Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 01:32:00 (2162)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er afskaplega áríðandi að mínu viti að virðulegir þingmenn geri mun á því, þegar menn ræða um samstarf sveitarfélaga og samstarfssáttmála sveitarfélaga, með hvaða hætti megi framkvæma tiltekna hluti án samráðs eða ekki án samráðs. Slíkir hlutir gilda ekki um lagasetningar frá Alþingi, almenn lög setja ekki löggjafarvaldinu ramma. Menn verða að marka og kunna skil á, ekki síst löggjafinn sjálfur, þingmenn hér á Alþingi, almennri löggjöf og stjórnarskrárbundinni löggjöf. Á því er reginmunur, munur sem þingmenn a.m.k. verða að þekkja.