Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 17:21:00 (2098)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
     Forseti. Ég ætla ekki að gera þær fréttir sem hingað hafa verið bornar inn að umræðuefni. Ég held að málið þurfi miklu ítarlegri umræðu en hér getur farið fram undir þeim dagskrárlið sem þetta mál er rætt núna en mig langaði aðeins til þess að upplýsa það að í byrjun vikunnar vorum við nokkrir þingmenn frá Alþingi staddir á fundi með þingmönnum Evrópubandalagsins og síðan með þingmannanefnd EFTA. Þá kom fram á fundi með þingmannanefnd Evrópubandalagsins, og þar var m.a. staddur Cohen frá framkvæmdanefnd EB, að framkvæmdanefndin fengi niðurstöður frá dómstólnum þann 13. des. sem var í gær og ég held að öllum megi vera það ljóst á þeim tímum upplýsinga sem við lifum, þegar hlutir gerast hratt og upplýsingar breiðast fljótt að fréttir um þetta hlytu að fara út fyrr en á sunnudegi, þ.e. það líði þarna einn eða tveir sólarhringar án þess að nokkuð færi út um þær niðurstöður sem dómstóllinn komst að. Ég vil því lýsa því yfir að mér finnst dálítið sérkennilegt ef EFTA hefur ætlað að bíða rólegt fram til morgundagsins eftir niðurstöðum sem áttu að liggja fyrir frá dómstólnum í gær.