Jöfnunargjald

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 13:41:00 (2183)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að hæstv. utanrrh. yrði viðstaddur þessa umræðu og vildi beina þeim tilmælum til hæstv. forseta að hann geri ráðstafanir til þess.
    Virðulegi forseti. Ég þarf í raun ekki að halda mjög langa ræðu um þetta mál. Það hefur verið gert margsinnis áður, bæði á þessu þingi og eins á síðasta þingi. En til að rifja upp aðeins örfá atriði málsins þá var frá upphafi ráðgert að jöfnunargjaldið félli niður um leið og virðisaukaskattur yrði tekinn upp. Ég minni á að jöfnunargjaldinu var ætlað að ganga til þess að efla iðnþróun og það hefur verið gert í gegnum tíðina með því að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt til iðnfyrirtækja. Ég minni á að þegar virðisaukaskattur var lagður á var gert ráð fyrir því að hann næði til þess tekjutaps sem yrði ef jöfnunargjaldið væri fellt niður.
    Ég vil einnig láta það koma fram að gerð var tilraun til þess að kalla fram bréfaskriftir sem farið hafa fram á vegum utanrrn. að því er talið er til EFTA og EB og jafnvel til breskra stjórnvalda vegna þess að þeir, sem gert hafa við okkur viðskiptasamninga, telja að jöfnunargjaldið brjóti nú í bága við viðskiptasamninga á milli Íslands og þeirra þjóða. Ástæðan er auðvitað sú að það er ekki heimilt. Það er ekki heimilt fyrir Ísland að leggja á slíkt jöfnunargjald eftir að virðisaukaskattur var tekinn upp og samkeppnisstaða íslensku fyrirtækjanna hefur breyst.
    Virðulegi forseti, ég gæti haldið áfram. Þetta er lítið brot úr þeim ræðum sem núv. hæstv. fjmrh. flutti hér fyrir hönd Sjálfstfl. á síðasta þingi og næstsíðasta þingi. --- Ég hef hafið ræðu mína hér með því að flytja orðrétt kjarnann úr því sem hæstv. fjmrh. og þáv. þm., Friðrik Sophusson, sagði hér á Alþingi þannig að upphaf minnar ræðu eru ekki mín orð, þau eru orð hv. þáv. þm. Friðriks Sophussonar. Kjarninn í hans málflutningi og gagnrýni var sá að það væri skylt að fella jöfnunargjaldið niður, það væri brot á viðskiptasamningum Íslands og EFTA og EB að halda því áfram og fráfarandi ríkisstjórn væri að ganga gegn þessum viðskiptasamningum og ganga gegn fyrirheitum sem hún hefði gefið með því að framlengja gjaldið árið 1990.
    Hv. þáv. þm. Friðrik Sophusson, núv. hæstv. fjmrh., gekk svo langt í þessari baráttu sinni að hann lagði fram sérstakt frv. hér á Alþingi til þess að afnema jöfnunargjaldið. Og það segir í grg. með þessu frv. að tilgangurinn væri að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin gengi á bak orða sinna og haldi áfram innheimtu jöfnunargjalds í ríkissjóð.
    Hv. þáv. þm. Friðrik Sophusson skrifaði síðan mjög harðar greinar í Morgunblaðið, ekki bara eina heldur tvær og jafnvel fleiri, þar sem hann réðst af gífurlegri hörku á þáv. ríkisstjórn fyrir það að fella ekki jöfnunargjaldið niður í árslok 1990, fyrir rúmu ári síðan. Og Morgunblaðið hafði svo mikið við þessa baráttu að það skrifaði sérstakan leiðara með fyrirsögninni: Orð skulu standa. Þar var lagst af öllum þunga Morgunablaðsins á sveif með hv. þáv. þm. Friðriki Sophussyni og þess krafist að jöfnunargjaldið yrði afnumið í árslok 1990.
    Það er afrek hjá hæstv. núv. fjmrh. að koma svo hér upp og flytja, að vísu hikstandi, framsöguræðu fyrir þessu frv. og minnast ekki einu orði á þá staðreynd að það var hans helsta baráttumál þegar hann var í stjórnarandstöðu á árinu 1990 að leggja þetta gjald niður. Og hann barðist fyrir því hér í þingsölum að fá þetta frv. sitt tekið á dagskrá. Hann lagðist í víking í fjölmiðlunum til þess að halda því fram að það yrði að leggja þetta gjald niður í árslok 1990. Og hann sagði nákvæmlega það sama og hv. núv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir nú, að það væri brot á viðskiptasamningum Íslands og EB að halda þessu áfram. Það er afrek, hæstv. fjmrh., að vera svo búinn að gleyma allri sinni fortíð, öllum sínum orðum, öllum sínum frv., öllum sínum greinum, og treysta því að þingið sé líka búið að gleyma því. Morgunblaðið sé líka búið að gleyma leiðaranum: Orð skulu standa, að enginn muni rifja það hér upp.
