Heilbrigðisþjónusta

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 13:06:00 (2104)

     Frsm. heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. Frv. er flutt af heilbr.- og trn. hv. Alþingis. Í grg. með frv. segir svo:
    ,,Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er reiknað með að frá og með næstu áramótum verði heilsugæslustarfi þannig háttað í Reykjavík og starfsemi Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur einnig að lög nr. 44/1955, heilsuverndarlög, með breytingu nr. 28/1957, verði óþörf og falli því úr gildi. Sérstök stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, sem starfar samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæði og á, auk þess að annast rekstur stöðvarinnar, að gera tillögur um framtíðarhlutverk hennar, hefur skilað tillögum sem unnar voru í samráði við héraðslækni og stjórnir heilsugæslustöðvanna í Reykjavík eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu. Þar sem nokkurn tíma tekur að koma þeim í endanlega gerð og til framkvæmda er nauðsynlegt að gefa stjórnendum tíma til þess að koma þeim í framkvæmd. Þess vegna er lagt til að veittur verði eins árs frestur til viðbótar því sem upphaflega var ákveðið í lögunum.``
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. en tel óþarft að vísa því til hv. heilbr.- og trn. þar sem nefndin flytur frv. og hefur því þegar fjallað um það. Það er brýnt að frv. verði að lögum fyrir áramót svo að stjórnun og rekstur heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík verði ekki í óvissu.