Tekjuskattur og eignarskattur

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 01:34:00 (2164)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa gert tilraun til að skýra málin. Það kom fram hjá honum að hann telur sig greinilega hafa fengið jákvæð viðbrögð eða a.m.k. jákvæðari viðbrögð frá forustu Sambands ísl. sveitarfélaga gagnvart þeirri leið sem ríkisstjórnin er nú að fara en hinni fyrri. Hæstv. forsrh. lýsir því hér yfir að annað hafi komið fram hjá forráðamönnum sveitarfélaga á fundi með þremur ráðherrum heldur en kom fram á fundi með efnahagsnefnd Alþingis. Við þessu er auðvitað einungis hægt að bregðast á þann hátt að efnahagsnefndin kalli Samband ísl. sveitarfélaga til sín á nýjan leik á morgun og annaðhvort hæstv. félmrh. eða hæstv. forsrh. verði viðstaddur þann fund svo við þurfum ekki að standa hér í þeim sporum að hæstv. forsrh. segi að þetta sé eitthvað allt annað en forustumenn sveitarfélaga sögðu við mig og tvo aðra ráðherra og þingið þurfi að velta því fyrir sér hver fari með rétt mál í þessum efnum. Ég vil taka undir með hæstv. forsrh. hvað það snertir að það er kannski ekki ástæða á þessu stigi að túlka orð hans á þann veg að hann sé að vefengja að framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga fari með rétt mál þótt að vissu leyti hefði mátt skilja orð hæstv. forsrh. á þann veg. Það er auðvitað alveg ljóst, áður en lengra er haldið, að efnahagsnefnd þingsins verður þá að fá forustu Sambands ísl. sveitarfélaga aftur á sinn fund og hafa einhvern ráðherra úr ríkisstjórninni viðstaddan til þess að þetta fari ekkert á milli mála.
    Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. undraðist það að ég skyldi ekki hafa frétt af þessum áformum. Það er rétt hjá honum að ég er nokkuð vel vakandi þessa dagana. En ástæðan fyrir því að ég varð undrandi í dag var að í lok síðustu viku hafði ég lesið þær yfirlýsingar borgarstjórans í Reykjavík, eftirmanns hæstv. forsrh., og bæjarstjórans í Hafnarfirði, væntanlegs eftirmanns núv. utanrrh., þar sem að þeir sögðu báðir að þeir teldu útilokað að taka þátt í þessari aðgerð nema sveitarfélögin fengju áhrifarétt á löggæsluna á sínu svæði og túlkuðu málið þannig. Síðan las ég yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. að slíkt kæmi ekki til greina og af hálfu dómsmrn. væri eingöngu um að ræða almenna skattlagningu á sveitarfélögin. Þess vegna var ég undrandi þegar það kom fram í dag í frásögnum þingmanna í nefndum að nú væri búið að ákveða að hirða ekkert um skoðanir borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans í Hafnarfirði, láta þær skoðanir sem vind um eyrun þjóta, taka ekki mark á þessum forustumönnum Sjálfstfl. og Alþfl. en leggja í staðinn nefskatt á sveitarfélögin. Ég get sagt hæstv. forsrh. það að ef ég hefði komið inn í þingið í síðustu ríkisstjórn með nefskatt á sveitarfélögin þá hefði allt orðið vitlaust. Fyrstur manna hér á þingi til að mótmæla því hefði verið þáv. borgarstjóri Reykjavíkur Davíð Oddsson. Það vitum við báðir, ég og hæstv. forsrh., hann hefði ekki eirt hér í kringum þinghúsið fyrr en Sjálfstfl. væri búinn, í umræðum og jafnvel málþófi og nefndum í þinginu, að koma í veg fyrir þessi áform því það var túlkað sem algjört bannorð, eitt af því sem bara mætti ekki gera væri að leggja nefskatt á sveitarfélögin.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að ræða það meira en það var gagnlegt að fá það hér fram að nokkuð ber á milli þess sem sagt hefur verið við ríkisstjórnina og sagt var við nefndina um þetta mál.