    Ég ákvað að hlífa ráðherranum og koma ekki með greinarnar úr Morgunblaðinu í ræðustólinn og lesa upp úr þeim ásakanirnar sem hann flutti í minn garð, stóryrðin sem hann færði fram í minn garð. Og Sjálfstfl. verðlaunaði hann með því að gera hann að fjmrh. Ég ákvað að hlífa honum og koma ekki með þær greinar hér upp og ég ákvað að hlífa líka Morgunblaðinu og þingfréttaritara Morgunblaðsins með því að lesa ekki hér upp úr leiðara Morgunblaðsins, Orð skulu standa. ( Fjmrh.: Þú hlýtur að fá friðarverðlaunin fyrir.) --- Friðarverðlaunin? Já, það getur vel verið að ég fái einhver góðmennskuverðlaun fyrir það að sýna hæstv. núv. fjmrh. þá tillitssemi að rifja ekki upp hans eigin orð. Rifja ekki upp það sem var hans helsta merki vegna þess að á þinginu 1990 var hann í þeim sporum sem Vilhjálmur Egilsson er nú, að halda fram þeim rökum og málstað sem Vilhjálmur Egilsson flytur fram hér og nú.
    Hitt er svo alveg sérstakur kafli að hæstv. utanrrh., sem vill láta taka sig alvarlega, a.m.k. í samskiptum við Evrópubandalagið og EFTA, hélt því fram í heilt ár þegar við sátum með honum í ríkisstjórn að það væri brot á viðskiptasamningum Íslands við EB og EFTA-ríkin að framlengja jöfnunargjaldið. Og hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson gekk svo langt að hann skrifaði Evrópubandalaginu formlegt bréf í nafni Íslands þar sem hann tilkynnti Evrópubandalaginu þá ákvörðun að jöfnunargjaldið yrði lagt niður. Og þegar ég var að halda því fram að enn þá væru til uppsöfnunaráhrif í söluskatti sem gerði mönnum kleift að halda jöfnunargjaldinu áfram þá neitaði hæstv. núv. utanrrh. í heilt ár að samþykkja það og vísaði til bréfaskrifta sinna til Evrópubandalagsins og þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland hefði undirgengist. Og nú spyr ég hæstv. utanrrh.: Hvernig stendur á því að það sem var tabú og bann og brot á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands er nú allt í einu orðið hægt? Var það þá bara allt markleysa sem hæstv. utanrrh. sagði í heilt ár? ( EgJ: Það er búið að breyta kerfinu.) Búið að breyta kerfinu, segir hv. þm. Egill Jónsson. Hvaða kerfi er búið að breyta, hv. þm.? Er það forritinu í hæstv. utanrrh. sem búið er að breyta? Hverju er búið að breyta? Það hefur ekkert breyst nema lengri tími hefur liðið þannig að rökin, sem hæstv. utanrrh. var með árið 1990 og fyrri hluta árs 1991, eru auðvitað enn sterkari í dag. Og það verður fróðlegt fyrir okkur, sem sátum með hæstv. utanrrh. í ríkisstjórn, að heyra hvernig hann ætlar að rökstyðja það hér og nú að það sem hann sagði að kæmi ekki til mála og væri brot á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands er nú allt í lagi. Á einum næturfundi ríkisstjórnarinnar, næturfundinum fræga, gerist það að ríkisstjórnin kemur í morgunskímunni með það í farangrinum að jöfnunargjaldið verði framlengt. Ég hélt að það væri verið að segja mér brandara þegar ég heyrði lesið að ríkisstjórnin hefði ákveðið á næturfundinum að framlengja jöfnunargjaldið. Ég taldi í fyrstu að það hefði einhver húmoristi fundið upp að gera grín að núv. hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. utanrrh. En að þeir félagarnir skyldu sameinast um það að leggja fram á þinginu þetta háðsmerki yfir þeim sjálfum er auðvitað alveg stórkostleg pólitísk ganga. Eða var kastþröngin orðin svona mikil, hæstv. utanrrh.? Var nauðin í hinni ábyrgu og sterku ríkisstjórn orðin svo mikil að það eina sem hún gat gert var að taka upp gamalt frv., sem þið báðir hafið mælt manna mest gegn á síðustu eina og hálfu ári, og segja við þingið: nú skal það gert?
