Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 18:38:00 (2127)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég mun hér öðru fremur fjalla um þau atriði í þessu frv. sem snúa að atvinnurekstrinum og stöðu atvinnulífsins. Menn hafa í þessum umræðum vitnað nokkuð til málflutnings hæstv. núv. fjmrh. frá fyrri tíð um þessi atriði. Ég mun ekki gera það enda finnst mér það mál í raun hætt að vera hlægilegt. Það var kannski hægt að skemmta sér aðeins yfir því í umræðunum um skattinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er nú komið langt út fyrir ramma þess sem hægt er að brosa að þegar núv. hæstv. fjmrh. þarf að bera á borð fyrir okkur nokkuð sem gengur þvert á það sem hann hefur haldið fram hér áður.
    Ég ætla að byrja á því að lýsa ánægju minni yfir því að komið er inn í þetta frv. ákvæði um samvinnuhlutabréf og um leið lýsa ánægju minni yfir því að núv. hæstv. viðskrh. og reyndar fyrrv. viðskrh. líka í fyrri ríkisstjórn gekk ötullega fram í því að koma þeim breytingum á í lögum um samvinnufélög að samvinnufélög gætu kallað til sín eigin fé á líkan hátt og gert er í hlutafélögum.
    Nú er þetta mál er þess eðlis að full ástæða hefði verið til þess að taka það til verulegrar efnislegrar umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. Það eru fleiri atriði en koma fram í þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frv. sem hefði verið full ástæða til þess að skoða en ég mun koma að þeim hér síðar.
    Þá kem ég að því, virðulegi forseti, í hvert horf mál eru komin á þessu haustþingi. Nú þegar einungis eru eftir þrír eða fjórir dagar af þeim tíma sem að hámarki er til ráðstöfunar fram að jólum standa mál þannig að við þingmenn stjórnarandstöðunnar, og tala ég nú út frá sjónarhóli okkar sem erum í efh.- og viðskn., vitum ekkert enn þá hvað það er sem ríkisstjórnin ætlar að leggja til endanlega í skattamálum. Við höfum verið að fá mál til umfjöllunar sem taka miklum efnislegum breytingum í formi breytingatillagna sem birtast okkur inni á nefndarfundi. Þetta leiðir hugann að því, virðulegur forseti, að nú hafa mál skipast á þann veg að núv. hæstv. ríkisstjórn er búin að koma hlutunum þannig fyrir að

sú tilraun sem menn vildu gera með breyttum þingsköpum, með Alþingi í einni málstofu, verður alls ekkert marktæk á þessu haustþingi. Eins og ég skildi það þá var meiningin að nefndirnar fengju rýmri tíma til þess að fjalla um mál og gætu að nokkru leyti starfað sjálfstætt. Nú segir sjálfsagt einhver að þetta sé engin breyting frá því sem var áður og það má sjálfsagt til sanns vegar færa. En það var stefnt að breytingu. Það var stefnt að því að mál kæmu þannig fyrir nefndir að þær hefðu betri tíma til umfjöllunar og í raun er forsenda þess að þingið starfi í einni málstofu að það gefist betra tóm til þess að fara yfir málin í nefndum.
    Ég vil nefna það líka að samkvæmt nýju þingsköpunum er hugsanlegt að mál þurfi að koma aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og hugsanlega að fara til aukaumfjöllunar eftir 3. umr. Við sjáum hvert svigrúm er til slíkra hluta eins og nú er komið.
