Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 16:41:00 (2090)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Aðeins fáein orð í tilefni af ræðu hæstv. utanrrh. Ég vil þakka honum fyrir hana. Það er vissulega ánægjulegt að hafa hann í salnum sem þátttakanda í umræðunni en frétta ekki bara af honum við og við í fjölmiðlunum. Þannig að sú ánægja er gagnkvæm sem fólgin er í því að heyra utanrrh. loksins mættan á þjóðþingið til þess að eiga við okkur orðastað um mikilvæg mál.
    Ég vil þakka ráðherranum fyrir þá lýsingu sem hann gaf. Þau viðhorf sem þar komu fram voru á margan hátt fróðleg.
    Hins kvaddi ég mér aðallega hljóðs út af tvennu. Í fyrsta lagi tel ég það ekki jafngilda því að aðild að Vestur-Evrópubandalaginu hafi verið tekin á dagskrá í ríkisstjórn Íslands þótt hæstv. utanrrh hafi dreift fundargerð frá viðræðufundi sínum og utanrrh. Ítalíu, þegar hann var hér í maímánuði, ef ég man rétt. Ég held að það sé a.m.k. ekki í samræmi við venjur sem ég kannast við frá störfum ríkisstjórna að þótt fundargerð af fundi ráðherra með öðrum ráðherra sé lögð fram í ríkisstjórn, hafi málin í þeirri fundargerð verið tekin á dagskrá í ríkisstjórninni. A.m.k. er það þannig að aðild að Vestur-Evrópubandalaginu er slíkt stórmál að það hlýtur að réttlæta það að vera sjálfstæður liður á dagskrá ríkisstjórnar, ef það er á annað borð til umræðu. Ég held því að það hljóti að vera einhver misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að telja að málið hafi verið á dagskrá ríkisstjórnar þótt á það sé minnst í fundargerð sem hann lagði fram í ríkisstjórninni.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en auðvitað væri fróðlegt að spyrjast fyrir um það hvort einhver ítarleg, efnisleg umræða hafi orðið innan núv. hæstv. ríkisstjórnar um aðildina að Vestur-Evrópubandalaginu. Það er kannski nauðsynlegt að fá það fram vegna þess að hæstv. utanrrh. lýsti því yfir á Alþingi líkt og hann gerði í gær í fjölmiðlum að hann teldi að taka ætti jákvætt í það tilboð að Ísland yrði áheyrnarfulltrúi að Vestur-Evrópubandalaginu. Það eru auðvitað merkileg tíðindi þegar utanrrh. Íslands lýsir slíku yfir og ég vil endurtaka það sjónarmið mitt að mér finnst óeðlilegt að utanrrh. skuli vera að lýsa þeirri afstöðu áður en málið er rætt ítarlega í ríkisstjórn og áður en það hefur verið (Gripið fram í.) já, ég ætla nú ekki að blanda mér í þær umræður sem fara fram í hliðarsölum milli utanrrh. og fyrrv. sjútvrh. hvort þetta Vestur-Evrópubandalag sé bandalag einhverra kristilegra framsóknarmanna eða sósíalista heldur var ég einfaldlega að víkja að því, virðulegi utanrrh., sem er nokkurt alvörumál að mér finnst óeðlilegt að hæstv. utanrrh. sé að lýsa afstöðu í slíku stórmáli áður en það hefur verið rætt í utanrmn. Alþingis eða rætt ítarlega innan ríkisstjórnar vegna þess að ég hugsa að málið hafi ekki verið rætt ítarlega innan núv. ríkisstjórnar.