    Það verður fróðlegt fyrir embættismennina í Brussel og embættismennina í Genf að lesa í þingtíðindunum það sem utanrrh. Íslands segir nú til skýringar á því hvers vegna þetta sé hægt. En ég segi alveg eins og er, af því að hæstv. utanrrh. var eitthvað að gera

athugasemdir við það hér í gær að hv. þm. Guðrún Helgadóttir segði að ekkert væri að marka bréfin frá utanrrn., að það er auðvitað alveg augljóst mál að þeir sem fengu bréfið fyrir ári síðan í Brussel um skuldbindingu ríkisstjórnar Íslands muni segja í dag þegar ráðherrann stendur hér upp: Það er ekkert að marka sem þessi ráðherra segir.
    Það er auðvitað hægt að segja gagnvart Evrópubandalaginu: kemur vel á vondan. Það sé svo sem allt í lagi vegna þess að þeir séu búnir að svíkja annað eins hvað okkur snertir. En það verður fróðlegt að heyra rökin, sérstaklega fyrir mig. Ég veit ekki hvað þeir voru margir fundirnir sem ég átti með hæstv. utanrrh. um þetta mál. Ég veit ekki hvað þeir voru margir fundirnir sem Már Guðmundsson, efnahagsráðgjafi fjmrh. þá, átti með embættismönnum utanrrn. um þetta mál. Alltaf var sama niðurstaðan: Kemur ekki til mála, sagði utanrrn. Kemur ekki til mála. Þannig að Vilhjálmur Egilsson getur auðvitað staðið hér upp og lesið bara upp úr pappírum utanrrn. og Jóns Baldvins Hannibalssonar ef hann fengi aðgang að þeim. Og þess vegna endurtek ég það sem Friðrik Sophusson sagði hér á þingi 21. des. 1990, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þá vil ég láta það koma fram að gerð var tilraun til þess að kalla fram bréfaskriftir sem farið hafa fram á vegum utanrrn.`` Er ekki hæstv. utanrrh. reiðubúinn að leggja hér fram í þinginu þessar bréfaskriftir? Svo menn sjái nú, þingið og þjóðin, hvað er mikið að marka allt þetta Evrópubandalags- og EFTA-grín, hvað er mikið að marka það. Vegna þess að hæstv. utanrrh. er auðvitað sjálfur með verknaði sínum að lýsa því yfir að það er ekkert að marka það sem hann hefur sagt. Það á ekki að taka hann alvarlega þegar hann í heilt ár heldur því fram við fjmrn. og innan síðustu ríkisstjórnar að þetta megi ekki, þetta séu brot á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Ég var á annarri skoðun. Ég var tilbúinn að framlengja þetta jöfnunargjald. En mér var sagt að ég bara kynni mig ekki í þessum fína klúbbi.
    Er hæstv. utanrrh. bara orðinn eins konar alþýðubandalagsframsóknarmaður í þessum málum og hættur að vera svona nýmóðins sósíaldemókrat sem telur hinar alþjóðlegu skuldbindingar EFTA og EB vera það sem öllu máli skiptir? Vegna þess að ég las það einhvers staðar eftir hæstv. utanrrh. eða einhverjum ungliða hjá honum í flokknum, sem skrifaði grein um það hvað það væri að vera jafnaðarmaður í dag. Það var að standa við skuldbindingar EFTA og EB. Sigurður Pétursson formaður Sambands ungra jafnaðarmanna skrifaði það í Alþýðublaðið og Morgunblaðið að það væri einn af prófsteinunum á því að vera nútímalegur jafnaðarmaður --- sem ég stæðist auðvitað ekki --- það væri að standa við skuldbindingar EFTA og EB. Nú er bara hæstv. utanrrh. fallinn á prófinu líka. Það er bara svona, hæstv. utanrrh. --- Velkominn í klúbbinn.
