Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 22:56:00 (2146)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Mér finnst rétt í lok 1. umr. að segja nokkur orð. Það væri að vísu ástæða til þess að flytja langa ræðu um margt af því sem fram hefur komið en bæði er það að sumir hv. ræðumenn eiga sæti í nefndinni og geta þess vegna komið sínum sjónarmiðum á framfæri þar og fengið þær skýringar sem um er beðið og eins hitt að ég held að það verði að velja út þau aðalatriði sem komu fram til að okkur endist tími til þess að ljúka þessari umræðu og taka fyrir önnur mál.
    Ég vil þakka hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni fyrir málefnalega ræðu. Hann á sæti í hv. nefnd og þekkir þessi mál mjög vel. Það er rétt, sem kom fram í máli hans og reyndar í máli hv. síðasta ræðumanns, að kannski má segja að varðandi rekstrartap sé um ákveðna afturvirkni ræða. Það er að vísu ekki einsdæmi að lög hafi verið sett með þeim hætti. Ég minnist þess að á undanförnum árum hefur það stöku sinnum gerst að sett hafa verið lög seint á því ári, seint á árinu og síðan hafi þau haft áhrif árið eftir og hefðu væntanlega getað haft þau áhrif að breytni fólks hefði verið öðruvísi ef það hefði vitað af lagabreytingunni fyrr. Þetta er auðvitað ekki góður siður. Í þessu máli er verið að setja lög um rekstrartap sem taka gildi í upphafi næsta árs þannig að breyting verður vegna svokallaðrar sölu á tapi sem hefur nokkuð verið til umræðu að undanförnu. Ég fellst á það sem hv. þm. Halldór Ágrímsson sagði, að auðvitað er spurning hve langan tíma lög eigi að heimila tapi að safnast upp eða hvort tap eigi að fyrnast á einhverjum tilteknum tíma. Ég tel að 5--7 ár sé hæfilegur tími. Á þeim tíma ætti að koma fram sú sveifla sem eðlileg er í rekstri fyrirtækja. Ég minni jafnframt á að í mörgum tilvikum er um bókhaldslegt tap að ræða sem verður til einfaldlega með bókhaldslegum hætti. Til að mynda hygg ég að útborgaður arður geti myndað tap og umfram það sem ellegar hefði gerst. Ég ætla ekki að ræða það frekar hér en fellst á það sem hann sagði að auðvitað er viss afturvirkni fólgin í þessari lagagrein en við teljum að það hafi tilgang að þrengja lagagreinina um heimild til þess að færa tap á milli fyrirtækja í ljósi þeirra atburða sem hafa átt sér stað á yfirstandandi ári.
    Ég get ekki svarað því hér og nú hvernig á að skýra út hagræðingartilganginn og mér finnst eðlilegt að nefndin ræði það sérstaklega hvernig á að standa að því mati. Reyndar er í skattalögum í mörgum tilvikum um að ræða hugtök sem sem ekki eru ákaflega skýr en eru þá skýrari í reglum og skattmati.
    Varðandi arðinn og fjármagnstekjur var ástæðan fyrir því að þetta ákvæði fór inn í lagafrv. nú, þótt það virki ekki á skatt fyrirtækja og einstaklinga fyrr en á árinu 1993, einmitt sú sem nefnd var varðandi tapið. Hún er sú að ástæða þykir til á þessari stundu að sýna við hvaða leikreglur fyrirtækin og einstaklingarnir, sem eiga fyrirtækin, þurfa að búa á næsta ári. Ég vil láta það koma skýrt fram að með þessu er verið að taka skref í þá átt að samræma lög hér á landi lögum nágrannalandanna og það er ekki tilgangur ríkisstjórnarinnar að um sé að ræða tvísköttun á arði. Aðalatriðið er að skattlagningin fari fram annaðhvort hjá fyrirtækinu eða hjá einstaklingum.
    Eins og fram kemur í grg. með frv. er ætlunin að flytja annað frv. á vorþinginu, ekki síst vegna þess að að því er unnið nú í fjmrn. að undirbúa skattalöggjöf okkar undir nánari samvinnu Evrópulandanna og opna efnahagslíf Íslendinga. Þess vegna er nauðsynlegt að finna leiðir til að gera íslensku fyrirtækin samkeppnishæfari og þess vegna þarf að breyta íslenskum skattalögum með tilliti til þeirra laga sem gilda í nágrannalöndunum.
