Um dagskrá

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 13:08:00 (2177)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Sá háttur hefur verið á hafður síðustu daga að þingflokksformenn hafa komist að samkomulagi ásamt forseta um hvaða mál séu tekin á dagskrá. Nú er það svo að þennan morgun höfum við ekkert komið saman, það var reyndar búið að tala um að það yrði fundur klukkan hálfellefu en síðan fengum við tilkynningu um að hann yrði hálftvö. Og eftir því sem við best vissum þá átti að taka á dagskrá í upphafi fundar 12. dagskrármálið, frv. um jöfnunargjald, þannig að við könnumst ekki við að það hafi verið samkomulag um að taka þau mál á dagskrá sem koma þarna á milli. Ég fer þess vegna fram á það við hæstv. forseta hvort það sé ekki réttara að hafa þann hátt á að taka 12. dagskrármálið á dagskrá eins og um hafði verið talað í gær og síðan getum við séð til um framhaldið eftir að þingflokksformenn og hæstv. forseti hafa komið saman núna klukkan hálftvö.