Jöfnunargjald

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 14:42:00 (2187)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Það kemur æ betur í ljós með hverjum klukkutímanum sem líður og hverju málinu á fætur öðru, sem hér kemur fyrir, í hvers konar stöðu hæstv. ríkisstjórn er með sín mál, fjárlagafrv. og tekjuöflunarfrv. sem því tengjast, eitt af hverjum er hér til umræðu. Frv. til laga um að breyta og blása lífsanda í um sinn, enn á nýjan leik, ákvæðum um innheimtu jöfnunargjalds.
    Það sem hefur e.t.v. komið skýrar fram núna á þessum síðasta sólarhring en áður er hversu hrikaleg vinnubrögð hæstv. ríkisstjórn hefur ástundað við undirbúning þessara mála, allan sinn málatilbúnað. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ég hefði tæplega trúað á því að ég ætti eftir að upplifa það nánast á einum og sama deginum eða einum og sama sólarhringnum að fá til viðræðna á þingi öll helstu hagsmunasamtök og stærstu hagsmunaaðila þjóðfélagsins og úr hinum ólíku áttum, þar sem eru heildarsamtök launafólks í landinu, þar sem eru samtök atvinnurekenda, verslunar, sveitarfélaga, útgerðaraðila og sjávarútvegs, og fleiri mætti þarna til telja, og allir, hver einn og einasti þessara aðila, lýstu hörðum mótmælum og andstöðu við meira og minna allan málatilbúnað hæstv. ríkisstjórnar. Það er annað sem hefur auðvitað vakið sérstaka athygli, og ég held að sé alveg óhjákvæmilegt að rifja upp og fer vel á því í tengslum við þetta mál, sem þegar hefur orðið tilefni til málshótana, og það er að menn eru ekki, mér liggur við að segja, fyrst og fremst óánægðir með innihaldið, með efnisatriðin í ráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar, djöfulleg sem þau nú eru upp til hópa, með leyfi að segja hæstv. forseti. Nei, það eru vinnubrögðin, það er framkoman sem hæstv. ríkisstjórn sýnir sem menn eru í raun og veru reiðastir yfir. Það eru hlutir eins og þeir að ríkisstjórnin virðir unnvörpum að vettugi gerða samninga. Það duga ekki lengur fingur annarrar handar til að telja upp þá samninga og löggerninga sem ríkisstjórnin er bara með þessum ráðstöfunum þessa dagana að brjóta eða hafa að engu.
    Ríkisstjórnin brýtur ákvæði um lögboðið samráð við aðila úti í þjóðfélaginu eins og við samtök sjávarútvegsins um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun og við Samtök sveitarfélaga varðandi framkvæmd sveitarstjórnarlaga. Það er meira að segja svo langt gengið að vilyrði, sem gefin höfðu verið fyrir samráði við aðila um tiltekin atriði, eru síðan svikin eins og kom skýrt fram í morgun þegar fulltrúar hagsmunasamtaka lýstu því að þau hefðu haft einn fund á sl. hausti með fulltrúum ríkisstjórnar. Þar hefði verið lofað samráði um þeirra mál en síðan hefðu þeir ekki frá ríkisstjórninni heyrt fyrr en viðkomandi atriði birtist í formi frv. á þinginu og var þá mjög vegið að hagsmunum þessara tilgreindu aðila. Þannig að í hverju tilvikinu á fætur öðru af þessum toga hefur ríkisstjórnin ekki bara með stefnu sinni og áformum heldur ekki síður með vinnubrögðum skapað sér þá stöðu sem er orðin að --- það liggur við að segja megi að þjóðfélagið logi stafnanna á milli af átökum og andstöðu við áform hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að bera á móti því að hæstv. ríkisstjórn kemst ekki hjá því að viðurkenna að hún treður nú illsakir við atvinnulífið í landinu.