    Varðandi ríkisskattanefnd hygg ég að það sé ekki dýrara að ráða menn til starfa. Þeir sem hafa starfað að þessum málum hingað til eru löggiltir endurskoðendur eða lögfræðingar og hafa þeir ekki gert þetta í sjálfboðavinnu. Þeir hafa að sjálfsögðu tekið fyrir þetta laun og áætlað er að þrátt fyrir fjölgun í sjálfri nefndinni þurfi þar ekki að verða kostnaðarhækkun.
    Hv. þm. spurði um það sem kemur fram í grg. með fjárlagafrv. en þar er getið um að ætlunin sé að ná niður útgjöldum í lífeyristryggingakerfinu upp á 330 millj. Varðandi það mál get ég sagt að við 2. umr. fjárlaga var þeirri upphæð breytt þannig að nú er um að ræða 250 millj. Ríkisstjórninni gefst ekki tækifæri nú fyrir jól að sýna frv. þess efnis en stjórnarflokkarnir ætla sér hins vegar að standa við það að ná sparnaði, hugsanlega með tekjutengingu greiðslna, en það mál verður að bíða þar til eftir áramótin enda ekki hægt að ætlast til þess að á þeim örfáu dögum sem eftir lifa til jóla sé tekið á slíku verkefni. En stefnan sem kemur fram í fjárlagafrv. er sú að það eigi að ná niður útgjöldum vegna

lífeyristrygginga og ætlunin er að frv. þess efnis sjái dagsins ljós að loknu jólahléi.
    Um sjómannaafsláttinn, sem margir hv. þm. ræddu og hv. þm. Halldór Ásgrímsson ræddi sérstaklega, vil ég bæta við umræðuna sem kannski hefur ekki komið nægilega skýrt fram, að ein af ástæðunum fyrir því að sjómannaafslátturinn varð til var sú að ríkið hafði bein afskipti af kjörum sjómanna. Það gerðist með þeim hætti, þá er ég að tala um fiskimennina, að oddamaður í Verðlagsráði, fulltrúi ríkisins, hafði oft á tíðum áhrif á fiskverð og stundum með þeim hætti að það þótti hreint og beint ódýrara að bæta sjómönnum kjörin með því að fara þá leið að létta skatt af sjómönnum. Þetta var stundum notað til að réttlæta sjómannaafsláttinn. Nú hefur það hins vegar gerst að verð á fiski er frjálsara, nánast frjálst, og hefur breytt kjörum sjómanna heilmikið. Ég hygg að ég fari rétt með, og ég skal taka það fram að það er ekki sagt neinum til hnjóðs og er ekkert innlegg í þetta mál að öðru leyti, en ég held að á undanförnum tveimur til þremur árum hafi laun sjómanna batnað talsvert meira en laun annarra launþega. Það er hins vegar rétt að það slær í bakseglin á þessu fiskveiðiári vegna þess að búast má við samdrætti í afla og jafnvel lægra verði á fiski á erlendum mörkuðum.
    Það er annað í þessu sambandi sem einnig verður að taka tillit til og það eru opinber afskipti, þar á meðal lög og samningar við hið opinbera, sem varða farmenn. Öllum er ljóst að í Evrópu, aðallega norðanverðri Evrópu, hafa skipafélög og sjómenn átt í nokkrum vandræðum að keppa við útgerðir sem gera út frá Panama og öðrum slíkum löndum þar sem reglur eru fábrotnari, einfaldari og þar sem sjómenn koma frá þjóðum sem hafa miklu lægri laun en sjómenn gera sér að góðu í norðanverðri Evrópu. Þessu vildi ég bæta við vegna þess að ekki hefur verið minnst á það í umræðunni um sjómannaafsláttinn.