    Þetta er auðvitað alveg stórkostlegt að maður stendur hérna í nótt, klukkan þrjú að morgni þessa dags, og les upp það sem Sjálfstfl. sagði um skattlagningu innlánsstofnana, að það væri lögbrot, það væri vitleysa, það væri della og það væri kómedía, það kæmi ekki til mála. Hver maðurinn um annan þveran, Geir Haarde, Halldór Blöndal, Eyjólfur Konráð og Sjálfstfl. í desember 1988 neitaði að afgreiða fjárlagafrv. nema frv. væri stoppað. Kemur með það líka aftur hérna inn í þingsalinn úr skúffunum í fjmrn. og segir: Gjörið þið svo vel, samþykkið það nú. Og fyrir alla muni talið ekki orð um það sem Sjálfstfl. sagði í stjórnarandstöðu. Og aftur kemur fjmrh., 8 klst. eftir að við stóðum hérna í nótt og ræddum hitt frv., hógvær maður og minnist ekki einu orði á það hvað hann hefur sagt um framlengingu jöfnunargjalds. Er það bara þannig að við eigum að samþykkja núna frá Sjálfstfl. og ríkisstjórninni allt það sem Sjálfstfl. var á móti? Skattlagningu innlánsstofnana, jöfnunargjaldið, ekknaskattinn og hvað eina? Það er nefnilega orðið þannig að ekkert atriði er orðið eftir sem Sjálfstfl. andmælti í skattamálum fráfarandi ríkisstjórnar sem hann er ekki að biðja þingið um að samþykkja nú. Ég þakka fyrir ,,komplímentið``, hæstv. fjmrh. ( EgJ: Það þarf að borga óreiðuna.) Borga óreiðuna, segir hv. þm. Egill Jónsson. ( Umhvrh.: Auglýsingareikningana.) Auglýsingareikningana, segir hæstv. utanrrh., maðurinn sem fór um landið og kynnti sig . . . ( Gripið fram í: Það var umhverfisráðherra.) Var

það umhverfisráðherra? Jæja já, og leit á hæstv. utanrrh., sem er nýbúinn að fara um landið með þjóðhetjunni til að kynna hinn mikla árangur í EES. Hvernig væri að fara aðra hringferð núna? Og nota 6 millj. sem Matthías Bjarnason og Eggert Haukdal treystu sér ekki til að greiða atkvæði með þegar greidd voru atkvæði um 2. gr. fjárlaganna? Við tókum eftir því að það voru þingmenn í Sjálfstfl. sem treystu sér ekki til að fela utanrrn. þessar 6 millj. í kynningarstarfsemi. --- Borga óreiðuna, segir hv. þm. Egill Jónsson. Hvað er þá verið að borga á næsta ári? Er þetta komið í ,,soddan ordnung`` hjá núv. hæstv. ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Stefnir í það.) Stefnir í það? Mikill húmoristi er þingmaðurinn að sitja hér á fremsta bekk í salnum og gera grín að sinni eigin ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Ná í jarðræktarlögin.) Ná í jarðræktarlögin, já. Skila séráliti með stjórnarandstöðunni í landbn., eini þingmaðurinn stjórnarliðsins sem hefur haft hugrekki til þess að standa með stjórnarandstöðunni gegn sinni eigin ríkisstjórn. Og situr hér á fremsta bekk og gerir púragrín að ráðherrunum. Er það nú ríkisstjórn, hæstv. utanrrh. ( Gripið fram í: Ekki svona svekktur) Svekktur, segir hæstv. fjmrh. Hver er svekktur? Ekki nokkur maður hérna í salnum svekktur. Ég er bara að þakka ,,komplímentin``. Að Sjálfstfl. skuli koma hér dag eftir dag og nótt eftir nótt og biðja þingið um að samþykkja allt það sem ég flutti hér áður og hann var alltaf á móti.
