Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 01:27:00 (2160)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Það getur vel verið, ef sveitarfélögin standa frammi fyrir því að þau komast ekki undan að taka á sig 700 millj. kr. í einhliða íþyngingu frá hálfu ríkisins, að þau hafi einhverjar skoðanir á því hvort sé betra að vera hengd eða skotin. Það getur vel verið. En það er ósköp svipað sem þau standa þarna frammi fyrir og fangi sem búið er að dæma til dauða og á velja um aðferðina. Það eru í raun og veru sambærilegir kostir sem þarna eru á ferðinni. Út af fyrir sig getur vel verið að það sé rétt að þeim séu sjálfir tekjustofnarnir það heilagir að þau vilji losna við fingur ríkisins af þeim og af þeim sökum velja af tveimur nokkurn veginn jafnvondum kostum, sem í boði eru af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þann sem þau þá telja illskárri. Hér er ekki um verkefnatilfærslu að ræða, hæstv. forsrh. Það nánast viðurkenndi hæstv. forsrh. sjálfur, því lýsir hæstv. dómsmrh. yfir. Þetta er einhliða nefskattur á sveitarfélögin í landinu sem rennur í ríkissjóð, að vísu merktur löggæslunni en er ekki á nokkurn hátt tengdur því viðfangsefni hvorki hvað áhrif á málaflokkinn snertir né heldur hvað kostnað við löggæslu í hinum einstöku sveitarfélögum snertir. Eða hvað halda menn að t.d. fámennir sveitarhreppar inn til dala á Norðurlandi vestra sjái í löggæslu sem svarar þeim 1.700 kr. sem þeir eiga að fara að greiða á hvern íbúa þar sem sést kannski lögreglumaður á tíu ára fresti, keyrir þá í gegn á bíl á 90 km hraða? Þetta er auðvitað þannig, hæstv. forsrh., að það borgar sig ekki einu sinni að hafa tilburði til að reyna að klæða þetta í þennan búning sem hér var gerð tilraun til. Það er langhreinlegast að viðhafa aðferð hæstv. dómsmrh. og viðurkenna að þetta er skattur, þetta er nefskattur á sveitarfélögin í landinu, óréttlátur og ekki í nokkru samhengi við það útgjaldatilefni sem hann er að nafninu til tengdur. Þar með er það líka auðvitað orðin ástæða í sjálfu sér að athuga hvort ekki sé verið að brjóta jafnræðisreglu skattalaga með því að leggja hann mismunandi þungt á eftir íbúafjölda sveitarfélaganna.