    Og hver er nú skýringin á því, hæstv. utanrrh., að mér finnst óeðlilegt að lýsa niðurstöðu ráðherrans í málinu áður en það er rætt á öðrum vettvangi? Jú, meginástæðan er sú að þar með er verið að lýsa afstöðu í því mikla stórmáli hver eigi að vera afstaða Íslands til hernaðarsamvinnunnar í Evrópu á næstu áratugum og stöðu Íslands gagnvart þeirri þróun sem margir telja að sé nú í gangi að Bandaríkin skilji sig frá Vestur-Evrópu í þessum efnum. En eins og kunnugt er, þá eru Íslendingar með tvíhliða samning við Bandaríkin um herstöðvar. Og við höfum, hæstv. utanrrh, þegar heyrt það í umræðunni úr hópi þingmanna sem stutt hafa aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu að þeir hafa ýmsar efasemdir um að þetta sé rétt skref. Þess vegna vildi ég ítreka þá afstöðu mína að mér finnst óeðlilegt að hæstv. utanrrh. sé að lýsa þessu svo snemma og skil nú ekki hvað lá á, því að varla erum við á leiðinni þarna inn. Vildi ég nú beina því til hæstv. utanrrh. að hann --- virðulegi forseti, það er voðalega erfitt að reyna að ljúka umræðunni hér. Ráðherrarnir eru svo önnum kafnir á einhverjum hliðarfundum hér milli herbergja að nokkuð snúið er að ná eyrum þeirra. En ég ætlaði ekki að verða langorður. Ég veit að það er mikið að gera á vandræðaheimilinu um þessar mundir þannig að kannski er skiljanlegt að ráðherrar þurfi að bera saman bækur sínar í hliðarherbergjum. En ég vona að ég megi bera fram spurningar mínar og athugasemdir við utanrrh. og hann sé ótruflaður af forsrh. á meðan, sérstaklega vegna þess að nú kem ég að seinna atriðinu sem ég ætlaði að vekja athygli á.
    Hæstv. utanrrh. vék að afvopnun á höfunum og sagði með réttu að það væri stórkostlegur árangur, sagði með réttu að það hefði átt sér stað söguleg yfirlýsing frá Bush og með réttu tengdi það þeirri baráttu sem hefur verið af hálfu Íslands fyrir afvopnun á höfunum. Ég geri enga athugasemd við neitt af þessu sem hæstv. utanrrh. sagði. En því miður er það þannig, hæstv. utanrrh., að við höfum lesið það í blöðunum að aðstoðarmaður forsrh. --- væri nú hægt að fá hæstv. forsrh. hér í salinn? ( Forsrh.: Hann heyrir.) Hann heyrir, já. Síðan aðstoðarmaður forsrh., Hreinn Loftsson, tók við embætti hefur hann skrifað að ég held eina grein í blöðin. Sú grein var skrifuð sérstaklega til þess að andmæla öllu því sem hæstv. utanrrh. hefur sagt um afvopnun á höfunum og yfirlýsingu Bush Bandaríkjaforseta og lýsa yfir algerri andstöðu við stefnu hæstv. utanrrh. í málefnum afvopnunar á höfunum. Ég hef hins vegar hlíft hæstv. forsrh. við að spyrja hann að því á Alþingi hvort hann sé sömu skoðunar og aðstoðarmaður hans, Hreinn Loftsson, í þessum efnum og hvort hæstv. forsrh. finnist það eðlilegt að aðstoðarmaður forsrh. sé sérstaklega að ráðast á utanrrh. og andmæla lykilatriði í því sem utanrrh. hefur haldið fram, m.a. í ræðum fyrir Íslands hönd á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég ætla ekki að taka það til umræðu hér og nú en auðvitað gefur þessi ágreiningur Hreins Loftssonar --- og væntanlega þar með einnig Björns Bjarnasonar, því að hann hefur fylgt Hreini Loftssyni í öllum þessum málum --- til kynna nokkuð alvarlegan ágreining innan ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Kannski kemur að því við annað tækifæri að við getum rætt við hæstv. forsrh. um hvaða afstöðu hann hefur vegna þess að það kann að vera mikilvægt í þessu máli.
    Ég vil af þessu tilefni óska eftir því að hæstv. utanrrh. fari sér hægt í frekari yfirlýsingum varðandi aðild Íslands að Vestur-Evrópubandalaginu og við fáum tækifæri til þess í utanrmn. og á Alþingi að ræða það mál nokkuð ítarlega áður en lengra er haldið.