    Ég spyr bara: Var nokkur þörf að skipta um fjmrh.? A.m.k. hefur það verið upplýst að Þórarinn V. Þórarinsson kom eins og þrumuský í efn.- og viðskn. þingsins í morgun og lýsti því yfir að Sjálfstfl. og Alþfl. væru nú búnir að hefja aðför að atvinnulífinu í skattamálum. Fyrirsögn minnisblaðs VSÍ, dómurinn um núv. ríkisstjórn. Og Þórarinn V. Þórarinsson segir að þeir einu menn í atvinnulífinu sem geti lifað af skattastefnu ríkisstjórnarinnar núverandi séu eiturlyfjaneytendur. --- Þetta er ekki brandari frá mér sem þeir sem sitja hér uppi á svölunum geta farið með á skemmtistöðunum. Þetta er óbreytt tilvitnun í framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, Þórarin V. Þórarinsson, gagnekta sjálfstæðismann, sem lýsti því yfir í efn.- og viðskn. Alþingis í morgun að þeir einu aðilar í atvinnulífi á íslandi sem gætu þolað skattastefnu Sjálfstfl. og Alþfl. væru eiturlyfjaneytendur. ( Gripið fram í: Neytendur?) ( Gripið fram í: Eiturlyfjasalar.) Það er rétt. Mér varð á að segja eiturlyfjaneytendur. Það er von að mér verði á það mismæli. ( Fjmrh.: Fyrstu mistökin í lífinu.) Eiturlyfjasalar, auðvitað sagði framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins. Eiturlyfjasalar. Það er nefnilega svo komið að Vinnuveitendasambandið er líka farið að sakna síðustu ríkisstjórnar, það er svo komið. Það er ekki bara verkalýðshreyfingin sem lýsir yfir stuðningi við það sem við höfum sagt í skattamálum heldur er nú svo komið að Vinnuveitendasambandið biður Framsfl., Alþb. og Kvennalistann að bjarga sér frá þessari ríkisstjórn. Vinnuveitendasambandið biður fulltrúa Framsfl., Alþb. og Kvennalistans í efh. - viðskn. þingsins að taka upp baráttuna gegn þessari ríkisstjórn.
    Hvernig ætla menn að stjórna þessu landi? Í andstöðu við verkalýðshreyfinguna sem lýsti því yfir í morgun að ríkisstjórnin væri að skerða tekjuskatta launafólks þannig að það jafngilti lækkun skattleysismarkanna? Ekki hækkun skattleysismarkanna, eins og Alþfl. lofaði, heldur lækkun skattleysismarkanna. Vinnuveitendasambandið ræðst á allt, ekki bara tekjuskattinn heldur Hagræðingarsjóðinn, skattlagningu innlánsstofnana, gjaldið til þess að standa undir bótunum til launafólks þegar fyrirtæki lenda í gjaldþroti. Það er ekki til það skattafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram hér á Alþingi sem atvinnulífið er ekki á móti. Það er ekki til, hæstv. fjmrh. Ég skora á þig að koma hér upp í stólinn og nefna eitt skattafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur flutt á þessu þingi sem forsvarsmenn atvinnulífsins eru með. Það er ekki til. Og ég skora á hæstv. fjmrh. að koma hérna upp í stólinn og nefna eitt skattafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur flutt á þessu þingi sem samtök launafólks eru með. Það er ekki til.
    Hvernig ætla þessir menn að stjórna landinu? Í andstöðu við launafólk, í andstöðu við atvinnulífið? ( Umhvrh.: Og án þín.) Án mín, segir hæstv. umhvrh. ( Gripið fram í: Og lagði ræðumanni orð í munn.) Og lagði ræðumanni orð í munn. Já, það er ánægjulegt

að hæstv. umhvrh. skuli þó sjá eitt ljós í myrkrinu. Ég hélt nú að Alþfl. ætti nóg með sitt þegar helmingurinn af þingflokknum er kominn í uppreisn gegn ríkisstjórninni og það eina sem verður ríkisstjórninni til bjargar er að umhvrh. reki varamann sinn út af þingi svo Alþfl. geti bjargað sér í horn með því að nota atkvæði ráðherranna í atkvæðagreiðslunni um fjárlögin.
    Nei, virðulegi forseti, þetta er auðvitað orðið þannig að þjóðin veit ekki hvað hún á að gera við þessa ríkisstjórn. Hvaða aðilar í þessu samfélagi eru með þessari ríkisstjórn? ( Gripið fram í: Ráðherrarnir.) Jú, það er að vísu rétt, ráðherrarnir. Mennirnir með lífsstílinn, eins og stendur í leiðara DV, eru að leika ráðherra án þess að vera það. Enda stóðu sumir þeirra sig vel í Herranótt um árið.
    Hvað á gera við þessa ríkisstjórn, hæstv. utanrrh.? Ætlarðu að halda svona áfram? Heldurðu að það sé hægt að stjórna landinu í andstöðu við alla, bændur, launafólk, atvinnulífið, landsbyggðina, eigin flokka? Það er svo sem hægt að búa til þá dyggð að ef allir eru á móti manni sé maður á réttri braut, eins og aumingja Morgunblaðið sem sér það helst sér til bjargar að segja að úr því að allir séu á móti ríkisstjórninni þá hljóti hún að vera á réttri leið. En það var niðurstaða leiðara Morgunblaðsins fyrir skömmu og ríkisstjórn var hvött til að hörfa nú ekki í neinu máli. En viti menn, næsta dag var hún búin að hörfa í flestum málum. Þannig að það er meira að segja svo komið, hæstv. utanrrh., að Styrmir veit ekki einu sinni hvernig hann á að standa á bak við þessa ríkisstjórn. Hefur ekki hugmynd um það. Og sér það helst til ráða að skrifa um eitthvað annað í leiðurunum og gleyma öllu því sem hann hefur skrifað á umliðnum árum.
