Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 21:05:00 (2133)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Ég byrja á því að taka undir þau sjónarmið sem hafa komið fram hjá hv. 10. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Austurl. Ég bendi á að þegar málið er komið fram sem þingskjal frá hendi ríkisstjórnarinnar er það eftir það í höndum þingsins og fer að lokinni umræðu til nefndar. Því er eðlilegt og sjálfsagt sjónarmið að nefndin sé viðstödd umræðuna og mun frekar að hún sé það en hæstv. ráðherra sem er ekki hinn formlegi aðili

málsins eftir að málið er komið til umræðu.
    Mig langar til að fara nokkrum orðum um þetta frv. Það er býsna margt sem hægt er að ræða um í nokkuð löngu máli og ítarlegu. Til að stytta mál mitt tek ég fram um barnabætur og þær breytingar sem áformað er að gera á þeim að ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram, m.a. hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. og 3. þm. Vesturl., og nú síðast tek ég að verulegu leyti undir sjónarmið hv. 10. þm. Reykv.
    Ég nefni fyrst ýmsar breytingar varðandi rekstur hlutafélaga. Hér er um að ræða að mörgu leyti mjög skrýtnar breytingar, sérstaklega í ljósi þess að að þeim standa flokkar sem hafa talið sig sérstaka talsmenn og málsvara atvinnurekstrar og sérstaklega hlutafélagaforms. Ég bendi á að í 31. gr. laga um tekju- og eignarskatt er nákvæmlega skilgreint hvað það er sem er skylt og rétt að telja sem frádrátt frá rekstri í fyrirtækjum og þar er sérstaklega tekið fram að það sé kostnaður sem beri að færa til gjalda enda hafi menn talið rétt fram eins og vera ber. Það kemur því dálítið á óvart að sjá hluti eins og í 4. gr. frv. um rekstrartöp og meðferð á þeim. Satt að segja kemur mér þetta svolítið í opna skjöldu og ég hélt að menn hefðu ekki hugmyndaflug til að láta sér detta í hug breytingar af þessu tagi. Rekstrartap er í raun og veru ekkert annað en kostnaður og að ætla sér að láta þennan kostnað falla milli skips og bryggju að fimm árum liðnum er í raun og veru dálítið skondið, svo ekki sé meira sagt. Ég þykist skilja hvaða vandamál menn eru að reyna að ná utan um, sölu á rekstrartapi á milli félaga, en að mínu viti bera menn niður á röngum stað því að það tap sem myndast í félagi er í raun og veru tekið af höfuðstól og það eru skuldir á bak við það tap sem fyrirtækið verður að standa undir, greiða vexti af og síðar að borga. Ég tel óeðlilegt að ætla sér að höggva aftan af þessu tapi að loknum fimm árum hafi fyrirtækið ekki haft nægilegan hagnað fram að þeim tíma til að eyða því eða til að borga það upp.
    Það er svo aftur annað mál með hvaða hætti menn eiga að leyfa flutning á tapi á milli félaga. Vandamálið sem menn glíma í raun og veru við er að fyrirtækið er að selja rekstrartap fyrir brot af upphæðinni þannig að kaupandinn hefur hagnað út úr kaupunum. Menn eru kannski að kaupa mikið rekstrartap fyrir 10% af upphæðinni og fá á móti 45% lækkun á tekjuskatti, þannig að hér er þá um að ræða 35% nettóskatt miðað við þetta kaupverð sem er ekki óalgengt. Ég tel eðlilegra að menn taki á málinu þarna með því að setja í lög einhverjar takmarkanir á sölu rekstrartaps á milli fyrirtækja. Mér sýnist að eðlilegasta leiðin væri kannski að setja reglur um það hámark sem menn mega nýta sér og það verði tengt við kaupverðið til að koma í veg fyrir þennan ágóða sem að mörgu leyti er ekki eðlilegur í hendi kaupanda.
