Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Mánudaginn 16. desember 1991, kl. 23:41:00 (2152)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Hæstv. fjmrh. kannaðist lítið við skýrslu sem forveri hans í starfi, hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson, skipaði að gera á sínum tíma. Sú skipun var gerð

vegna þáltill. sem flutt var á Alþingi Íslendinga að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er greinilegt að hæstv. fjmrh. glímir meir við þá hugmynd að gefa banka á hálfvirði og telur að það sé ekki eins hættulegt mönnum í framvarðasveit Sjálfstfl. eins og að snúa sér að hinu, hvort undanskotin í skattamálum séu of mikil. Ég skil mjög vel hans afstöðu í þessum efnum, hún er í samræmi við sögulegar staðreyndir og þess vegna ekkert skrýtið þó að menn kjósi þá leið heldur.
    Hins vegar kalla ég það furðulega hagspeki ef hæstv. fjmrh. telur að staðan sé sú að þeir sem ekki eiga peninga til að kaupa á hálfvirði hafi ekki vit á því að láta fjármagna fyrir sig þennan hlut og selja hann svo fullu verði á eftir. Hvernig hann gerir ráð fyrir því að það verði stórgróði hjá ríkinu af afganginum, eru mér torskilin fræði. Ég hélt að þessar fjármögnunarstofnanir sem væru til staðar mundu vinna það verk fyrir menn með skjótri og góðri þjónustu, að kaupa bréf á hálfvirði og selja þau á fullu verði og láta menn hafa eitthvað fyrir snúð sinn. En við skulum sleppa því.
    Það er aftur á móti nauðsyn að minnast á þessi atriði hér vegna þess að í fyrrnefndri skýrslu eru atvinnustéttir flokkaðar í átta flokka eftir því hve mikil undanskot frá skatti er talið að séu viðhöfð í hinum ýmsu flokkum. Það kemur kannski ekkert á óvart að í þeim flokki, þar sem minnst er talið að sé stolið undan skatti, eru sjómenn og bændur. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. veit allt saman en fer bara svona dult með sína þekkingu af einskærri hógværð. En engu að síður held ég að það sé nauðsyn að minnast ögn á þetta vegna þess að ég vil taka af allan vafa um að mönnum sé ljóst að þessi skýrsla er unnin faglega af sérfræðingum sem um hana fjölluðu. Með leyfi forseta er óhjákvæmilegt annað en að lesa nokkur atriði upp úr þessari skýrslu.
    ,,Með bréfi dags. 8. nóv. 1984 skipaði þáv. fjmrh., Albert Guðmundsson, starfshóp til að gera m.a. úttekt á umfangi skattsvika. Þetta var í samræmi við þál. sem samþykkt var á Alþingi 3. maí sama ár.
    Verkefni hópsins var að gera grein fyrir og leggja mat á eftirfarandi:
,,1. Umfang skattsvika hérlendis miðað við upplýsingar um þjóðartekjur í þjóðhagsreikningum og öðrum opinberum gögnum annars vegar og upplýsingum um framtaldar tekjur í skattframtölum hins vegar.
2. Hvort skattsvik megi rekja sérstaklega til ákveðinna starfsstétta og starfsgreina.
3. Umfang söluskattssvika hér á landi.
4. Helstu ástæður fyrir skattsvikum og hvaða leiðir eru vænlegar til úrbóta.``
    Í starfshópinn voru skipaðir Þröstur Ólafsson hagfræðingur, sem jafnframt var skipaður formaður hópsins, Eyjólfur Sverrisson, löggiltur endurskoðandi, Jónatan Þórmundsson prófessor, Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri, Þórólfur Matthíasson hagfræðingur, sem jafnframt hefur starfað sem ritari starfshópsins.
    Eins og dagsetning skipunarbréfsins ber með sér dróst skipun nefndarinnar nokkuð. Þáv. fjmrh. var strax skýrt frá því að nefndin gæti ekki hafið störf fyrr en í byrjun árs 1985 og myndi örugglega ekki geta skilað af sér á því sama ári. Nefndin hóf síðan störf um miðjan janúar.
    Starfshópurinn hefur haldið alls 30 formlega fundi en auk þess hafa undirhópar starfað án þess að fundir þeirra hafi verið skrásettir.
    Nefndin starfaði framan af náið með Garðari Valdimarssyni skattrannsóknarstjóra og Ævari Ísberg vararíkisskattstjóra.
