörðun sovéska þingsins. En stór hluti hefðbundins vígbúnaðar Sovétmanna sem fellur undir samninginn er [sem kunnugt er] staðsettur á landsvæði Úkraínu. Of snemmt er á þessu stigi að segja til um með vissu hvernig brugðist verður við þessum vanda en hugsanlegar lausnir eru m.a. til umræðu í sameiginlegri samráðsnefnd í Vínarborg sem sett var á stofn með samningnum.
    Ekki er til að mynda ólíklegt að Úkraína verði krafin lagalega bindandi yfirlýsinga þess efnis að hún verði að virða í einu og öllu fyrri skuldbindingar Sovétríkjanna samkvæmt samningnum á úkraínsku landsvæði. Bendir raunar ekkert til þess að stjórnvöld í Úkraínu muni hreyfa andmælum við slíkri kröfu. Með hliðsjón af því ástandi sem við blasir í Sovétríkjunum er hins vegar ljóst að því lengur sem það dregst að aðilar samningsins fullgildi hann þeim mun erfiðara gæti það reynst að tryggja að samningurinn nái fram að ganga. Óhætt er að fullyrða að það sé áhætta sem enginn aðila samningsins vill taka. Ég vil því beina þeim tilmælum til hins háa Alþingis að það fullgildi þennan samning og sýni þannig í verki að Ísland vilji ekki láta sitt eftir liggja til að friður megi haldast í okkar heimshluta um fyrirsjáanlega framtíð.``
    Ég rifja þetta upp vegna þessara kjarnaspuringa hv. þm. sem allar beindust að þessu: Hvað gerist nú? Hver verða örlög þessa samnings þegar við nú stöndum frammi fyrir því að þrjú fyrrum aðildarríki Sovétríkjanna hafa lýst yfir sjálfstæði sínu og fleiri hafa lýst því yfir að þau muni ganga inn í hið nýja bandalag fullvalda ríkja?
    Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að nýafstaðnir atburðir í Sovétríkjunum muni ekki breyta neinu um nauðsyn þess að Alþingi fullgildi samninginn um hefðbundinn herafla nú þegar. Ég tel það þvert á móti brýnna en áður þar sem gildistaka samningsins er besta vörn sem á verður kosið fyrir Evrópu í heild, jafnt eldri ríki sem ný, andspænis þeirri miklu óvissu sem umrótið í austurhluta álfunnar hefur í för með sér. Samningurinn um hefðbundinn herafla í Evrópu er lagalega bindandi samningur sem tekur gildi 10 dögum eftir að öll aðildarríki hafa fullgilt hann. Á þessari stundu hefur nærri helmingur aðildarríkja fullgilt hann og þar liggur eftir hlutur ýmissa Vestur-Evrópuríkja t.d.
    Úr því sem komið er eru auðvitað tormerki á því að sovéska þingið, sem enn er við lýði eftir því sem best er vitað, hafi umboð til að staðfesta samninginn fyrir hönd samveldisríkjanna þriggja og þá vaknar sú spurning með hvaða hætti komið verði í veg fyrir að samningurinn rati í blindgötu. Að vísu bendir allt til þess að ráðamenn í þessum þremur ríkjum hafi fullan hug á að gildistaka samningsins nái fram að ganga. Tæknilegar leiðir til að tryggja að samningurinn haldi eru um þessar mundir til umfjöllunar í sameiginlegu samráðsnefndinni í Vínarborg sem ég vék að áðan. Sú nefnd var sett á stofn í tengslum við samninginn og það er rétt að nefndin komist að sínum niðurstöðum um málið áður en við getum tjáð okkur um það með endanlegum hætti. En í grófum dráttum má hins vegar gera ráð fyrir að tvær leiðir komi öðrum fremur til greina.
    Fyrri kosturinn er sá að sovéska þingið fullgildi samninginn á næstunni, en að samveldisríkin þrjú gefi út bindandi yfirlýsingar þess efnis að þau muni standa við þær skuldbindingar sem Sovétríkin tóku á sig varðandi samningsbundinn vígbúnað á landsvæði þeirra.