    Hvað varðar seinni liðinn í 4. gr., sem hefur það í för með sér að greiðsla á arði af hlutabréfum verður skattskyld hjá fyrirtækinu sem greiðir út arðinn, þá tel ég þá breytingu mjög óeðlilega. Hún hefur í för með sér, eins og hér hefur verið nefnt, hættu á því að vilji fyrirtækis til að skila hagnaði og borga hann út minnki og vilji fólks til að eiga hlutabréf í fyrirtækjum minnki líka. Ég bendi á það að ef sá sem á hlutabréfin og fær arðinn er hlutafélag eru þær arðtekjur skattskyldar að fullu hjá móttakanda en greiðslan er ekki frádráttarbær hjá þeim sem lætur hana af hendi. Um er því að ræða óeðlilega mismunun þar sem hin eðlilega skattalega meðferð er að útgjöld á einum stað séu tekjur á öðrum.
    Það blasir líka við í íslensku efnahagslífi, og sérstaklega í sjávarútvegi, nauðsyn á því að endurfjármagna mjög mörg fyrirtæki --- ellegar stofna ný fyrirtæki sem taki við af hinum eldri. Til þess að það verði gert þarf fólk að leggja fram verulegt fé í einstökum byggðarlögum á landsbyggðinni, svo maður nefni afmörkuð dæmi sem eru mjög augljós. Það er þá frekar af hálfu löggjafarvaldsins að setja reglur sem auðvelda mönnum þessa

uppbyggingu og endurfjármögnun og gerir það fýsilegri kost að setja fé sitt á þennan stað í stað þess að geyma það í banka eða velja aðra kosti. Íslensku þjóðfélagi verður ekki haldið uppi nema með því að sjávarútvegsfyrirtækin verði áfram fyrir hendi. Jafnvel þó að hagræðing í formi sameiningar fyrirtækja auðveldi málið að nokkru leyti er það fjarri því, að mínu viti, að duga nokkuð til þess að lækka skuldir í þessari atvinnugrein nægjanlega mikið, þannig að fyrirtækin geti borið sig, miðað við núverandi rekstrarskilyrði. Sá böggull fylgir nefnilega því skammrifi að sameina tvö stór og skuldug fyrirtæki að skuldirnar minnka ekkert við það heldur verða einfaldlega summan af skuldum fyrirtækjanna eins og þær voru áður. Raunverulegur ávinningur af sameiningu fyrirtækja næst ekki fram nema einhver aðili fáist til að kaupa þær eignir sem menn geta látið ganga af og minnkað skuldir með þeim hætti. Hins vegar er fjarri því að í öllum tilvikum sé til einhver aðili sem er reiðubúinn að kaupa slíkar eignir.
    Varðandi fyrri liðinn, svo að ég víki aðeins aftur að honum, get ég nefnt sem dæmi að á árinu 1988, þegar fastgengi var, varð verulegt tap í sjávarútvegi af völdum fastgengisins eins. Það má deila um það hvað það sé há upphæð í krónutölu en ég hef áætlað að þetta liggi í dag á bilinu 8--10 milljarðar kr. þegar á tapið hefur verið bætt vaxtakostnaði í þennan tíma. Miðað við þær reglur sem menn eru að taka upp í a--lið 4. gr. ætti allt þetta tap í þessum fyrirtækjum að detta út af borðinu eftir tvö til þrjú ár þar sem þá væri komin fimm ára regla á þetta rekstrartap. Mér finnst það í sjálfu sér ekki mjög skynsamlegt. Menn verða einfaldlega að horfa framan í þann veruleika sem blasir við, að þetta mikla uppsafnaða rekstrartap í sjávarútvegi, upp á tugi milljarða króna, er í raun og veru hin hliðin á efnahagsstefnu stjórnvalda undanfarinna ára. Það er afleiðingin af vitlausri stefnu í gengismálum og vaxtamálum. Það er eins gott að menn taki á hinu raunverulega vandamáli sem er þess valdandi að þetta rekstrartap myndast í stað þess að fara að minnka uppsöfnuð rekstrartöp með beinum lagafyrirmælum. Staða fyrirtækjanna breytist ekkert við það til batnaðar. Ég tel því báða töluliði 4. gr. frv. slæma og hvet nefndina til að endurskoða greinina.
