Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 23:30:00 (2147)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég kem aðallega upp til þess að upplýsa það að ég er engu nær um hug hæstv. fjmrh. í sambandi við það hvort hann gerir greinarmun á því að krukka í kjör fólks og krukka í kjör fólks. Það er varla von því það er enginn munur á því.
    Ég hygg að þar sem hann upplýsti að viðhorf sjómanna yrðu könnuð á næstu dögum að þá munu sjómenn verða fullfærir um að upplýsa hæstv. fjmrh. um það að sjómannaafslátturinn er einmitt hluti af lögbundnum kjörum sjómanna rétt eins og kjarasamningar ganga. Þetta er þeirra skilgreining og ég hygg reyndar að til þess að stytta nú enn vegina þá gætu a.m.k. tveir flokksbræður hans úr hópi sjómannastéttarinnar fullvel útskýrt það fyrir honum. Þannig að ég ætla ekki að fara að hafa hér lengra mál. Að vísu kom þetta allt saman fram í ræðu minni áðan. En látum vera þó að menn séu orðnir þreyttir og lúnir og hlusti ekki nógu vel.
    Hins vegar er annað sem mér finnst ástæða til þess að tala um og það er að mér brá við ræðu hæstv. fjmrh. er hann fór að tala um það sem röksemdir fyrir því að nú ætti að skerða kjör sjómanna að það þyrfti að jafna þau niður á við vegna þess að sjómenn á skipum skráðum í Panama og annars staðar hefðu svo lág laun. Þetta finnst mér mjög alvarlegt ef rétt er að þetta sé viðhorf hæstv. fjmrh. Þetta segir okkur, eða það gæti bent til þess að hann liti svo á, að ef samanburður í erlendu samstarfi, t.d. innan Evrópubandalags eða EES, ef einhvern tíma verður af því, gæti leitt til sömu niðurstöðu, að jafna þyrfti niður á við.