    Ég ætla aftur að hverfa að því málefni sem ég hóf mál mitt á, þ.e. breytingar á skattalögum sem tengjast þeim breytingum sem gerðar voru á samvinnulögum á síðasta þingi. Þær breytingar sem komnar eru fram núna virðast þess eðlis að ákvæði laganna um hlutabréf og jöfnunarhlutabréf gildi einnig um samvinnuhlutabréf. Jafnframt skulu ákvæði um hlutabréf í lögum um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri einnig gilda um samvinnuhlutabréfin. Það virðist vera komið til móts við þessi sjónarmið. Fleira væri ástæða til þess að taka upp. Ég nefni að í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt eru ákvæði um skattaréttarlegar skyldur og réttindi þegar hlutafélag sameinast hlutafélagi, samvinnufélag samvinnufélagi, sameignarfélag sameignarfélagi eða sameignarfélag hlutafélagi. Það hefði þá verið eðlilegt, að mínu mati, að sömu reglur mundu gilda að þessu leyti um sameiningu hlutafélags við samvinnufélag. Ég nefni að í nýsamþykktum lögum um samvinnufélög er möguleiki á því að hlutafélag sem er að 90% í eigu samvinnufélags geti sameinast hlutafélagi. Því hlýtur það að vera í hæsta máta eðlilegt að inn í lögin væri einnig tekið ákvæði þess eðis að við slíka sameiningu nytu samvinnufélögin sömu skattalegra réttinda og hin dæmin sem ég nefndi hér áður. Þetta er eitt af þeim atriðum, hæstv. fjmrh., sem ég hefði talið æskilegt að hv. efh.- og viðskn. hefði haft tóm til að athuga og hugsanlega taka upp. Það gerist þó ekki þannig að ég hef hugsað mér að bera fram breytingartillögu í þessa veru áður en þetta mál kemur til 2. umr.
    Ég ætla næst að koma að þeirri umgjörð sem atvinnulífinu er búin í dag. Ég ætla að fara örfáum orðum um hlutabréfamarkaðinn sem hefur verið að byggjast upp á síðustu árum, að vísu veikburða, en nú er svo komið að þar er alger stöðnun og miklu meira en stöðnun, það er verðhrun af þeirri stærðargráðu að erlendis er því slegið upp sem kauphallarhruni ef hlutabréfavísitala lækkar á við það sem hún hefur gert hér á Íslandi síðustu vikurnar og mánuðina. Það tímabil sem fram undan er er afskaplega viðkvæmt og ekkert má út af bera ef á að takast að halda áfram þeirri þróun að fyrirtækin nái að byggja sitt eigið fé að einhverju leyti upp með sölu eða útgáfu hlutabréfa á almennum markaði. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. skilur eftir að hafa haldið um það margar og hjartnæmar ræður á þinginu og reyndar komið fram margvíslegum breytingum, ef ég man rétt, á lögum um hlutafélög og á skattalögum til þess að auðvelda þessa aðlögun.
    Ég ætla þá að koma í framhaldi af því að einum afmörkuðum þætti þessa máls, þ.e. sölu ríkisfyrirtækja, að breyta þeim í hlutafélög og bjóða til sölu á almennum hlutafjármarkaði. Þar er ég sérstaklega með í huga afskaplega glannalegar yfirlýsingar hæstv. forsrh. á eftir næturfundinn margfræga í ráðherrabústaðnum. Ég man ekki hvort hæstv. fjmrh. gaf viðlíka yfirlýsingar. Ég vil reyndar ekki trúa því. Hæstv. forsrh. lýsti því sem einum af hornsteinum fyrirhugaðra efnahagsaðgerða að breyta Búnaðarbankanum í hlutafélag strax upp úr áramótum og bjóða til sölu á almennum markaði. Ég man að hæstv. fjmrh. hefur reyndar talað mjög gáleysislega um þessa sölu líka þar sem hafa verið yfirlýsingar

hans um það að bjóða hlutabréfin á hálfvirði. Hægt væri að fara í langa rökræðu um hvað það gæti leitt af sér.
    Menn tala um að breyta fleiri ríkisfyrirtækjum í hlutafélög og selja á frjálsum markaði. Nú er ég ekki að taka neina efnislega afstöðu til þess að ríkisstjórn áætli að selja einhver ríkisfyrirtæki. En ég vil leyfa mér að varpa þeirri spurningu fram til hæstv. fjmrh. og biðja hann að svara mér því hvaða afleiðingar hæstv. fjmrh. telur að það mundi hafa á hlutafjármarkaðinn í þeirri veiku stöðu, sem hann er í núna og verður fyrirsjáanlega í einhver næstu missirin, ef á að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög og demba þeim út á hlutafjármarkaðinn. Það var efnislega það sem hæstv. forsrh. sagði þegar hann kynnti þennan þátt efnahagsaðgerða sinnar ríkisstjórnar. Er ekki, hæstv. fjmrh., ástæða til þess að stuðla frekar að því að byggja grunnatvinnuvegina upp á þann hátt að þeir eigi aðgang að því fjármagni sem verður í umferð á næstunni til kaupa á hlutabréfum í atvinnulífinu?