    Ég tek undir það með hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að það er auðvitað umdeilanlegt, það hefur reyndar komið fram í ræðum nokkurra hv. þingmanna, að ferjusjómenn og hafnsögumenn hafi sjómannaafslátt með sama hætti og aðrir þeir sem stunda sjó. Og það er sérkennilegt þegar haft er í huga að það er hugsanlegt að hafnsögumenn hafi hvort tveggja ökutækjastyrk og sjómannaafslátt á sama deginum. Menn verða að átta sig á því þegar þeir ræða þessi mál að framkvæmdin hefur farið úr skorðum, hún er allt önnur en upphaflega var ætlast til eins og reyndar kom mjög vel fram í máli hv. 16. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Suðurl.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði hvað lægi á út af arðinum. Ein af ástæðunum fyrir því að þetta er í frv. er, eins og ég hef sagt, að við viljum á þessu ári sýna hverjar leikreglurnar eiga að vera á því næsta. Mín vegna hefði verið í lagi að taka þetta mál upp með hugsanlegum lagabreytingum á vorþinginu en vegna þess að þetta atriði er íþyngjandi töldum við rétt að það kæmi fram í þessu frv. Vaxtabæturnar eru ekki hreyfðar að sinni. Það er tekið fram í grg. með frv. að ætlunin er að kanna það mál frekar en hugsanlegt er að þær breytist á þar næsta ári, ekki síst með það í huga að tekjutengja þær meira en gert er í dag og eignatengja þær jafnvel líka frekar en gert er því það er ljóst að mjög tekjuháir einstaklingar og jafnvel eignamiklir fá núna útborgaðar vaxtabætur. Ég tel að það eigi að sjálfsögðu að líta til þess máls eins og annarra bóta og útgreiðslna, gjalda, í tekjuskattskerfinu. Mér finnst að hv. þm. gleymi því stundum að við erum hér að tala um útgreiðslur úr tekjuskattskerfinu en ekki skattgreiðslur á aðrar tekjur eða launatekjur manna.
    Ég vil segja það vegna margra orða sem féllu um sjómannaafsláttinn og því hefur verið haldið fram, þar á meðal af hv. þm. Steingrími Sigfússyni sem las reyndar upp álit sjómannasamtakanna, að það er ekki ætlunin að taka 500 millj. af sjómannafrádrættinum. Það er hugmyndin að taka 180--200 millj. og þessa dagana vinnum við að því að

finna leiðir til að það geti gerst og vinnan felst að sjálfsögðu í því að ákveða hvað séu þessir svokallaðir sjódagar, dagar á sjó, og tengdir dagar. Þar koma auðvitað til álita svokallaðir bræludagar, veikindadagar o.s.frv. Það þarf að setja mörkin og að því verður að sjálfsögðu unnið í fullu samráði við sjómenn. Við skulum hins vegar átta okkur á því að við getum ekki ætlast til þess að sjómenn frekar en barnafólk hafi atkvæðagreiðslu um það og lýsi yfir stuðningi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Við getum ekkert ætlast til þess að menn láti af sínum kjörum með þeim hætti. Það er einu sinni hlutverk ríkisstjórnar og stjórnarsinna að takast á við þessi mál vegna þess að það eru slíkir hagsmunir í húfi að við þurfum á því að halda að skerða núgildandi kjör mjög margra þegna þjóðfélagsins.
    Ég vil enn á ný bókstaflega harma það sem kom fram hjá hv. kvennalistaþingmönnum sem hér töluðu að þeir skyldu setja jafnaðarmerki á milli þess að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem getið er um afslætti til handa sjómönnum og laga á samninga sem gerðir eru á milli atvinnurekenda og launþega í landinu. Ég tel að það sé gjörsamlega ólíku saman að jafna. Ef það væri jafnaðarmerki þar á milli þá hygg ég að flest öll löggjöf sem við erum að fást við snerti með einhverjum hætti kjör fólks í landinu og það mætti með sömu rökum segja að við ættum að semja við alla þá sem málið snertir. Slík röksemd getur ekki gengið upp. Það er alveg útilokað að halda þessu fram.