    Auk fyrrnefndra embættismanna hafa eftirtaldir menn mætt á fundum nefndarinnar: Hallvarður Einvarðsson, rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, Atli Hauksson, löggiltur endurskoðandi og ráðgjafi hjá rannsóknarlögreglunni, Gunnar Jóhannsson, formaður ríkisskattanefndar, Gylfi Knudsen lögfræðingur, starfsmaður hjá ríkisskattanefnd, Ólafur Nilsson, löggiltur endurskoðandi, Stefán Svavarsson lektor, löggiltur endurskoðandi, Gestur Steinþórsson skattstjóri í Reykjavík, Sigurbjörn Þorbjörnsson ríkisskattstjóri, dr. Þorkell Helgason prófessor og dr. Guðmundur Guðmundsson tölfræðingur.
    Sú verkefnalýsing sem um getur í skipunarbréfi starfshópsins mótaði að mestu störf hans. Nefndarmenn eru þó sammála um að verklýsing þál. sé of þröng.
    Þar er t.d. eingöngu minnst á skattsvik þótt þau séu hluti af stærri heild sem við höfum kosið að nefna einu nafni dulda efnahagsstarfsemi. Við töldum óhjákvæmilegt að gera því nokkur skil og er því einn kafli sem fjallar um það efni. En þar sem það var ekki meginmál verkefnis okkar var ekki lögð sérstök vinna í það viðfangsefni. Í kafla 2.1 er gefið nokkurt yfirlit yfir dulda efnahagsstarfsemi svo og einstök svið hennar og raktar helstu orsakir. Í kafla 2.4 eru síðan settar fram skilgreiningar á hugtakinu skattsvik. Í ályktun Alþingis segir einnig að leggja skuli mat á umfang skattsvika hérlendis miðað við upplýsingar um þjóðartekjur í þjóðhagsreikningum m.a. og upplýsingum um framtaldar tekjur í skattframtölum.
    Þetta er gert að því marki sem tiltæk gögn leyfðu, en okkur sem að þessu unnu fannst þetta ekki nægilega haldgóð tilraun og vorum sammála um að gera fleiri tilraunir til að nálgast þetta erfiða mat. Í því skyni kynntum við okkur sambærilegar tiltækar erlendar kannanir og er þeirra getið í þriðja hluta.
    Í fjórða hluta er gerð grein fyrir þeim aðferðum sem beitt er til að nálgast þetta frá fleiri en einni hlið og fá þannig fleiri niðurstöður.
    Það vakti athygli okkar hve niðurstöður voru líkar þó mismunandi aðferðum væri beitt.
    Það er rétt að geta þess að í viðauka með áliti þessu er greinargerð eftir þá dr. Þorkel Helgason prófessor og dr. Guðmund Guðmundsson tölfræðing um samanburð á eigna- og tekjumyndun starfstétta hér.`` --- Þar lögðu þeir m.a. mat á það hvað sjálfstæðir atvinnurekendur hefðu haft meiri eignamyndun en aðrir miðað við sambærilegar tekjur og sambærilegan aldur. --- ,,Nefndarmenn kynntu sér niðurstöður þessarar aðferðar. Þar er um athyglisverða tilraun að ræða sem við vitum ekki til að hafi verið reynd annars staðar.
    Viljum við hér gera nokkra grein fyrir meginaðferðum og helstu niðurstöðum úr hverri aðferð fyrir sig:
    Fyrsta aðferðin var sú sem þál. ætlaðist til að notuð væri. Aðferðin felst í því að bera saman niðurstöður svokallaðs framleiðsluuppgjörs þjóðhagsreikninga og ráðstöfunaruppgjör. Í kafla 4.2 er gert ráð fyrir forsendum og vanköntum þessarar aðferðar og öllum þeim óvissuþáttum sem haft geta áhrif á niðurstöður. Samkvæmt þessari aðferð virtist erfitt að rökstyðja að duldar tekjur hafi numið meira en 5--7% af vergri landsframleiðslu árin 1973--1982. Þetta eru svipaðar niðurstöður og fengist hafa með hliðstæðum aðferðum í nokkrum nágrannalöndum, t.d. í Svíþjóð.
    Í sama kafla er einnig gerð grein fyrir skattatapi hins opinbera miðað við ofangreindrar niðurstöðu.