    Í 2. gr. er lagt til að breyta ákvæðum í núgildandi skattalögum um dreifingu á söluhagnaði. Það er ákvæði sem að mínu viti er rétt að taka til endurskoðunar. Ýmislegt hefur breyst frá því að sú lagagrein var sett þar sem mönnum var heimilt að dreifa skattskyldum söluhagnaði á þau ár sem menn fengu hagnaðinn raunverulega greiddan. Hugsunin var einfaldlega sú að menn greiddu þá hagnaðinn nokkurn veginn jafnhliða því sem menn fengju söluandvirði greitt og er það ekki óeðlileg hugsun. Breytingin sem orðið hefur er sú að menn hafa í ríkara mæli nú en áður getað selt þær skuldaviðurkenningar sem eru á bak við söluna og tilefni dreifingar á skattskyldum hagnaði, söluhagnaði, og breytt því í reiðufé strax. Ég tel því rétt og eðlilegt að endurskoða þetta ákvæði þó svo að það sé að mínu viti ekki sjálfgefið að fella þessa heimild að fullu niður.
    Í 7. gr. frv. er mjög merkileg samsuða sem hefur þann tilgang að vera regla um það hvenær má flytja uppsafnað rekstrartap á milli félaga. Eins og ég gat um áðan tel ég eðlilegt að menn hafi um þetta reglur og takmarkanir á því en ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að setja reglur sem draga úr þeim ávinningi af kaupum á rekstrartapi sem er í dag. Mér sýnist að þessi grein loki alveg fyrir það þannig að eins gott sé að segja bara að óheimilt sé að flytja rekstrartap á milli félaga og þá nái menn þeim markmiðum sem þeir eru að reyna að orða í 7. gr. með miklu einfaldari og skýrari hætti en þarna er gerð tillaga um.
    Það eru nokkur atriði í 7. gr. sem ég vil fara yfir sérstaklega og leita svara við hjá hæstv. fjmrh. Það er í fyrsta lagi hvernig beri að skilja orðalagið: ,,í rekstrarlegu hagræðingaskyni eða öðrum venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi``. Það var ekki einfalt að

skilja þetta og enginn einhlítur skilningur á þessum orðum að mínu mati. Ég held ef menn ætla að hafa þessa klásúlu inni í greininni að þá þurfi frekari skýringu á tilgangi og meiningu þessara orða.
    Gerð tillaga um að breyta orðalagi núgildandi 57. gr. á tveimur stöðum og ég tel ástæðu til þess að nefna það og fá skýringar frá hæstv. ráðherra. Í núgildandi lögum er orðalagið haft þannig, að til þess að flytja rekstrartap þurfi það félag sem við tekur að stunda skyldan rekstur. Hér er orðalaginu breytt í sams konar rekstur og ég spyr hvort hér sé einhver merkingarmunur. Síðan vil ég vekja athygli á breytingu, þar sem 57. gr. núgildandi laga segir, með leyfi forseta: ,,Sama gildir þegar það félag sem slitið var átti fyrir slitin óverulegar eignir og hafði engan rekstur með höndum``. Þessi tvö skilyrði urðu að vera uppfyllt. En í frv. er þessu ,,og`` breytt í ,,eða`` þannig að hér verður um að ræða ,,óverulegar eignir eða hafði engan rekstur með höndum`` sem þýðir í raun og veru að nægjanlegt sé að annað skilyrðið sé uppfyllt, þá sé flutningurinn óheimill eða þannig skil ég þessa breytingu.
    Ég bendi líka á orðalagið ,,óverulegar eignir``. Hvað eru óverulegar eignir hjá félagi? Ef við tökum frystihús sem á eignir upp á 500 millj. sem allar eru veðsettar þannig að veðskuldir nema sömu upphæð þá er það í mínum skilningi félag sem á óverulegar eignir. Þá væri samkvæmt frv. óheimilt að sameina það fyrirtæki öðru fyrirtæki í því skyni að flytja frádrátt á milli.
    Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það eigi að vera annar skilningur í orðinu ,,óverulegar eignir``? ( Gripið fram í: Þetta er engin breyting á lögunum.) Nei, ég veit um það en samt þykir mér rétt að fá fram túlkun á þessu orðalagi, því það er að mínu viti alla vega ekki einhlítt hvernig beri að túlka ,,óverulegar eignir``.