    Virðulegi forseti, við munum auðvitað halda áfram að taka þátt í þessari kómedíu sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gaf svo réttilega nafn í þingtíðindum á sínum tíma. Að Sjálfstfl. komi hér og flytji mál gegn eigin stefnu, gegn eigin orðum, í andstöðu við allt. Og við munum svo reyna það í stjórnarandstöðunni að flytja inn í þingsalina þau skynsemdarrök --- þau skynsemdarrök, hæstv. utanrrh. --- sem forustumenn í atvinnulífi og forustumenn í samtökum launafólks hafa sett fram.
    Ég vil að lokum rifja það upp að um þetta leyti í fyrra stóð fráfarandi ríkisstjórn í þeim sporum að vera hér líka með skattafrumvörp inni í þinginu. Og það vill svo til að helstu stuðningsaðilar þeirra frv. voru samtök atvinnulífsins og samtök launafólks. Þegar Sjálfstfl. ætlaði að stoppa þau skattafrumvörp í þinginu í desember í fyrra þá komu þeir, forustumenn Vinnuveitendasambandsins og forustumenn launafólks, til að knýja sjálfstæðisflokksþingmenninna til að samþykkja það sem við vorum að leggja til. Nú koma þeir til að reyna að knýja á okkur til að koma í veg fyrir það sem Sjálfstfl. er að leggja til. ( Fjmrh.: En hver er afstaða þingmannsins til frv.?) Já, nú spyr hæstv. fjmrh. örvæntingarfullur hvort ég ætli nú ekki að styðja þetta frv. hans. ( Gripið fram í: Frumvarp þingmannsins.) Frumvarp þingmannsins, sagði hæstv. fjmrh. Ég þakka bara fyrir. Það er viðurkennt hér í salnum að hæstv. fjmrh. er bara að flytja gamla lummu frá mér og hv. þm. Egill Jónsson hlær og heldur áfram að hlæja að ríkisstjórninni og ráðherrunum. Er það nú stand á Goddastöðum! (Gripið fram í.) Ég hef alltaf viljað hafa jöfnunargjald, hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Húrra!) Húrra, segir hæstv. fjmrh. og sér það sjálfum sér helst til bjargar að Alþb. fari nú að styðja hann hérna í salnum. Til hvers varstu að mynda þessa ríkisstjórn, hæstv. utanrrh., þegar fjmrh. er kominn í svo þrönga stöðu að hann hefur þann eina kost að biðja okkur í stjórnarandstöðunni um að liðsinna sér?
    En það er aukaatriði í þessu máli, hæstv. fjmrh., vegna þess að það var nú svo að þrátt fyrir mína persónulegu skoðun þá tók ég málflutning hæstv. utanrrh. alvarlega í síðustu ríkisstjórn. Ég tók það alvarlega að hann hafði fyrir Íslands hönd skrifað formlegt bréf og tilkynnt að jöfnunargjaldið yrði lagt niður. Ég tók það alvarlega að hæstv. utanrrh. hafði í ræðum sínum á alþjóðlegum vettvangi kynnt þessa ákvörðun Íslands og ég beygði mig undir það að sú væri niðurstaðan.
    En áður en ég tek afstöðu til þessa frv. formlega, hvað sem líður pólitískri afstöðu

minni til jöfnunargjalds, hæstv. fjmrh., þá vil ég fá skýringar hæstv. utanrrh. á því hvers vegna bréfin voru marklaus, hvers vegna ræðurnar, sem hann flutti á vettvangi EFTA og EB, voru marklausar, hvers vegna afstaða utanrrn. í tíð síðustu ríkisstjórnar var marklaus --- eða hvort hæstv. utanrrh. er kannski enn á sömu skoðun og hann var þá og sé orðinn bandamaður Vilhjálms Egilssonar hér í þingsalnum og þeir félagar í sameiningu koma í veg fyrir það að fjmrh. fremji brot á alþjóðlegum samningum. ( Fjmrh.: Við stöndum þó alltaf saman?) Já.