Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 23:33:00 (2148)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Andsvar hv. þm. breytir auðvitað engu um skoðun mína á þessu máli. Ég minni á að við erum einungis að breyta hér framkvæmd. Ég tel að einungis sé verið að breyta hér framkvæmd á sjómannaafslætti. Það hefði verið hægt að gera án lagabreytingar ef stæði ekki þannig á að það hefði gengið skattalegur úrskurður um það að menn sem hafa verið í landi jafnvel í tvö ár, en á hlutbundnum launum hjá útgerðinni, fengju sjómannaafslátt. Ég tel að með því hafi hann farið langt út fyrir það sem til stóð í upphafi.
    Í öðru lagi nefndi ég Panama í þessu sambandi vegna þess að ein af rökunum fyrir sjómannaafslætti, sem er látin í té sjómönnum og styrkir þar með stöðu útgerðarinnar, er að skip eru gerð út frá Panama með þessum hætti. Þessu til styrktar vil ég nefna að frá norrænu sjómannasamtökunum hefur ríkisstjórninni borist bréf þar sem beðið er um styrk við útgerðarfyrirtækin íslensku til þess að mæta hinni erfiðu samkeppni frá þessum þjóðum. Það var það eina sem ég sagði, til þess að bæta við í pottinn um sjómannaafsláttinn. Tilgangurinn var ekki annar.