    Það er kannski athyglivert af því að fólk er að ræða um sjómannaafsláttinn og landverkafólk í því sambandi og það kom reyndar fram hjá sumum ræðumönnum, a.m.k. einum, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni en hann viðurkenndi að það væru viss rök fyrir því að beitningamenn, sem ekki eru á sjó, fengju ekki sjómannaafslátt. Ég er sammála honum. Það eru rök fyrir því vegna þess að þetta fólk það vinnur í landi við hliðina á fólki í sambærilegum störfum. Beitningamenn eru yfirleitt á tvenns konar kjörum, annars vegar á hlutaskiptum, og það eru þeir sem njóta sjómannaafsláttar, hins vegar á akkorði og þeir njóta ekki afsláttarins. Við skulum taka annað dæmi af frystitogurunum. Um borð í fyrstitogurum vinnur núna fólk nánast sömu störf og unnin eru í frystihúsunum auk sjómennskunnar. Síðan er í landi fólk sem vinnur við þar sams konar störf í fiskvinnslu og auðvitað hlýtur að rísa upp sú krafa meðal þess fólks að það eigi að njóta sams konar persónuafsláttar og þeir sem eru úti á sjó og vinna nákvæmlega sömu störfin. Ekki síst þegar tekið er tillit til þess að sjómenn á frystitogurum njóta sjómannaafsláttarins á meðan þeir eru ráðnir þótt þeir séu í landi mikinn hluta þess tímabils. Þetta er breyting sem hefur orðið á högum sjómanna á undanförnum árum sem hefur leitt til þess að framkvæmdin á sjómannaafslættinum hefur tekið breytingum og er ekki eins og upphaflega stóð til að hún væri. Við skulum taka dæmi: Beitningamaður vinnur í landi og hefur 120 þús. kr. á mánuði og nýtur hann fulls sjómannaafsláttar. Við hliðina á honum vinnur annar maður og hefur líka 120 þús. kr. á mánuði. Sá sem nýtur sjómannaafsláttarins borgar 4.000 kr. í staðgreiðslu, hinn borgar 24.000 kr. Það er 20.000 kr. munur á þessum tveimur mönnum sem þarna vinna hlið við hlið. Auðvitað er hægt að færa einhver rök fyrir því að slíkt kerfi viðgangist en ég bið ykkur um að athuga það með okkur að það kann að vera að í jaðartilvikum þurfi að skoða þessi mál betur og ég held því fram að því fyrr sem við áttum okkur á því að framkvæmdin hefur orðið öðruvísi en upphaflega stóð til, þeim mun meiri líkur eru á því að við getum haft sjómannaafsláttinn með þeim hætti að sem mestur friður sé um hann meðal allra stétta. Mér finnst stundum eins og hv. þm. hafi ekki tekið nægilega mikið tillit til þess.
    Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson ræddi reyndar um mörg önnur atriði en það sem kemur frv. við, þar á meðal um stöðu mála í þinginu. Ég vil einungis geta þess í þessu sambandi að nú er u.þ.b. vika síðan þessi tekjufrumvörp voru lögð fram og þau hafa enn ekki komið til nefndar. Ég hef látið kanna það mjög rækilega hvenær á undanförnum árum samsvarandi frumvörp hafa komið fram og þar er enginn munur á. Ég hef einnig kannað það hvenær 2. og 3. umr. hafa farið fram um fjárlög og ég man eftir því að 2. umr. um fjárlög fór fram 15. og 16. des. (Gripið fram í.) Jú, jú, þingið hófst fyrr núna og ég viðurkenni að það eru breytt þingsköp en ég bendi á að fyrst ætlunin er að nota þessa viku þá er þetta ekkert óvenjulegt miðað við það ástand sem fyrr hefur verið í þinginu en ég skildi hv. þm. að svo væri að hans viti. Það er ekkert heldur óvenjulegt á þessum síðustu dögum fyrir jól að tekjufrumvörp og fjárlagafrv. taki breytingum, stundum stórkostlegum breytingum.
    Hv. þm. flutti ágæta ræðu um hlutabréfamarkaðinn og ég er um margt sammála honum og þeim viðhorfum sem komu fram hjá honum. Ég ætla ekki að eyða tíma manna í að lýsa viðhorfum mínum til einkavæðingar og sölu á hlutabréfum. Ég sló því fram á einum morgunfundi hjá Verslunarráðinu að það kæmi vel til greina, ekki síst ef ég væri einráður í þessu landi en ég er það nú ekki, þá fyndist mér koma til greina að selja hlutabréf Búnaðarbankans til allra. Ég sagði: Bjóða öllum landsmönnum. Og af því að þetta kom líka fram í ræðu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, þá sagði ég: Bjóða öllum landsmönnum á hálfvirði, og síðan: ef þeir hefðu ekki tök á eða vildu ekki eignast þennan hlut, þá yrði einhver afgangur sem yrði seldur hæstbjóðanda.
