Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 22:08:00 (2141)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Þar sem í forsetastól situr þessa stundina sá af forsetum þingsins sem líklegastur er til vissrar sanngirni þykir mér eðlilegt að bera upp það mál sem mér finnst vera með hvað óeðlilegustum hætti hér í þinginu. Hér höfum við mátt þola það að umræður eru rofnar alveg miskunnarlaust með svo fádæma sérstæðum hætti að ég held að í þingsögunni sé ekki hægt að finna hliðstæður þess. Hæstv. forsrh. er með skýrslu um Byggðastofnun á dagskrá og skyldi maður ætla að hann nyti þeirrar ,,respektar`` hér í þinginu að hans mál mættu ganga fram til jafns á við annað. Svo er ekki. Í staðinn fyrir að klára þá umræðu, sem vissulega var nokkuð heit og kannski ekki að ástæðulausu vegna þess að hér hafa verið uppi hugmyndir sem menn áttu alls ekki von á, er því máli frestað.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst kannski rétt að vitna til þess hvaða rétt og skyldur dómarar hafa. Það er gert ráð fyrir að eftir vitnaleiðslur megi ekki líða nema ákveðinn tími þar til dómari verði að dæma í máli. Eftir það sé honum umræðan ekki svo í fersku minni að hann sé fær um að gera það. Hvað telja þeir þá að hv. þm. geti hlustað á margar ræður og haft langt bil á milli í umræðu án þess að það sama gerist, að þingmönnum sé ekki svo í fersku minni það sem sagt hefur verið um málið að það valdi ruglingi?
    Það er einfalt frá því að segja að ég er í miðri ræðu og það er klippt á og ætlast til þess, fyrirvaralaust upp á hvern einasta dag, að maður geti staðið frammi fyrir því að nú sé málið tekið á dagskrá. Ég verð að segja eins og er að ef þetta yrði geymt fram yfir áramót yrði ég bara að lesa allan textann upp á nýtt. Þess vegna vil ég eindregið mælast til þess að hæstv. forseti geri grein fyrir að þessi málsmeðferð sé óeðlileg. Ég er að sjálfsögðu ekki að pressa á þetta á þessu kvöldi á nokkurn hátt, heldur hitt að hæstv. forseti taki þetta mál upp með eðlilegum hætti á samráðsfundi og geri mönnum grein fyrir þessu: Svona gengur ekki að standa að afgreiðslu mála.