Skattskylda innlánsstofnana

53. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 02:13:00 (2169)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ef það mætti verða til að stytta umræðuna, sem hefur staðið í allnokkra daga, skal ég gera tilraun til þess að svara því sem fram hefur komið í ræðu hv. síðustu ræðumanna.
    Það er rétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar í síðustu viku að

um nokkurt skeið hefur staðið til að breyta fjárfestingarlánasjóðunum í hlutafélög og þar með má búast við að ríkisábyrgð falli af þeim í tímans rás, ekki síst ef um eigendaskipti verður að ræða. Að vísu er það svo, eins og hv. þm. veit, að í lögum um Fiskveiðasjóð stendur að erlend lán sjóðsins séu ekki með ríkisábyrgð. Það er rétt líka að deilt er um það hver sé eigandi sumra þessara sjóða, einkum og sér í lagi Iðnlánasjóðs. Það vill svo til að ég þekki þetta mál nokkuð náið, var í nefnd á sínum tíma, þegar starfandi var ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., sem kannaði þessi mál allítarlega.
    Tvennt hefur komið fram í umræðunni af hálfu ráðherra. Annars vegar að hugmyndin sé sú að Lánasjóður sveitarfélaga falli ekki undir almenna grein þessara laga heldur verði ákvæðið sett inn í 2. gr. um að lögin nái ekki til hans. Jafnframt hefur hæstv. samgrh. sagt frá því, sem undir hefur verið tekið, að hugmyndin sé að aðgreina hina eiginlegu lánastarfsemi sjóðanna frá annarri starfsemi eins og þeirri að taka við framlögum, til að mynda framlögum úr ríkissjóði, og koma þeim til skila með tilteknum hætti. Að þessu er unnið og ég vonast til að þegar hv. nefnd fær þetta mál til meðferðar verði tilbúinn texti sem hún getur litið á.
    Hér hefur nokkuð verið lesið úr fyrri umræðum um þetta mál. Hv. 8. þm. Reykn., þáv. fjmrh., flutti ræðu 22. des., það voru ekki einungis einhverjir aðrir sem fluttu ræður þá, og honum mæltist svo m.a., með leyfi forseta.:
    ,,Mér hefur verið tjáð að frv. af þessu tagi hafi verið í vinnslu og undirbúningi í fjmrn. þegar hv. þm. Þorsteinn Pálsson var fjmrh. og það hafi einnig verið í vinnslu og undirbúningi í fjmrn. þegar hæstv. utanrrh. var fjmrh. Mér finnst því ekkert óeðlilegt við það að alþingismenn fái tíma til þess í fjh.- og viðskn. þessarar deildar og hv. Ed. að velta fyrir sér þeim vandamálum sem a.m.k. tveir fyrirrennarar mínir og embættismenn veltu einnig fyrir sér nokkuð langan tíma og ætla ekki að þrýst málinu hér í gegnum þingið án þess að sú athugun geti farið fram. Þess vegna er algjörlega tilefnislaust að vera að draga einhverja þá ályktun að málið sé þess vegna illa undirbúið.`` --- Lýkur hér tilvitnun í ræðu hv. 8. þm. Reykn. þegar hann var fjmrh. Auðvitað þarf að bæta einum fjmrh. við í röðina til að geta notað þennan ræðupart aftur. Það sem hins vegar skiptir máli er að ég tel að nefndin hafi núna tíma til þess að fara í þetta mál með þessum hætti. Málið er að því leytinu til lengra á veg komið að veðdeildir bankanna hafa verið skattlagðar. Einnig er ljóst að um leið, og ég held að menn hafi kannski ekki áttað sig á því, að um leið og sjóðirnir hætta að vera opinberir fjárfestingalánasjóðir og skipta um eigendur falla þeir að sjálfsögðu beint undir hina almennu löggjöf um skattskyldu.
    Virðulegi forseti. Ég vona að þetta hafi skýrt málið. Ég sé ekki í fljótu bragði hvernig ríkisábyrgðin, ef hún er tekin af, hefur áhrif á umræðu um þetta tiltekna frv. því hér er ekki verið að gera tillögu í þessu frv. um að ríkisábyrgðin verði felld af þessum sjóðum. Hins vegar er rétt að í umræðunni um lánsfjárlög hefur verið rætt um það hvort skjóta eigi nokkrum sjóðum undan ríkisábyrgðakaflanum í lánsfjárlögum en það mál er til umræðu í hv. efh.- og viðskn. þingsins.