Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 01:25:00 (2159)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Vandamálið er að ég var ekki viðstaddur þann fund sem hv. 4. þm. Norðurl. e. var á og hann var ekki viðstaddur þann fund sem ég átti, ásamt tveimur öðrum ráðherrum, með formanni, varaformanni og framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga þannig að við höfum hvor sínar heimildirnar. Þessir þrír voru á fundi með okkur og það er enginn vafi á því að þessir aðilar munu staðfesta að þar kom fram, þrátt fyrir að upphæðinni væri auðvitað mótmælt, að þessi aðferð sem notuð er núna er miklu geðfelldari en sú fyrri.
    Varðandi löggæsluna þá er auðvitað hárrétt hjá hæstv. dómsmrh. að löggæslan heyrir undir dómsmrh. En ég vek athygli á því að hér er um málaflokk að ræða sem hefur verið mjög tengdur sveitarfélögunum. Allt fram til 1972 heyrði þessi málaflokkur undir sveitarfélögin, þ.e. þau greiddu rekstrarkostnaðinn. Að vísu var það svo að þrátt fyrir að sveitarfélög greiddu því sem næst allan rekstrarkostnað, eins og til að mynda hér af lögreglunni í Reykjavík, þá laut lögreglustjórinn ekki stjórn sveitarfélagsins heldur dómsmrh.

    Ég hef talið og lýst því yfir áður og mig minnir reyndar að hv. 8. þm. Reykn., þáv. fjmrh., hafi ekki talið það fráleitt að til greina kæmi í framtíðinni að þessari verkaskiptingu væri breytt á ný og það yrði horfið að því að sveitarfélögin kæmu inn í þennan rekstur á nýjan leik. Ef það yrði gert með fullum þunga yrðu tekjur auðvitað að koma á móti. En það er þess vegna ekki fráleitt að nota einmitt þennan málaflokk þegar með þessum hætti þarf að láta sveitarfélögin axla tilteknar byrðar af þeim vandamálum sem við er að glíma.