    Ég vil taka fram í þessari umræðu hér og nú að varðandi ríkisbankana hef ég verið eilítið skotinn í þeirri hugmynd að skoða það hvort sparisjóðirnir hefðu bolmagn til þess að kaupa hluta af Búnaðarbankanum eða hann allan. Sparisjóðirnir starfa eftir ákveðnu lögformi sem í raun er í almenningseign.
    Þetta beinir síðan huganum að þeirri hugmyndafræði sem hlýtur að vera á bak við það munstur sem menn vilja hafa í atvinnulífinu. Ég hef fylgst eilítið með átökum sem virðast vera í uppsiglingu í Evrópu núna í tengslum við sameiginlegan markað þar. Þar rekast saman annars vegar thatcherisminn breski, sem byggir á hreinni peningahyggju, og hins vegar sú hugmyndafræði sem hefur verið á bak við uppbyggingu atvinnulífsins víða á meginlandinu, kannski sérstaklega í Þýskalandi og Austurríki eftir stríð, sem byggir í raun á allt öðrum hlutum, á því að menn eru mjög íhaldssamir gagnvart eignaraðild í fyrirtækjum. Fyrirtækin eiga sér raunverulega eigendur sem bera velferð þeirra fyrir brjósti, ekki bara hvar þeir geta ávaxtað peningana best í augnablikinu. Bankarnir standa mjög ákveðið að baki atvinnulífinu og atvinnulífið tekur mikið tillit til vinnuþáttarins, framlags hins vinnandi manns, með þeim árangri að í þessum löndum eru vinnudeilur nánast óþekkt fyrirbæri á síðustu árum og hagvöxtur og lífskjör þau bestu sem þekkjast í heiminum. Ég var staddur í Austurríki í sumar og okkur var sagt að þar teldu menn verkföll, tapaðar vinnustundir á síðustu árum ekki í mánuðum og ekki í vikum, ekki einu sinni í dögum, varla í klukkutímum. Þeir héldu að það væri bara í mínútum. Meðan hin stefnan, hin hreina peningahyggja thatcherismans, hefur kostað mikil átök á vinnumarkaði og mikil þjóðfélagsátök að öðru leyti.
    Ég er þess fullviss að sú stefna, sem hæstv. fjmrh. hefur viljað framfylgja með tillöguflutningi sínum á Alþingi á undanförnum árum, hefur tekið miklu meira mið af meginlandsstefnunni, þýsk-austurrísku stefnunni en af thatcherismanum. Í því sambandi er skylt að geta þess að angar þeirrar stefnu, þ.e. thatcherismans, ná vissulega hingað til lands eins og hann Nóri fræðir okkur um í nýútkominni bók. Þess vegna full ástæða til þess að skoða hvaða hagsmunum frv. að breytingum á skattalögunum, sem liggur frammi núna, þjónar í þessu tilliti. Ég er þeirrar skoðunar að þetta frv. sé kolkrabbanum hans Nóra nokkuð þóknanlegt. Það muni, ef eitthvað er, gera það að verkum að hann geti bætt fleiri og öflugri fyrirtækjum á sinn matseðil en kom fram í ræðu hv. 5. þm. Suðurl. á næturfundi við 2. umr. fjárlaganna. Þetta getum við allt saman rætt frekar og við munum þurfa að taka okkur verulegan tíma í efh.- og viðskn. til þess að kalla til aðila vinnumarkaðarins og fá þeirra álit á þeim breytingum sem hér er verið að leggja til.