    Hér er þó ein breyting í 7. gr. frv. sem ég tel vera til bóta og ná betur markmiðum greinarinnar. Það er þar sem stendur í 7. gr., með leyfi forseta: ,,Hið yfirfærða tap verður að hafa myndast í sams konar rekstri og það félag sem við tekur hafði með höndum.`` Það þýðir að ekki er lengur hægt að breyta samþykktum félagsins og láta það stunda annan rekstur en það hefur gert á undanförnum árum beinlínis til þess að sameina það einhverju félagi sem er tilbúið að kaupa eftir breytinguna á samþykktum félagsins, þannig að þetta tel ég vera til bóta. Það vekur upp spurninguna að hve miklu leyti --- mér er nú illa við að trufla hæstv. ráðherra, forseti, þannig að ég geri þá bara hlé á máli mínu. --- Varðandi setninguna, sem kveður á um það að hið yfirfærða tap verður að hafa myndast í fyrirtæki í sams konar rekstri og það fyrirtæki er í sem kaupir, þá gat ég um það að ég teldi þetta ákvæði vera til bóta, en það vekur upp spurninguna að hve miklu leyti þetta yfirfærða tap verður að hafa myndast í þeim rekstri, að öllu leyti eða að meiri hluta til og þá ótímabundið aftur í tímann.
    Síðasta ákvæðið sem ég geri hér að umræðuefni úr 7. gr. er lokamálsliðurinn. Það er dálítið kúnstugt ákvæði sem að mínum skilningi kveður á um að til þess að unnt sé að sameina fyrirtæki í því skyni að flytja rekstrartap á milli, þá þurfi eigendur meiri hluta hlutafjár í fyrirtækinu sem er selt að hafa verið eigendur í a.m.k. þrjú ár og að verða meirihlutaeigendur í því fyrirtæki sem við tekur. Þetta útilokar að mínu viti alveg allar forsendur fyrir sameiningu fyrirtækja ef það er hvatinn að sameiningu að nýta sér að einhverju leyti skattaleg réttindi.
    Ég bendi hæstv. ráðherra mjög nýlegt á dæmi sem ríkisstjórnarflokkarnir stóðu að þar sem stjórn Byggðastofnunar var að selja tvö fyrirtæki á Suðureyri til tveggja fyrirtækja, annars á Ísafirði og hins á Súðavík. Uppsafnað rekstrartap í þessum tveimur fyrirtækjum sem seld voru var, ef ég man rétt, 900 millj. kr. Var salan að frumkvæði, ekki bara með vitund og vilja heldur að frumkvæði, ríkisstjórnarflokkanna fyrir örskömmu síðan.

Fleiri dæmi má nefna þó að þau séu ekki eins ný. Ég nefni, af því að hæstv. forsrh. hefur haft ákveðnar skoðanir á þessu, að þegar Ísbirninum var á sínum tíma bjargað yfir í annað fyrirtæki þá var rekstrartap hans selt sláturfélagi fyrir austan fjall.
    Það eru ýmis dæmi um þessa hluti og í sjálfu sér ekki endilega slæm. Það er ekki endilega slæmt að menn geti selt rekstrartap fyrir einhverja peninga, enda rennur andvirði þess til að greiða upp skuldir í því fyrirtæki sem er að selja. Ég er með nýlegt dæmi vestan af fjörðum þar sem hlutafélag var selt og þar með rekstrartapið og það fé sem fékkst fyrir það rann til að greiða ákveðnum lánardrottnum í samráði við viðskiptabanka seljanda. Auðvitað er það hagur þeirra sem eiga skuldir hjá mjög skuldugum fyrirtækjum að geta fengið þær greiddar eða meiri líkur á því að það verði. Í mínum huga er það því ekki endilega mjög slæmt að þetta sé mögulegt en það sem mér finnst slæmt er hinn mikli hagnaður sem menn geta haft af þessu þar sem menn eru að kaupa þessi réttindi fyrir mjög lágt verð og fá verulegan afslátt af tekjuskatti á móti. Ég teldi að menn ættu fremur að fara þá leiðina að setja takmörk á það hversu mikinn hluta uppsafnaðs rekstrartaps menn mega flytja og það ráðist af kaupverði. Ég held að það sé nægjanleg takmörkun til að ná fram því sem menn eru að leitast við í 7. gr. frv. eins og ég skil hana og í raun miklu einfaldari leið líka því að ég þykist vita að það sé stefna a.m.k. þeirra flokka sem standa að þessari ríkisstjórn að hvatt sé til þess að hlutafélög séu öflug og að almenningur og fleiri leggi peninga sína í þau fyrirtæki og það sé líka hvatt til þess að þessi fyrirtæki a.m.k. í ákveðnum atvinnugreinum sameinist. Því finnst mér þessi 7. gr. vera miklu fremur hindrun í að ná fram þeim markmiðum en hún greiðir fyrir því. Þess vegna kemur hún mér mjög á óvart af því að hún kemur frá þessum flokkum.