    Ríkisstjórnin treður beinlínis illsakir við atvinnulífið í landinu í hverju málinu á fætur öðru bæði hvað samskipti, vinnubrögð og innihald snertir. Fyrir liggur mjög hörð andstaða samtaka launamanna þar sem eiga í hlut ýmis viðkvæm félagsleg réttindi sem á að

rífa í burtu, nýjar álögur á þeirra umbjóðendur og beinar kjaraskerðingar sem boðaðar eru eins og til að mynda í þeirri staðreynd --- og kom skýrt fram í morgun með rökum sem ég hygg að verði ekkert hrakin --- að persónufrádráttur tekur ekki hækkunum við þessi áramót eins og hann ætti að gera til að fylgja eftir verðlagi í landinu um 3,5% eða þar um bil sem svarar til rétt rúmum 2.000 kr. á mánuði vegna verðlagshækkana sem orðnar eru. Þannig að í hverju málinu á fætur öðru koma upp nýir hlutir þessa dagana. Þess vegna er það svo að uppákoma sem einhvern tímann hefði vakið fjaðrafok svo ekki sé meira sagt og sennilega orðið mönnum talsvert undrunarefni eins og það að þessi kunningi birtist hér, framlenging jöfnunargjaldsins, og síðan hin kostulegu viðbrögð Verslunarráðsins, ég meina kostuleg í þeim skilningi sem þau ber að hér í þinginu, að einn nefndarmanna í hv. efh.- og viðskn. neyðist til að skrifa sjálfum sér og hóta sjálfum sér óbeint lögsókn, þar sem svo vill til að þessi maður styður ríkisstjórnina, nái ósvinna þessi fram að ganga. Svo langt er gengið að jafnvel þetta veldur mönnum varla neinni undrun lengur. Slík eru þau ósköp sem búin eru að ganga á og birtast mönnum áður.
    Herra forseti. Það er alveg ljóst að það stendur ekki steinn yfir steini í vinnunni að afgreiðslu þessara mála hér á þingi. Við stjórnarandstæðingar höfum ítrekað óskað eftir því á undanförnum sólarhringum að hæstv. ríkisstjórn reyndi að hysja upp um sig buxurnar, eins og einu sinni fyrir löngu var sagt héðan úr þessum ræðustóli, og ná hlutunum saman hjá sér. Þess vegna væri jafnvel skynsamlegt að gera hlé á fundum Alþingis í einn til tvo sólarhringa þannig að ríkisstjórnin fengi tíma, óskertan tíma, næstu einn til tvo sólarhringana til að reyna að ná saman um hlutina en væri ekki að reyna sólarhring eftir sólarhring að breyta því á nóttunni sem hún hefur siglt í strand daginn áður og bjóða svo upp á nýja hluti að morgni. Svoleiðis er þetta búið að vera, hæstv. forseti, undanfarna nokkra sólarhringa báðum megin við helgina. Það sem ríkisstjórnin strandar með á hverjum degi er tekið til meðhöndlunar að því er virðist af einhverjum næstkomandi kvöld eða næstkomandi nótt og svo er boðið upp í nýjan dans að morgni. Og auðvitað getur þetta ekki gengið svona öllu lengur. Jólaleyfi er að skella á og hæstv. ríkisstjórn hlýtur að vera það ljóst að ef hún ekki nær að gjörbreyta um vinnubrögð í þessum efnum þá er þetta búið spil. Við hljótum að þurfa innan skamms að taka til skoðunar hvort ekki er þá óhjákvæmilegt að afgreiða greiðsluheimildir með einhverjum hætti og setja upp algerlega nýja forgangsröð þar sem eingöngu er gert það sem óhjákvæmilegt er til að rekstur þjóðfélagsins geti gengið með skikkanlegum hætti næstu sólarhringana og vikurnar og menn haldi áfram við þessa vinnu þegar nýtt ár gengur í garð.
    Ég held, herra forseti, að ég þurfi svo sem ekki að fjölyrða meira um þessa hluti, þeir liggja fyrir og ástæðulaust er að hamra það járn meira, svo heitt sem það er þegar orðið í höndum hæstv. ráðherra. Ég beini þess í stað orðum mínum til þeirra í því skyni að þeir reyni að taka þau til alvarlegrar íhugunar og gefa okkur svo fljótt sem kostur er einhverjar upplýsingar um hvernig ætlunin er að standa að hlutunum.