    Hvað jöfnunargjaldið snertir þá var ég út af fyrir sig ekki að spyrjast fyrir um það hvers vegna menn vildu mæla fyrir frv. þó ég vilji segja við hæstv. fjmrh. að mér finnst pínulítið leitt að hann skuli fara að gera það að vana sínum að mæla fyrir öllum skattafrumvörpunum þannig að hann fer fram á að mæla fyrir þeim einhvern tíma síðla kvölds eða að nóttu til og svo sé umræðu frestað. Ég held að hæstv. fjmrh. hafi enn sem komið er ekki mælt fyrir neinu tekjuöflunarfrumvarpi með venjulegum hætti þannig að umræða geti farið fram að lokinni framsöguræðu.
    Spurningin var hins vegar um það, hvort ríkisstjórnin væri staðráðin í að lögfesta frumvarpið og ekki bara vegna þess, að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson eða einhver hagsmunaaðili telji það lögbrot heldur m.a. vegna þess, hæstv. forsrh., að ég sat í ríkisstjórn, þar sem núv. utanrrh. hélt því fram í heilt ár að væri lögbrot. Stóra málið í þessu er auðvitað það að við erum ærið margir í salnum sem sátum í ríkisstjórn þar sem sami maður og nú gegnir embætti utanrrh. hélt því fram í heilt ár og skrifaði síðan Evrópubandalaginu bréf því til staðfestingar frá ríkisstjórn Íslands að það væri lögbrot að framlengja gjaldið, hvað sem liði vilja einstakra fjármálaráðherra í þeim efnum. Hæstv. utanrrh. skuldar því a.m.k. mér og okkur sem sátum í síðustu ríkisstjórn skýringar á því, hvaða rök hann er nú kominn með í hendur fyrir því að það sem hann sagði í heilt ár formlega við ríkisstjórnarborðið að væri lögbrot, eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir nú, getur nú verið stjórnarfrumvarp með eðlilegum hætti. En það ræðum við hins vegar þegar það mál kemur á dagskrá. Ég hélt kannski að hæstv. ríkisstjórn vildi spara sér tímann og fyrirhöfnina í þinginu með því að skoða málið í rólegheitum utan við umræðuna og vildi kannski komast hjá því að fá þessa umræðu í salinn. Nú, ef ríkisstjórnin vill fá þessa umræðu í salinn, tökum við auðvitað þátt í því, en þetta var vinsamleg ábending til ríkisstjórnarinnar um það að kannski væri ekki alveg skynsamlegt á þessu stigi að fara að ræða um jöfnunargjald. Mér finnst t.d. ekkert skemmtilegt, hæstv. forsrh., að þurfa að standa í þeim sporum hér að rekja það í þingsalnum hvernig hæstv. utanrrh. hélt því fram í síðustu ríkisstjórn að það væri lögbrot að framlengja jöfnunargjaldið því auðvitað verður sú umræða þýdd, auðvitað mun Evrópubandalagið og EFTA nota þá umræðu ef einhverjir í aðildarríkjum EFTA og EB kjósa að fara í mál vegna þess að það er ekki bara Verslunarráðið sem getur farið í mál. Það getur hvaða fyrirtæki innan Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna líka farið í mál. Ég hefði helst viljað komast hjá því að þurfa að rekja þær yfirlýsingar utanrrh. og knýja fram bréfaskipti hans til Evrópubandalagsins um þetta mál. Ef ríkisstjórnin vill endilega knýja þá umræðu fram hér þá það. En ég teldi skynsamlegra út frá hagsmunum Íslands og almennt séð að bíða með það.
    Ég nefndi að vísu það mál einnig, hæstv. forsrh., sem mér skilst að forseti vilji ræða næst um skattlagningu innlánsstofnana. Þar greindi ég frá því að ég hef heyrt það hér á skotspónum að ríkisstjórnin væri að ræða það ákveðið að breyta því frv., taka út Lánasjóð íslenskra sveitarfélaga og taka út sjóðina sem snerta landbúnaðinn. Forsrh. vék ekkert að þessu þannig að þetta er kannski ekki alveg ákveðið, en það er auðvitað vont að vita ekki hvernig það frv. er í raun sem hæstv. ríkisstjórn vill endilega fá rætt hér um kl. 2 að nóttu til. Kannski kemur það í ljós ef umræðan hefst og hæstv. fjmrh. gerir okkur þá grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin hyggst breyta frv., því það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt, forseti, að vera að knýja okkur til þess að nóttu til, að ræða ítarlega frv. sem ríkisstjórnin er á kafi í að breyta.