    Hinn kosturinn væri í því fólginn að aðildarríkin tækju upp viðræður við samveldisríkin þrjú, og fleiri ef þeim fjölgar, um hugsanlega aðild að samningnum. Það eru að vísu vankantar á báðum þessum leiðum. Varðandi þann fyrri er ekki ljóst hvort samveldisríkin geti fallist á umboð sovéska þingsins. Seinni kosturinn gerir hins vegar ráð fyrir að öll

önnur aðildarríki hafi viðurkennt samveldisríkin þrjú sem sjálfstæð ríki. Á því eru verulegar líkur en það mun hins vegar taka nokkurn tíma. Þrátt fyrir það að ekki sé um neinar einfaldar lausnir að ræða tel ég fyllstu ástæðu til að ætla að málið verði farsællega til lykta leitt og ég byggi það á reynslu. Ég bendi á að aðildarríkin hafa fyrr á þessu ári ráðið bót á erfiðum úrlausnarefnum án þess að hróflað væri við sjálfum samningnum. Ég nefni sérstaklega ágreining um talningarreglur samningsins. Ég nefni ágreining um flutninga Sovétmanna á vígbúnaði austur fyrir Úralfjöll. Og ég nefni vandamál sem upp komu í framhaldi af sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Reynslan hefur þannig sýnt að ákvæði samningsins eru nægilega sveigjanleg til að gera aðildarríkjunum kleift að laga hana að breyttum aðstæðum. Þeim sem vilja kynna sér þessa hlið á samningnum er bent á 16. gr., um sameiginlegu samráðsnefndina, og 20. og 21. gr., um breytingar á samningnum og sérstaka ráðstefnu aðildarríkja sem kalla má saman ef óvenjulegar aðstæður skapast.
    Ég tel mikilvægt að fram komi að lausn málsins ræðst ekki einvörðungu af afstöðu og aðgerðum samveldisríkjanna þriggja, heldur einnig af einurð og vilja annarra aðildarríkja samningsins. Öll hafa ríkin þrjú gefið til kynna að þau kjósi að eiga samleið með öðrum ríkjum Evrópu í öryggis- og afvopnunarmálum. Ég vil t.d. nefna að Úkraína hefur nú þegar óskað eftir því að fá fulla aðild að Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu í janúar nk. Úkraína verður ekki fullgildur aðili að RÖSE, sem við köllum svo, nema því aðeins að fyrir liggi að hún taki á sig allar þessar skuldbindingar. Þess er að vænta að hin ríkin geri slíkt hið sama. Það er hins vegar lykilatriði að Úkraína og hin samveldin tvö gangi ekki að því gruflandi að þátttaka í ráðstefnunni er háð þessu skilyrði. Þess vegna er nauðsynlegt að þau skuldbindi sig hið fyrsta, með óyggjandi hætti, til að virða í hvívetna ákvæði samningsins um hefðbundinn herafla sem kallaður hefur verið hornsteinn nýrrar Evrópu. Þessum skilaboðum verður best komið áleiðis með því að önnur aðildarríki láti ekki standa upp á sig staðfestingu samningsins án tafar. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland megi undir engum kringumstæðum láta sinn hlut eftir liggja. Ég ítreka því fyrri óskir mínar um að hæstv. Alþingi heimili ríkisstjórninni að fullgilda samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu við fyrsta tækifæri.
    Virðulegi forseti. Auk þess var spurningum beint til mín um hugsanlega áheyrnarfulltrúa að aðild Íslands að hinu svokallaða Vestur-Evrópubandalagi, West-European Union. Menn spurðu um hver væri afstaða mín, hvort málið hefði verið rætt í ríkisstjórn og hvernig á málinu yrði haldið af hálfu ríkisstjórnar.
Enn fremur spurði hv. 2. þm. Austurl. hvort hætta væri á því að stofnun bandalagsins eða öllu heldur virkjun þess, gæti leitt til klofnings innan Atlantshafsbandalagsins og vitnaði í því efni til viðvörunarorða framkvæmdastjóra þess, Wörners. Um þetta mál er það að segja að það hefur vissulega borist í tal, verið á dagskrá og í umræðum milli utanrrh. Íslands og ýmissa utanríkisráðherra Evrópubandalagsins fyrr á tíð. Þannig minnist ég þess að nokkrir af utanríkisráðherrum Evrópubandalagsins hafa spurst fyrir um það, hvernig því yrði tekið af Íslands hálfu ef þetta tilboð yrði gert af hálfu leiðtoga Evrópubandalagsins. Það var gert með einna ákveðnustum hætti af utanríkisráðherra Ítalíu þegar hann var hér í opinberri heimsókn ásamt forseta Ítalíu. Þá áttum við allítarlegar umræður um þetta mál. Um það mál liggur fyrir fundargerð sem lögð var fram í ríkisstjórn. Þannig að málið hefur vissulega verið á dagskrá ríkisstjórnar. Ég skal taka það fram að ég tel að við eigum að taka jákvætt þeirri samþykkt sem nýlega var gerð á leiðtogafundi Evrópubandalagsins í Maastricht. Þar kemur fram að af hálfu þeirra stendur til boða að þau aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, sem ekki eru aðilar að Vestur-Evrópubandalaginu, West-European Union, þ.e. Ísland, Noregur og Tyrkland, geti fengið stöðu áheyrnarfulltrúa í Vestur-Evrópubandalaginu. Það tel ég jákvæðan hlut út frá hagsmunum Íslands.
