Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 01:30:00 (2161)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli á því hér að hæstv. forsrh. leyfði sér áðan að fullyrða að framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga hafi á fundi efh.- og viðskn. í kvöld ekki talað í nafni Sambands ísl. sveitarfélaga. ( Forsrh.: Þetta er hártogun.) Þetta er ekki hártogun, hæstv. forsrh., þetta munt þú geta lesið þegar þú færð þína ræðu skrifaða.
    Í öðru lagi, varðandi lagalega túlkun á þessum gjörningi hæstv. ríkisstjórnar, þá kom það fram í máli framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga að í fyrsta lagi væri um að ræða brot á lögfestum samningi Sambands ísl. sveitarfélaga við ríkisvaldið. Í öðru lagi þá væri væntanlega um að ræða brot á 116. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um það að varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga skuli hafa samráð við sveitarfélögin. Hann upplýsti einnig að það samráð sem var haft varðandi breytingu á því hvernig ætti að leggja 700 millj. á hafi verið í því formi að forsvarsmönnum Sambands ísl. sveitarfélaga hafi verið tilkynnt að fallið hafi verið frá fyrri ákvörðunum og ákveðið að taka upp það form að færa á sveitarfélögin 700 millj. í formi nefskatts til þess að kosta löggæslu í landinu. Það

var sem sagt, eins og aðrar aðgerðir þessarar hæstv. ríkisstjórnar síðustu daga, í tilskipunarformi.