Orkusáttmáli Evrópu

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 15:52:00 (2117)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Á ýmsan hátt er mjög eðlilegt að flestar þjóðir á meginlandi Evrópu hafi hag af að gera sáttmála af því tagi sem hér er verið að ræða. Hins vegar er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að sérstaða Íslands er afgerandi í þessum efnum. Hún felst í því að við erum um 260 þús. manna þjóð í landi sem á gífurlega miklar vannýttar orkulindir, orkulindir sem eiga eftir að verða mjög dýrmætar í framtíðinni þegar aðrar orkulindir hafa í för með sér vaxandi mengun. Sá sáttmáli sem hér er til umræðu felur í sér tilraun fulltrúa þessara ríkja til að ná ákveðinni málamiðlun, málamiðlun annars vegar milli þess sjónarmiðs að hver þjóð hafi forræði yfir sínum orkulindum og hins vegar þeirrar markaðskröfu að allar þjóðir eigi að hafa jafnan og frjálsan aðgang að orkulindum hver annarar. Við Íslendingar höfum allt frá sjálfstæðisbaráttu okkar talið það grundvallarþátt sem við mundum ekki víkja frá að við einir ættum í senn að hafa forræði og fullveldi yfir orkulindunum okkar og við einir ættum að hafa aðgang að því að virkja þær nema við kysum sjálfir að ákveða í einstökum tilvikum að hafa annan hátt á. Vandinn sem þessi sáttmáli, sem undirritaður verður á morgun, færir okkur í hendur felst fyrst og fremst í því að með undirrituninni er verið að gangast undir þá meginreglu að veita einnig öðrum þjóðum jafnan aðgang að nýtingu orkulindanna. Það kemur fram í erlendum blaðafrásögnum af þessari samningagerð að erfiðasti hnúturinn var að finna málamiðlun milli sjónarmiða sem við höfum hingað til talið að við ættum ekki að fara í neina málamiðlun um. Grundvallarreglan um frjálsan aðgang að orkulindum felur það í sér að þegar við værum búin að ákveða að byggja tiltekna virkjum hefðu útlendingar jafnan rétt á við okkur til að eiga virkjunina og reisa hana. Það er grundvallarsjónarmið sem við getum ekki fallist á. Við höfum verið sammála um það, allir hér á Alþingi, að útlendingar gætu ekki eignast rétt í okkar fiskimiðum í samningum um Evrópskt efnahagssvæði og við hljótum eins að fylgja þeirri grundvallarreglu að útlendingar geti aldrei fengið jafnan rétt á við okkur til að nýta orkulindirnar.
    Það er rétt sem hér var sagt af hæstv. forsrh. að þetta er ekki lögformlegur samningur. Þetta er hins vegar sáttmáli um þær grundvallarreglur sem byggja á hinn lögformlega samning á. Ef það er undirritað án fyrirvara af Íslands hálfu hvað þetta snertir standa hinar þjóðirnar í góðri trú um það að við ætlum líka að fallast á grundvallarregluna um frjálsan markaðsaðgang að orkulindunum eins og kemur fram á bls. 4 í minnisblaði frá iðnrn. frá 11. nóv., sem sent var iðnn. og utanrmn., þar sem segir að rauði þráðurinn í þessari sáttmálagerð sé m.a. að veita frjálsan aðgang að orkulindunum.
    Ég hef fengið í hendur texta af prótókoll sem þegar liggur fyrir í uppkasti og fylgja á þessum sáttmála sem lögformlegur gerningur. Í því uppkasti sem ég hef frá 6. sept. stendur að hvert aðildarríki skuldbindi sig til þess að sérhvert fyrirtæki, erlent sem innlent, hafi frjálsan aðgang að því að nýta orkulindirnar. Við töldum þess vegna mjög mikilvægt, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á fundi utanrmn. á laugardag og í morgun, að það yrði gert alveg skýrt af Íslands hálfu að í fyrsta lagi ætluðum við okkur að sjálfsögðu fullt forræði og fullveldi yfir okkar orkulindum, og þarf í sjálfu sér ekki að taka það fram, en hins vegar áskildum við okkur líka rétt til að takmarka nýtingarréttinn á orkulindunum við Íslendinga eina. Það hefði verið mjög æskilegt að slíkur formlegur fyrirvari lægi skýrt fyrir, skrifaður, af hálfu Íslendinga við undirritun þessa sáttmála. Í þessum sáttmála og í samningagerðinni sem á að fylgja honum er verið að reyna að sætta sjónarmið þeirra ríkja sem eiga ekki orkulindir og hinna ríkjanna sem eiga orkulindir. Ríkin sem ekki eiga orkulindir vilja fá viðurkenningu á því að fyrirtæki frá þeim geti með frjálsum hætti fengið að nýta orkulindir hinna. Við Íslendingar getum ekki fallist á það frekar en við getum fallist á að erlendar þjóðir fái rétt og frjálsan aðgang til að nýta okkar fiskimið.
    Ég tel þess vegna mjög gagnlegt að þessi umræða hefur farið fram. Ég tók eftir að hæstv. forsrh. lýsti sams konar skilningi á afstöðu Íslands og fram kom í upphafsræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar. Ég tel það af hinu góða vegna þess að ég tel það frumatriði í stjórnmálastarfi hér á Íslandi að við verðum áfram sammála um það, öll þjóðin, að við ætlum okkur ekki bara forræði yfir orkulindunum heldur ætlum okkur sjálfsagðan og ótakmarkaðan rétt til handa okkur einum til að nýta orkulindirnar.