    Helstu rökin, sem komu fram gegn þessu, m.a. frá þeim sem starfa við bankann, voru þau að bankinn væri miklu meira virði en hálfvirði. Ég hélt að allir vissu að hálfvirði segir ekkert um það hvers virði bankinn er. Hálfvirði segir einungis að það sé helmingurinn af því virði sem tiltekið er á markaðinum.
    Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa sálma. Það er hægt að gera það og gefst tækifæri til þess síðar.
    Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði að því hverjir ættu að axla vandann og taldi síðan upp þá hópa sem nú yrðu fyrir búsifjum. Mér hefur kannski láðst að geta þess nægilega skýrt í mínu máli, nú sem fyrr, við hvaða vanda er að glíma. Það má gera ráð fyrir að á þessu ári verði hallinn á ríkissjóði, munurinn á tekjum og gjöldum, a.m.k. 10 milljarðar, líklega nær 10,5 milljörðum. Ég á heldur von á því. Þá er ljóst að á næsta ári falla á brott tekjur. Við erum núna að endurmeta tekjuspá fyrir næsta ár og við gerum ráð fyrir lægri tekjum af sköttum heldur en til stóð að ná í frv. umfram það sem skerðingin verður vegna frestunar á álverinu. Þetta gerist ofan í kaupin en allir muna að á sl. sumri var tekin ákvörðun um það að draga úr fiskveiðum á þessu fiskveiðiári og við álítum að tekjuskerðing ríkissjóðs einungis þess vegna sé 1.700--1.800 millj. kr. Þannig að þegar allt er tekið til, frestun álversins, ný staða í tekjuspá og samdráttur í afla og vegna lægra verðs, má gera ráð fyrir því að við töpum út 3,5 milljörðum. Það er einnig ljóst að nýir samningar, þar á meðal búvörusamningurinn og ný lög, kosta ríkissjóð á næsta ári u.þ.b. 3 milljarða. Einungis vegna þess vaxtar sem er í kerfinu vegna aldursbreytinga og vegna þeirra laga sem í gildi eru má sýna fram á að um 3 milljarða til viðbótar sé að ræða. Þetta er því ekkert lítið verkefni að fást við að skera niður og varpa byrðum á aðra, sveitarfélög, sjómenn, barnafólk og það má telja upp þá sem fá arð af hlutabréfum o.s.frv. En þegar við tölum um barnafólk og sjómenn megum við ekki gleyma því, af því að hv. þm. ræddi um það sérstaklega, að þar er um að ræða bætur, afslátt og útgreiðslu.
    Þá kem ég að því að segja frá því að ef lagður væri skattur á allar tekjur og enginn afsláttur væri mundi staðgreiðslan líklega skila um 80 milljörðum kr. Ríkissjóður fær milli 12 og 13 milljarða til sín. Helmingurinn fer auðvitað vegna persónuafsláttarins, sveitarfélögin eiga hluta, eða um 14 milljarða, þá eru það sóknargjöld o.fl. En frádráttarliðirnir, endurgreiðsluliðirnir eru u.þ.b. 10 milljarðar. Auðvitað hlýtur maður að kanna í árferði eins og þessu hvort ástæða sé til þess að allir þeir sem fá endurgreiðslu eða afslátt eigi

að fá slíka endurgreiðslu eða afslátt.
    Vegna þess að nú er sagt að verið sé að hlífa öðrum en barnafólkinu megum við ekki heldur gleyma því að barnabætur eru að sjálfsögðu ekki skattskyldar og þeir sem eiga börn fá líka skattfrádrátt vegna barnanna. Við verðum þess vegna að skoða allt dæmið þegar við ræðum um þetta.