    Önnur aðferðin sem beitt var er svokölluð matsaðferð. Hún felst í því að reynt er að meta aðstöðu hverrar atvinnugreinar út frá möguleikum hverrar greinar fyrir sig til að dylja tekjur sínar. Þar var m.a. unnið úr upplýsingum sem snertu hugsanleg eftirlitskerfi skattyfirvalda, svo sem afurðamiðakerfi, upplýsingar um útflutning og verðmæti hans, launamiðakerfi o.s.frv. Einnig var stuðst við stærðardreifingu fyrirtækja í atvinnugreininni, hverjir væru kaupendur o.s.frv. Á grundvelli fyrrgreindra upplýsinga, svo og reynslu íslenskra skattrannsóknarmanna, var atvinnugreinum skipt í átta áhættuflokka og sett fram þrjú tilbúin dæmi um mögulegan tekjuundandrátt greinanna. Frekari grein fyrir forsendum og vinnubrögðum er gerð í kafla 4.3.

    Niðurstaðan samkvæmt þessari aðferð er svipuð og samkvæmt þjóðhagsreikningaaðferðinni. Samkvæmt lægsta áhættutilviki gæti verið um að ræða að 2,2% vantaði á verga landsframleiðslu. Samkvæmt miðtilviki er niðurstaðan 4,2% af landsframleiðslu. En í hæstu tilvikum reynist þurfa að bæta 9,1% við verga landsframleiðslu.
    Niðurstaða okkar er því sú að erfitt sé að rökstyðja að umfang dulinna viðskipta löglegrar starfsemi metin samkvæmt þessari aðferð hafi numið meira en 4--6% árið 1980 og nefndin notaði sem viðmiðunarár. Í lok þessa kafla er einnig reynt að flokka atvinnugreinar eftir möguleikum til dulinnar starfsemi (áhættuhópa) enda um það spurt í þál. hvort rekja megi skattsvik sérstaklega til ákveðinna starfsstétta.
    Í þriðja lagi var gerð spurningakönnun. Úrtakið var 1.000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá. Heildarfráfall nam 20% þannig að niðurstöður byggja á svörum 800 einstaklinga.
    Hér var um frumkönnun að ræða og verður að hafa það í huga, ekki síst þegar athugað er val þeirra 10 spurninga sem fyrir spyrjendur voru lagðar. Fróðlegt væri að framkvæma hliðstæða spurningakönnun árlega til að fylgjast með breytingum á svörum milli ára.
    Taka verður strax fram og undirstrika vendilega að þeir spurðu voru einstaklingar en ekki fyrirtæki. Til að meta heildarumfang nótulausra viðskipta þarf því að meta hlut fyrirtækjanna sérstaklega.``
    Herra forseti. Ég hef tekið úr inngangi það sem ég tel aðalatriði málsins. Mér finnst óhjákvæmilegt að koma inn í niðurstöðurnar og fer inn á það svið sem ég minntist á áðan að þeir flokkuðu starfsstéttirnar niður í átta hópa. Ég tel eðlilegt að áður en ég fer í niðurstöðurnar lesi ég upp þau atriði sem þar koma inn.
    ,,Minnstir möguleikar til dulinnar starfsemi og skattsvika: Landbúnaður, fiskveiðar, starfsemi hins opinbera, rekstur rafveitna, hita- og vatnsveitna, þ.e. greinar er bera atvinnugreinanúmer 1 og 4 samkvæmt alþjóðlegum staðli atvinnugreinaskiptingar (ISIC-staðall).
    Nokkrir möguleikar til dulinnar starfsemi og skattsvika: Peningastofnanir, tryggingar og þjónusta við atvinnureksturinn, samgöngur, póstur og sími, geymslustarfsemi. Þ.e. atvinnugreinar með ISIC-númer 7 og 8.
    Allmiklir möguleikar til dulinnar starfsemi og skattsvika: Iðnaður, verslun, veitinga- og hótelrekstur. Þessar greinar hafa ISIC-númer 3 og 6.
    Miklir möguleikar til dulinnar starfsemi og skattsvika: Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, ýmiss konar persónuleg þjónustustarfsemi. Þessar greinar hafa ISIC-númer 5 og 9.``
    Nú er það svo að niðurstaðan í þessu, hvernig menn bregðast við þeirri áreitni sem hér á sér stað, er á þann veg að menn ráðast á þann hópinn sem talinn er hafa minnsta möguleikana. Ég held að það sé nauðsynlegt að lesa hér upp eina töflu þar sem það kemur: ,,Viðbót við hreinan hagnað eða launagreiðslur.`` Þar eru flokkarnir settir upp og niðurstaðan kynnt hvað þeir telja að þetta þýði.
    1. flokkur. Það er 1%, lágt tilvik, meðaltilvik 1%, hátt tilvik 5%. --- Það er nú ekki hærra sem þeir telja að þeir sem eru í 1. flokki hafi möguleika, sérfræðingarnir sem fóru yfir þetta.