    Ég vil líka aðeins fjalla um 15. og 16. gr. frv. sem fjalla um breytingu á ríkisskattanefnd. Hv. 1. þm. Austurl. benti á varðandi þessar breytingar nauðsyn þess að þeir sem sætu í ríkisskattanefnd væru þjálfaðir úr atvinnulífinu, hefðu praxísinn, og það væri nauðsynlegt að inni í nefndinni væru menn sem hefðu þessa nauðsynlegu þjálfun. Ég tek alveg undir það sjónarmið en ég er líka á þeirri skoðun að það sé til verulegra bóta að þeir sem eru í nefndinni hafi þetta að aðalstarfi. Mér finnst vanta í 15. gr. ákvæði um að skipunartími sé tímabundinn í nefndina. Að öðru leyti tel ég að þessi breyting á ríkisskattanefnd verði til bóta og er sammála því markmiði sem er verið að leitast við að ná, að flýta fyrir úrskurðum nefndarinnar þannig að mál safnist ekki upp eins og nú er í mjög langan hala og biðtíminn er má segja á annað ár þrátt fyrir ákvæði laganna um sex mánuði og öll viðleitni í þá veru að stytta þann tíma, sem nefndin hefur mál til umfjöllunar, er af hinu góða.
    Ég spyr hæstv. ráðherra varðandi eina breytingu sem lagt er til að gera varðandi formann nefndarinnar. Í núgildandi lögum er ákvæði um að hann verði að uppfylla skilyrði til þess að verða skipaður héraðsdómari. Þessu er breytt og verður almennt hæfnisskilyrði miðað við skattstjóra. Ég spyr um hvaða breytingar þetta eru á skilyrðum eða hæfni formanns.
    Í síðustu mgr. 15. gr. frv. er tekið fram að einn af þeim þremur, sem eiga að úrskurða í hverju máli, skuli annaðhvort vera formaður eða varaformaður nefndarinnar og ætíð skuli einn löglærður nefndarmaður vera í þeim hópi. Er ekki nauðsynlegt líka að löggiltur endurskoðandi sé einn af þeim sem úrskurði í málum því að það er langur vegur frá því að vera löglærður og til þess að vera löggiltur endurskoðandi og þar eru um mjög ólík svið og ólíka hæfni að ræða?
    Hvað varðar 16. gr. þá tel ég a-liðinn vera til bóta. Hann ætti að leiða til þess að ríkisskattanefnd kveði upp úrskurði í flestum ef ekki öllum kærumálum og gefur þeim sem kærir færi á að bæta úr ef á skortir í upplýsingum eða röksemdum. Í heild má segja að

mér líst nokkuð vel á þær breytingar sem er verið að gera á ríkisskattanefnd. Ég velti því þó fyrir mér þar sem ríkisskattanefnd er innan framkvæmdarvaldsins og er úrskurðaraðlili innan þess, gefur í raun og veru upp álit framkvæmdarvalds á þeim málum sem það fjallar um, hvort það væri eðlilegra að ríkisskattanefndin væri undir dómsvaldinu og kæmi í stað héraðsdóms í þeim málum sem undir hana heyra. Það mundi að sumu leyti flýta fyrir endanlegri málsmeðferð í þeim málum sem fara alla leið til hæstaréttar. En ég hef nú ekki velt þessu fyrir mér til hlítar þannig að ég varpa þessu fram svona meira sem hugmynd á þessu stigi.