    Það er að vísu eitt sem flækist dálítið fyrir okkur í þessari umræðu allri og ég held að ætti að vera umhugsunaratriði, ekki síst fyrir Kvennalistann, en það er að við höfum ekki gert það upp við okkur, Íslendingar --- og kannski allra síst Kvennalistinn --- hvort eigi að fara fjölskylduskattaleiðina eða einstaklingsskattaleiðina. Það hefur nefnilega verulega þýðingu fyrir okkur öll hvor leiðin er valin, ekki síst fyrir barnafólk. Vegna þess að okkar skattkerfi er þannig að það er sama hvort fólk á börn, er á þeim aldri sem fólk á börn, eða hvort fólk er fullorðið. Í báðum tilvikum er hægt að færa á milli hjóna 80% af ónýttum persónuafslætti. Þetta getur að sjálfsögðu komið barnafjölskyldum vel þar sem annað hjónanna er heima. Þá spyr maður sig að því: Er nauðsynlegt, ef við ætlum að hjálpa barnafólkinu með þessum hætti, að það komi líka hinum vel sem kannski eru skuldlaus og þar sem annað hjónanna þarf ekki að vinna úti af því að fólkið hefur dágóðar tekjur? Er þetta ekki of dýrt?
    Ýmsar slíkar spurningar hljóta að vakna þegar maður skoðar þetta skattkerfi. Það er einfalt að ráðast á það, það er einfalt að segja að það eigi að gera eitthvað fyrir ákveðna hópa en vandinn er sá að takmarka sig þá við þá hópa sem maður ætlar að gera vel við. Ég segi þetta við hv. kvennalistaþingkonur vegna þess að á síðasta þingi og þingum áður komu fram tillögur frá þeim, mjög skiljanlegar, sem voru fjölskylduskattalegs eðlis þar sem um var að ræða að taka tillit til ónýtts afsláttar unglinga sem voru 17-20 ára gamlir, sérstaklega hjá einstæðum foreldrum, vegna þess að við 17 ára aldurstakmarkið gerist það að foreldrið eða foreldrarnir fá ekki lengur frádrátt vegna barnanna. En það er hins vegar mjög sjaldgæft að þessi börn hafi slíkar tekjur að þeim nýtist persónuafslátturinn. Þetta nefni ég hér því að þessi atriði eiga fullt erindi inn í umræðu þar sem við erum að ræða barnabætur og afslætti í skattkerfinu og erum auðvitað að ræða um stefnur og strauma í skattamálum. Ég hef ekki neina slíka skoðun á þessu máli að hún sé mjög föst í hendi. Ég er tilbúinn til að skoða allar leiðir. En mér finnst stundum eins og við ætlum að ná öllu út úr þessu kerfi alveg hugsunarlaust, þannig að við gerum stundum breytingar til þess að koma til móts við einn hóp og svo er okkur sama þótt það nýtist kannski þeim hópi sem ekkert hefur við þetta að gera. Þetta skulum við kanna í sameiningu. Það tekur miklu lengri tíma en fram að jólum að kanna þetta. Ég tel að þessi sjónarmið sem ég hef lýst hérna eigi erindi til þess að skýra þau margþættu sjónarmið sem uppi eru þegar rætt er um breytingar á skattalögum.
    Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddi hér af kunnáttu um rekstrartap og aðra þætti og ég ætla ekki að fjölyrða um margt af því sem hann ræddi. Það voru tæknileg atriði líkt og hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni. Vera má að of langt sé gengið í lokamálsliðunum um rekstrartapið, það loki of miklu, og ég vil eindregið hvetja nefndina til þess að kynna sér það. Ég minni á að það varð gerbreyting fyrir örfáum árum á þessum málum og þaðan er komið orðalagið sem hv. þm. vitnaði til, ,,óverulegar eignir``, held ég það hafi verið. Þar var að vísu sagt ,,skyldur rekstur`` en ekki ,,sams konar``, sem nú er verið að þrengja þetta í. En ástæðan var m.a. sú að þá urðu miklar umræður á þingi um sölu á tapi tveggja fyrirtækja, það var Nútíminn annars vegar og Álafoss hins vegar. Í framhaldi af því var lögunum breytt. Ég ætla ekki að rifja þau mál upp hér en benda á að þá þótti mönnum mjög frjálslega farið með sölu á tapi.     Það sem við erum auðvitað að reyna að ná utan um hér er að það sé ekki verið að selja það sem stundum er kallað ,,skel`` í fyrirtækjum,

það sé með öðrum orðum allt tekið innan úr fyrirtækinu, það skilið frá fyrirtækinu sjálfu, aðeins tapið situr eftir og svo sé það selt til þess að búa til peninga til að leggja í nýjan rekstur. Tapið er venjulega selt með verulegum afföllum, eðlilega og nýtist svo einhverjum fyrirtækjum sem sýna verulegan ágóða til þess að draga úr skattskyldum gróða eða skattskyldum tekjum fyrirtækisins.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að reyna að fóta sig á því hve gamalt tapið væri sem hefði verið selt með þessum hætti. Ég get ekki svarað því. Ég býst við að hv. þm. Halldór Ásgrímsson gæti svarað því betur en ég. En ég hygg að um leið og salan hefur átt sér stað sé það nýtt tap hjá því fyrirtæki sem hefur keypt tapið. Ég get ekki svarað því öðruvísi en ég sé reyndar á höfuðhreyfingum hv. þm. að hann er ekki sammála þessu. Ég veit að hann er mér færari í skattalögum þannig að ég ætla ekki að deila við hann.
    Hv. þm. spurðist fyrir um ríkisskattanefndina og um hæfnisskilyrðin. Ég tel að það sé eðlilegt að gera sömu hæfniskröfur til ríkisskattanefndar og gerðar eru um skattstjóra. Það er auðvitað spurning hve langt eigi að ganga um skilyrði, t.d. hvort löggiltur endurskoðandi eigi alltaf að vera í ríkisskattanefndinni. En varðandi hitt hvort frekar eigi að treysta á skattadómstóla, sem sums staðar þekkist, þá hygg ég að það sé óþarfi. Ríkisskattanefnd er auðvitað úrskurðaraðili framkvæmdarvaldsins og niðurstöður ríkisskattanefndar eru í eðli sínu endanlegar hjá framkvæmdarvaldinu. Hins vegar, ef menn vilja ekki una þeirri niðurstöðu, geta þeir sótt rétt sinn hjá dómstólum því dómstólarnir eru auðvitað æðri framkvæmdarvaldinu. Ég tel að dómstólakerfið á Íslandi, sem er tiltölulega almennt, sé ágætt. Það skiptir sér ekki upp í einstaka dómstóla eins og víða er annars staðar gert þar sem sérstakir dómstólar eru fyrir ákveðin efni. Það er gott fyrir dómara að geta skipt sér af fleiri en einstökum efnum og svo er þar að auki hægt að kalla til meðdómendur sem líkja eftir þessum sérstöku dómstólum.
    Ég tel mig hafa svarað hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson um það hver sé munurinn á að krukka í kjör með lagasetningu og að krukka í kjör með lagasetningu. Það er nefnilega munur á því hver kjörin eru. Ég vil nefna dæmi. Þegar við setjum skattalög þá snerta þau skattalög, alveg sama í hverju þau eru fólgin, kjör fólks. Ég hef aldrei fyrr heyrt að það sé ætlast til þess að um það sé samið. Þess vegna er mikill munur á því hvort krukkað er í kjör fólks með þeim hætti sem við gerum þegar við setjum skattalög eða hvort við erum að krukka í kjör sem eru samningsbundin kjör á milli launþega og atvinnurekenda. Ég geri mikinn mun á því. Um það hefur verið rætt heilmikið, hv. þm., í þessum umræðum.
    Ég hef reynt að svara nokkrum af þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint. Ég hef reynt að vekja athygli á því að þetta mál er auðvitað margslungið. Ég hef einnig bent á að þetta er einungis 1. umr. málsins. Nefndin á eftir að koma saman og vinna í þessu máli. Þessa dagana er verið að vinna í sjómannaafslættinum og viðhorf sjómanna koma að sjálfsögðu þar til skjalanna og ég vænti þess að hv. nefnd fái tækifæri til þess að fara ofan í þetta frv. og skila því hingað til 2. umr. Þá gefst okkur að sjálfsögðu aftur tækifæri til þess að ræða þetta mál.