    2. flokkur. 2%, lágt tilvik, meðaltilvik 2%, hátt tilvik 10%. --- ( Gripið fram í: Það eru sérfræðingarnir). Nú verður hv. þm. að hafa mikla ró því að þetta er mikil fræðigrein.
    Í 3. áhættuflokki eru 3% lágt tilvik, meðaltilvik 3% og hátt tilvik 15%.
    Í 4. áhættuflokki. Þá er það lágt 5%, meðaltilvik 10% og hátt tilvik 20%.
    Og svo kemur hér 5. áhættuflokkurinn. Það er 7% lágt tilvik, meðaltilvik 15%, hátt 25%.
    Þá kemur 6. flokkur. Það er 9% lágt, 20% meðal og 30% hátt tilvik.
    Svo kemur 7. flokkurinn. 11% lágt, 25% meðal, --- meðaltalið 25%, það er nú rétt

að fara að sperra eyrun. Hátt 40%.
    Og hvað skyldu þeir þá gera við 8. flokkinn og þann hæsta, hæstv. fjmrh.? Það ætti að vera verkefni fjmrn. að skoða það, tækju þeir almennt mark á niðurstöðu skýrslunnar. 13% er lágt, 30% er meðal --- 30% ekki talið fram, er meðaltalið talið þar, 50% hátt. Það er ekki skrýtið þó að menn í fjmrn. --- eftir lestur þessarar skýrslu --- hafi komist að því að nú bæri að veita sjómönnum aðför. Það er ekki skrýtið. Að ráðast á 1. flokkinn.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst að þegar Alþingi hefur kosið nefnd til að vinna ákveðið verk, fjmrh. hefur skipað í nefndina, og verkið liggur fyrir fullunnið, sé það alveg furðuleg niðurstaða að tillögugerð komi út úr fjmrn. um að ráðast á þá sérstaklega sem þeir telja að séu minnst í þessu undanskotum. Sá hópur skal tekinn fyrir og skattlagður vegna þess að hann telur rétt fram. Það er ekki hægt að eltast við hina, einfalt mál.
    Fróðlegt væri fyrir hæstv. fjmrh. að minnast ögn á það sem dr. Þorkell Helgason segir þegar hann er að bera saman tekjurnar hjá opinberum starfsmönnum, öðrum launþegum og sjálfstæðum atvinnurekendum. Svo vill til að þessi ágæti dr. Þorkell Helgason er talinn fullkomlega nothæfur, í það minnsta í heilbrrn. Hvað segir hann? Hver er niðurstaðan?
    ,,Reiknað er út hve mikið tekjur ríkissjóðs myndu hækka við ofangreinda hækkun á tekjum atvinnurekenda,`` --- sem þeir reikna út að sé eðlileg hækkun miðað við eignir. --- ,,Reynist sú upphæð nema um 160--170 millj. kr. í auknum tekjuskatti árið 1984, en þá var hann samtals 1.817 millj. kr. Samsvarandi hækkun útsvarstekna væri um 80 millj. kr. Ekki hafa verið gerðar sömu reikningar fyrir álagningaárið 1985 en ljóst er að þá væru upphæðir verulega hærri.`` Nánari lýsing á gögnum, tölfræðiaðferðum og niðurstöðum er í greininni ,,Tölfræðilegt samband eigna og tekna. Mat á vantöldum tekjum á skattframtölum einstaklinga`` eftir Guðmund Guðmundsson og Þorkel Helgason svo og í viðauka við þá grein vegna skattársins 1984.
    Svo leyfa menn sér að segja trekk í trekk að tekjuskatturinn sé tekjujöfnunarkerfi.
    Mér er ljóst að hægt er að lesa alla skýrsluna upp og ég hef aðeins lesið örlítið brot. Ég hef yfir höfuð engan áhuga á því að standa í öllum þeim upplestri. Ég verð að segja eins og er að mér fyndist sú niðurstaða alveg furðuleg ef safnað væri saman tíu sakamönnum og væri gerð áætlun um hverjir væru nú sennilegastir að hafa gert þetta og þeim raðað í rétta röð og allir neituðu, þá væri sá sem minnstar líkur væru á að brotið hefði af sér tekinn sérstaklega fyrir og hýddur opinberlega fyrir afstöðu sína. Það væri talin skrýtin réttaraðferð í dómgæslukerfinu. En það virðist mér að hæstv. fjmrh. leggi til þegar sjómenn landsins eiga hlut að máli. Niðurstaða sérfræðinganna varð sú að þar væru minnst undanskot allra stétta á Íslandi en niðurstaða fjmrh. er sú að þeim skuli sérstaklega veita aðför í stöðunni.