    Ég vil líka, til þess að fá það afdráttarlaust, spyrja hæstv. ráðherra varðandi persónuafslátt og sjómannaafslátt, hver þeir verði á fyrri hluta næsta árs. Það er einn galli sem er á þessu frv., og reyndar ýmsum öðrum sem við höfum séð, hvað upplýsingar eru oft takmarkaðar um áhrif lagabreytinganna og hversu grg. er að mörgu leyti illa unnin. Það kemur hvergi fram í raun og veru í frv. eða grg. hver persónuafsláttur og sjómannaafsláttur yrði á fyrri hluta næsta árs ef þetta frv. verður óbreytt að lögum. En það mátti þó skilja á ráðherra í framsöguræðu að sjómannaafsláttur yrði óbreyttur í krónutölu og það sama gilti varðandi persónuafslátt. En mér sýnist á 8. gr. frv., sem fjallar um persónuafslátt, verða lækkun á mánaðarlegum persónuafslætti frá því sem nú er, úr 23.922 kr. niður í 23.755, ef ég skil ákvæði 8. gr. rétt. Það kemur mér á óvart ef það er meiningin að persónuafsláttur á fyrri hluta næsta árs verði í krónutölu um 170 kr. lægri en hann er á síðari hluta þessa árs og vil því beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, hver persónuafslátturinn verður á fyrri hluta næsta árs ef frv. nær fram að ganga, þannig að þetta sé ótvírætt.
    Varðandi sjómannaafsláttinn þarf ekki að hafa mörg orð af minni hálfu. Aðrir ræðumenn hafa í raun og veru sagt mest af því sem ég hefði viljað segja um það mál. Ég vil þó segja varðandi þá grg. sem fylgir að mér finnst hún vera fyrir neðan allar hellur og ekki sæmandi ráðherra að leggja fram samsetningu af þessu tagi og vantar ekki mikið á að segja mætti að þessi grg. væri móðgun við sjómannastéttina. Ég er andvígur breytingum á sjómannaafslætti sem lagðar eru til í þessu frv. Ég er andvígur því að taka þessa fjárhæð út úr atvinnugreininni og færa hana til ríkissjóðs. Ég teldi það a.m.k. umræðuvert ef menn vildu færa til einhverjar fjárhæðir frá sjómönnum yfir á landverkafólk og líta á það meira sem atvinnugreinaafslátt fremur en sjómannaafslátt, en ég er ekki reiðubúinn að standa að breytingum af þessu tagi.
    Ég bendi líka á það að þessi breyting á sjómannaafslætti er ekki tekjujafnandi. Hún er hið gagnstæða. Hún kemur þyngra niður á þeim sjómönnum sem hafa lágar tekjur en hinum sem hafa háar tekjur. Hún tekur stærri hlut af þeirra ráðstöfunartekjum en af hátekjusjómönnunum og verkar því öfugt við það meginmarkmið sem ég tel að stjórnmálaflokkarnir hafi haft, a.m.k. í orði, að jafna lífsins gæðum á milli manna.
    Það væri svo sem hægt að hafa ítarlegra mál bæði um sjómannaafsláttinn og barnabæturnar en ég hef valið þann kostinn að fjalla meira um þá þætti frv. sem aðrir ræðumenn hafa lítið fjallað um og komið fram með þau sjónarmið sem mér finnst nauðsynlegt að sú nefnd sem fær málið til meðferðar hafi til hliðsjónar í sínum störfum.
    Eitt vil ég að lokum benda á varðandi húsnæðisbæturnar. Miðað við þær forsendur sem fjárlagafrv. er reist á, um verðbólgu og launabreytingar, sýnist mér að húsnæðisbætur á næsta ári verði um 3% lægri að raungildi en þær voru á þessu ári, þannig að það vanti um 3% til þess að halda sama raungildi þeirrar fjárhæðar á milli ára. Þá fá þeir sem eru með húsnæðisbætur ekkert upp í vaxtahækkunina sem orðið hefur á þessu tímabili þannig að hún er að öllu leyti óbætt hjá því fólki sem er náttúrlega mun lakari staða en hjá því fólki sem er með vaxtabætur og fær af eðlilegum ástæðum a.m.k. einhvern hluta vaxtahækkunarinnar bættan í vaxtabótum. Mér finnst þess vegna að þeir sem fá húsnæðisbætur, og þeir eru nokkur þúsund manns, fari býsna illa út úr þessum breytingum, nái frv. fram að ganga, miðað við aðra hópa og er ég þó ekki að segja að þeir séu of sælir af sínu.