    Ýmislegt hefur verið rætt hér um þær breytingar sem eru lagðar til gagnvart tekjuskatti einstaklinga. Ég ætla ekki í þessari umferð að fara mörgum orðum þar um en þó ætla ég að ræða eilítið um sjómannafrádráttinn. Ég er þeirrar skoðunar að ef einhver stétt í

þessu landi eigi að njóta skattalegra fríðinda í því formi, sem þarna hefur verið um langt árabil, sé það sjómannastéttin. Það hefur verið reynt að halda því fram að með þessum breytingum sé í raun verið að reyna að tryggja að svo megi verða áfram. Hafi það verið hugsun hæstv. fjmrh. þegar farið var af stað með þessa hugmyndafræði hafa þeir hinir góðu menn, sem sömdu greinargerðina fyrir hann, aldrei fengið þau skilaboð. Það er búið að fjalla heilmikið um þá greinargerð hér þannig að ég ætla að hlífa hæstv. fjmrh. við að lesa upp úr henni frekar en þær síður eru hreint með eindæmum. Ég veit eiginlega ekki hvaða bakgrunn eða hugmyndafræði þeir aðilar hrærast í sem setja þau sjónarmið fram. Það er í raun mjög við hæfi að það skuli gerast nú, einmitt þegar þessi umræða er í gangi, að hér skuli sitja á Alþingi tveir af forustumönnum sjómannasamtaka í landinu. Þeir geta svarað fyrir þessi atriði og reyndar held ég að full ástæða væri til þess að þeir svöruðu fyrir fleiri atriði gagnvart sjómannastéttinni sem hafa komið fram á hinu háa Alþingi í haust. Ég kann ekki að nefna það hversu oft einstakir hv. þm. hafa staðið í ræðustóli í haust og farið þungum orðum um sjómannastéttina vegna þess að hún fleygði afla svo skipti tugum þúsunda tonna. Hundruð þúsunda eru hæstu tölur, sem hér hafa heyrst, að þeir fleygðu þeim fyrir borð. Ég hef áður sagt það hér að þetta samrýmist á engan hátt þeirri virðingu sem ég ber fyrir þessari ágætu stétt manna.
    Virðulegi forseti. Ég vil leita eftir því hvað forseti ætlar að halda fundi lengi áfram hér í kvöld. ( Forseti: Það var ætlunin að fresta fundi kl. 7 og byrja aftur kl. hálfníu. Ef hv. þm. á eftir langt mál væri kannski rétt að hann frestaði ræðunni. Ef ekki er langt eftir af ræðu hans væri í lagi að ljúka henni þó hún færi aðeins fram yfir kl. 7.) Virðulegi forseti. Ég á eftir eilítið af ræðu minni og það stendur þannig á að boðaður hefur verið fundur í hv. efh.- og viðskn. klukkan sjö þannig að ( Forseti: Þá vill hv. þm. kannski fresta ræðunni núna?) þá mundi ég gjarnan fresta ræðunni. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Nú stendur þannig á að þegar fundi er fram haldið um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt að þá er hv. efh.- og viðskn., sú nefnd sem á að fjalla um málið, enn á fundi úti í Þórshamri og ekki fyrirséð hvenær honum lýkur. Þar var búið að kalla fyrir hóp af fólki frá einum þrem aðilum. Nefndarmenn höfðu reiknað með því að einhver tími gæfist í dag til nefndarstarfa en það fór þannig að kvöldmatartíminn var tekinn til þessara hluta. Þannig að, virðulegi forseti, ég get lokið minni ræðu, ég átti ekki mikið eftir. En ég held að það sé alveg ómögulegt að halda þessari umræðu áfram þegar kemur að þætti þingmanna sem ekki eru í hv. efh.- og viðskn. og geta ekki komið sínum sjónarmiðum á framfæri þar meðan nefndin er enn að störfum. Þetta, virðulegi forseti, segir mér í hvert óefni þingstörf eru komin. Eftir þennan fund í kvöld í efh.- og viðskn. er mér alveg lífsins ómögulegt að átta mig á því hvernig menn ætla að klára þingstörf á þessum fáu dögum sem eftir eru.
    Ég vil nefna það, hæstv. fjmrh., af því ráðherra greip hér fram í, að á þeim fundi voru m.a. forsvarsmenn Sambands ísl. sveitarfélaga. Þeir upplýstu okkur um framkvæmd mála hér gagnvart þeim og sá mikli þungi sem var í þeirra málflutningi gagnvart hæstv. ríkisstjórn er þess eðlis að mikið hlýtur að ganga á áður en þau mál ná öll sömul fram. Maður heyrir reyndar hér á göngum Alþingis að þær breytingar sem við fengum þar inn í morgun um lögguskattinn svonefnda hafi þá, þegar við fengum það í hv. efh.- og viðskn., nánast verið óræddar í þingflokkum stjórnarflokkanna. Við heyrum það líka hér á göngunum að menn séu á harðahlaupum frá sjómannaafslættinum. Þær fréttir sem við fáum frá fjárln. eru þess eðlis að þar séu hin stóru mál, sem var frestað við 2. umr., órædd. Þetta gerist allt, virðulegi forseti, á þeim tímum þegar við ætluðum að taka upp nýja siði með nýjum þingsköpum Alþingis í einni málstofu, sem átti að byggjast á því að mál væru unnin betur í nefndum en áður hafði verið. Það er þess vegna engin afsökun þó menn haldi

því fram að mál hafi ekki komið fyrr fram á fyrri þingum. Það voru nýjar dagsetningar núna, m.a. með afgreiðslu fjárlaga, og þar af leiðandi hlutu þær nýju dagsetningar, hæstv. fjmrh., líka að gilda gagnvart framlagningu fylgifrumvarpanna, skattafrumvarpanna, sem við höfum í nefnd núna, hv. efh.- og viðskn. í því formi að við fáum þar inn breytingartillögur á breytingartillögur ofan frá ríkisstjórninni. Við fengum breytingartillögur við bandorminn í morgun. Fyrir fundi nefndarinnar áðan lágu viðbótarbreytingartillögur um sama atriði, sem var ábyrgðasjóður launa, sem í raun snýr þeim kafla öllum við.
