Heilbrigðisþjónusta

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 13:09:00 (2106)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið stendur heilbr.- og trn. öll að frv. sem hv. 7. þm. Norðurl. e., formaður hennar, mælti fyrir áðan. Þannig háttar til að snemma á þessu þingi var lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, flutt af hv. þm. Stefaníu Traustadóttur og fleiri þingmönnum Alþb. þar sem gert var ráð fyrir að ungbarnaeftirlit og mæðravernd yrði örugglega undanþegið gjaldtöku við heilsugæslustöðvar. Komið hafði í ljós að uppi væru áform um það af hálfu heilbrrn. að leggja gjald einnig á þessa þjónustu. Þessu frv. var mjög vel tekið í umræðum á Alþingi og því var vísað til heilbr.- og trn. og það hefur fengið þar nokkra meðferð. Niðurstaðan í nefndinni varð síðan sú, í framhaldi af útgáfu reglugerðar hæstv. heilbr.- og trmrh. um gjaldtöku á heilsugæslustöðvum þar sem heilsuverndarþátturinn er undanþeginn, að við ákváðum að flutt yrði frv. það sem hér liggur fyrir um framlengingu á sérstöku ákvæði gömlu heilsuverndarlaganna frá 1955, ákvæði sem í raun og veru snertir Reykjavík eina og hefur orðið að framlengja aftur og aftur, ég veit ekki hversu oft, satt að segja. Væri fróðlegt að fletta því upp í þingtíðindunum hversu oft þetta ákvæði hefur verið framlengt. Lengst af stafaði þetta auðvitað af því að andspyrna var af hálfu borgarstjórnaríhaldsins í Reykjavík við að framkvæma heilbrigðisþjónustulögin frá 1973 og 1978 og 1983 þó að aðrir landshlutar væru með sæmilega heilsugæslu og uppbyggingu heilsugæslustöðva í gangi.
    Með samþykkt frv. sem hv. 7. þm. Norðurl. e. hefur mælt fyrir yrði heilsuverndarþátturinn varinn áfram á þessu svæði en jafnframt tek ég undir það sjónarmið, sem fram kom hjá hv. 11. þm. Reykv., að nauðsynlegt er að festa þessi ákvæði í lögum til frambúðar sem er auðvitað skynsamlegast að gera. Það má þó vel gera með breytingu á almannatryggingalögum og jafnvel mætti einnig hugsa sér aðrar aðferðir.
    Ég þakka hv. formanni heilbr.- og trn. fyrir það hvernig hann hefur staðið að þessu máli og samstarfsmönnum okkar í heilbrigðisnefndinni, bæði meiri hluta og minni hluta. Þar hafa vinnuhefðir þróast með þeim hætti að það mætti vafalaust verða til einhverra nota fyrir aðrar þingnefndir að fylgjast með því hvernig þar er tekið á hlutum. Þar reyna menn að ræða sig í gegnum mál með eðlilegum hætti og reyna að komast að lýðræðislegri, sanngjarnri og málefnalegri niðurstöðu og fyrir það er full ástæða til að þakka.