Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 22:05:00 (2139)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég vil taka undir þær vinsamlegu ábendingar sem hv. síðustu ræðumenn hafa fært fram og ég vil sömuleiðis taka undir og þakka viðbrögð forseta sem hefur heitið okkur því að þetta efni verði tekið fyrir á næsta reglulegum samráðsfundi. En ég hlýt að leyfa mér að bæta því við að ég tel auðvitað óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. sé tekinn inn í slíkar viðræður. Þær þjóna tæpast fullum tilgangi nema hæstv. forsrh., fyrir

hönd ríkisstjórnarinnar, sé þar til samráðs við formenn þingflokka og forseta þingsins. Ég vil minna á, nota tækifærið til þess, ósk mína frá því fyrr í dag, í þessari umræðu, að hæstv. forsrh. komi til umræðunnar og gefi upplýsingar um stöðu þessara mála af vettvangi ríkisstjórnarinnar. Ég bað um að gerðar yrðu ráðstafanir til að hæstv. forsrh. kæmi til fundarins. Ég óskaði ekki eftir að hann yrði endilega kallaður til meðan ég flytti mína ræðu en að hann kæmi sem sagt til umræðunnar og gæfi upplýsingar um hvernig vinnan að þessum efnahags- og ríkisfjármálatillögum á vegum hæstv. ríkisstjórnar stæði. Sömuleiðis óskaði ég eftir nærveru hæstv. sjútvrh. sem mér til ánægju hefur verið hér í kvöld og fylgst með umræðum.
    Ég hlýt þess vegna að gera hvort tveggja, að taka undir þær óskir og ábendingar sem hér hafa verið settar fram og jafnframt ítreka ósk mína um að hæstv. forsrh. komi til okkar áður en þessari umræðu lýkur og geri okkur grein fyrir stöðu mála.