    Þá spyrja menn hvernig á því máli yrði haldið. Af minni hálfu yrði það mál tekið upp innan ríkisstjórnar og að sjálfsögðu haft samráð um það í utanrmn. áður en af framkvæmdum yrði. Mun þetta leiða til klofnings innan Atlantshafsbandalagsins? Auðvitað er

mjög mikið mál að ræða samskipti Vestur-Evrópubandalagsins og Atlantshafsbandalagsins. Og ég þykist gera mér nokkra grein fyrir því hvaða sjónarmiðum Wörner, framkvæmdastjóri NATO, hefur haldið til haga í ræðu sinni á fundi þingmannasamtaka Atlantshafsbandalagsins í Madrid. Það er ekkert launungarmál að talsmenn íslensku ríkisstjórnarinnar innan Atlantshafsbandalagsins hafa alla tíð lagt mikla áherslu á að varðveita hið nána samstarf lýðræðisríkja í Evrópu og Bandaríkjunum og Kanada og litið á sig sem helstu stuðningsmenn þeirra sjónarmiða. Þar sé að finna lífæð þessa bandalags sem skilað hefur mestum árangri allra varnarbandalaga sem sagan kann frá að greina. Þannig að við, fulltrúar stjórnvalda á Íslandi, erum ekki hlynntir neinum breytingum á því. Nú vil ég vekja athygli á því að hér er einungis á dagskrá spurning um áheyrnarfulltrúastatus að því er varðar Vestur-Evrópubandalagið. Það tel ég hyggilegt, m.a. til þess að tryggja að eðlilegt samráð sé við okkur haft. Hugsanlega gæti einnig í því falist að áhrif þeirra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sem eru skoðanalega sama sinnis og við, heyrist með afdrifaríkari hætti meðal þjóða meginlands Evrópu.
    Vegna þess að hv. 14. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni að það væri þýðingarmest fyrir okkur að ná einhverjum árangri varðandi afvopnun á höfunum, vil ég minna hv. þm. á að einmitt á því sviði hefur náðst stórkostlegur árangur þótt hann sé ekki að finna í þessum samningi. Þá vísa ég til hinnar sögulegu ákvörðunar Bush Bandaríkjaforseta sem kynnt var fyrir allnokkru síðan og fól í sér þrennt:
    1. Eyðingu á skammdrægum kjarnavopnum á landi sem og brottflutning kjarnavopna úr skipum og kafbátum og eyðingu þeirra að stórum hluta.
    2. Að taka úr viðbragðsstöðu hinn langdræga sprengjuflugvélaflota sem bundinn er kjarnavopnum.
    3. Bush lagði til að samið yrði um eyðingu fjölodda kjarnaflauga á landi. Gorbatsjov svaraði í meginatriðum í sömu mynt en lagði jafnframt til ýmsar frekari aðgerðir.
    Atlantshafsbandalagið hefur þar að auki ákveðið verulega fækkun á kjarnavopnum flugvéla. Skammdrægum kjarnavopnum NATO í Evrópu hefur þar með fækkað þegar á heildina er litið um 80%. Það er hverju orði sannara að þessi ákvörðun var tekin einhliða af hálfu Bandaríkjaforseta en augljóslega að höfðu samráði við stjórnvöld í Sovétríkjunum. Þannig að niðurstaðan varð sú sama. Það var tryggt fyrir fram og þetta er til viðbótar þeim samningi sem við ræðum hér um einhver stórkostlegasti árangur sem náðst hefur. Hann tekur að hluta til einnig til hafanna og er þess vegna sérstaklega ánægjulegur í ljósi málflutnings íslenskra stjórnvalda að því er það mál varðar.
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa málefnalegu umræðu og vil að lokum leyfa mér að hvetja eindregið til þess að þessi þýðingarmikli samningur verði staðfestur.