    Þetta eru slík vinnubrögð, miðað við það sem menn ætluðu sér með nýjum þingsköpum og nýjum vinnubrögðum á Alþingi, að það er algjörlega óviðunandi. Full ástæða hefði verið til þess, virðulegi forseti, en ég ætla ekki að gera kröfu til þess, að hér hefði hæstv. forsrh. verið kallaður til og þessi staða mála skoðuð í ljósi ummæla hans um Alþingi fyrir hálfum mánuði síðan. Það hefði verið full ástæða til þess. Við hefðum haft eilitla umræðu um það á hvers ábyrgð það er að þinghald er komið í það horf sem nú er. Það er ekki á ábyrgð nokkurs annars en hæstv. ríkisstjórnar, sem hefur ekki komið fram með mál sem þarf að fjalla um. Þegar þau loksins birtast er algjörlega óljóst hvað það er sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggja fram, hvað það er sem samstaða er um. Ég hef af nógu að taka varðandi þessa stöðu mála þar til hv. efh.- og viðskn. kemur til fundar. En ég ætla að hætta hér þessum málflutningi. Ég ætla líka að segja það við hæstv. fjmrh. að ég sé engan tilgang í því að ræða frekar frv. um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt meðan ástandið er eins og það er núna. Reynslan sýnir okkur að ekkert er að marka hvað ríkisstjórnin leggur til í dag, miðað við þær tillögur sem koma fram á morgun. Það hefur verið reynsla síðustu daga.
    Okkur var sagt hér undir morgun á föstudeginum að ríkisstjórnin væri að ganga til samninga við Samband ísl. sveitarfélaga kl. átta um morguninn um breytingar á þeim milljarði sem lagt var til að leggja á sveitarfélögin. Þeir samningar, hæstv. fjmrh., höfum við stjórnarandstæðingar upplýsingar um, fólust í því að þar var birt tilkynning, ný tilskipun, um að í stað þess að færa álögur, sem tengjast málefnum fatlaðra, yfir á sveitarfélögin og breytingar á landsútsvari og Jöfnunarsjóði hafi þar verið birt ný tilskipun. Hún felur í sér að 700 milljónir af kostnaði við löggæslu í landinu yrðu færðar yfir á sveitarfélögin í formi nefskatts, 2.850 kr. á íbúa í sveitarfélögum með fleiri 300 íbúa, 1.700 kr. í öðrum. Þetta er algjörlega óháð því hvernig viðkomandi sveitarfélög njóta þessarar löggæslu. Þau hafa ekkert forræði um það hvernig þessu fjármagni er varið. Það má benda á, hæstv. fjmrh., að að öllum líkindum er þetta brot á 116. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem segir skýrt að gagnvart allri verka- og kostnaðarskiptingu við sveitarfélögin í landinu beri að hafa samráð. Það getur vel verið að hæstv. núv. ríkisstjórn telji að samráð eigi að fara þannig fram að sá aðili sem telur sig vera sterkari í málinu gefi út tilskipanir. En það heitir ekki samráð í minni orðabók.
    Virðulegi forseti. Ég lýk hér máli mínu. Ég ítreka það sem ég sagði áður í ræðu minni að ég held að það sé algjörlega útilokað að halda þessari umræðu áfram meðan hv. efh.- og viðskn. er enn á fundi. Það væri álíka og að hér væru menn við 2. umr. fjárlaga með fjárln. starfandi úti í Austurstræti. Það hefur væntanlega ekki nokkrum manni dottið í hug.