    Á undanförnum dögum hafa öll þau mál, sem yfir höfuð hafa komið frá hæstv. ríkisstjórn og ekki hafa verið þess eðlis að logandi illdeilur hafi verið um þau í þjóðfélaginu, verið afgreidd nánast á færibandi. Við vorum hér síðast í dag að gera að lögum fyrir hæstv. sjútvrh. frv. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Hvernig var staðið að afgreiðslu þess frv.? Það var mjög takmörkuð umræða um það við 1. umr. þar sem menn lýstu skilningi sínum á þessari erfiðu stöðu og út af fyrir sig jákvæðum viðhorfum til þeirrar viðleitni, svo skammt sem hún nær hjá hæstv. sjútvrh., að greiða eitthvað götu sjávarútvegsins með slíku máli. Síðan var það tekið til 2. og 3. umr. á sama sólarhringnum nánast án þess að nokkur maður segði orð. Þarna var verið að reyna að greiða fyrir máli sem var eitt af þeim fáu sem hægt var að afgreiða og var þess eðlis að ekki var um það einhver logandi ófriður í þjóðfélaginu. En það stendur á hinu að öll stærstu málin, fjárlögin sjálf, tekjuöflunarfrv. sem og þeir fylgifiskar ókræsilegir, eins og bandormur og fleira sem þessu tengjast, eru föst og strand vegna þess að hæstv. ríkisstjórn er sífellt að hringla með mikilvæg ákvæði í þessum málum.
    Varðandi þetta frumvarp, hæstv. forseti, um framlengingu jöfnunargjaldsins, er auðvitað mjög nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn geri eitthvað betur í tilraunum sínum til að rökstyðja að það sé í lagi vegna fyrri fullyrðinga og reyndar nýrra um ólögmæti þess að halda áfram álagningu þessa gjalds --- að hæstv. ríkisstjórn reyni að rökstyðja sinn málflutning. Hvað sem líður forsögu þessa máls þá verðum við auðvitað að gera kröfu til að það sé skoðað í ljósi ríkjandi aðstæðna og þess sem fram undan er á næsta ári. Það er alveg augljóst mál miðað við alla framsetningu á umræðum um þetta undanfarin ár að það hlýtur eðli málsins samkvæmt að verða erfiðara með hverjum mánuðinum, hverju missirinu, hverju árinu sem líður að rökstyðja áframhaldandi álagningu þessa gjalds því að deilur um það hafa fyrst og fremst staðið um það á undanförnu einu til tveimur árum hvort óhjákvæmilegt væri að afnema það án tafar. Eða að hægt væri að réttlæta með rökum einhverja framlengingu þess og þá gjarnan þannig að það mundi deyja út á tilteknum tíma og hverfa með því að urin væru upp þau uppsöfnunaráhrif eldra söluskattskerfis sem því var ætlað að mæta, að halda í jöfnunargjaldið eitthvað lengur en upptöku virðisaukaskatts nam. Var hér fluttur efnislegur rökstuðningur af hálfu hæstv. fjmrh. eða af hálfu hæstv. utanrrh. í þessu skyni? Svarið er því miður nei.
    Hæstv. fjmrh. læddist upp í ræðustólinn, neyddist til þess í björtu af því að því varð ekki komið við í nótt eins og hann hafði þó hugsað sér, og flutti eins stutta og snautlega ræðu og nokkur kostur var og forðaðist eins og heitan eldinn að fara út í efnislega umfjöllun, efnislegan rökstuðning, svo maður tali nú ekki um réttlætingu þess að halda gjaldinu áfram. Það var ekki reynt að sýna með neinum frambærilegum talnalegum rökum fram á það sem hlýtur, miðað við fyrri málflutning, að vera hin eina efnislega röksemdafærsla manna, eins og hæstv. fjmrh., að enn væru fyrir hendi þau uppsöfnunaráhrif söluskattsins gamla, kostnaðaríþyngjandi fyrir samkeppnisgreinar í landinu, sem réttlættu að viðhalda innheimtu jöfnunargjalds eitthvað áfram. Sé svo ekki, ef slík áhrif finnast ekki í nægjanlegum mæli þá hefur það verið málflutningur manna að þar með værum við augljóslega sek um brot á fríverslunarskilmálum og berskjölduð fyrir málshöfðun af þeim sökum.
    Enn síður kom fram efnislegur rökstuðningur í kostulegri ræðu hæstv. utanrrh. hér áðan sem var nú bara æfing í skylmingum því hann kom hvergi nærri efni málsins og reyndi að bjarga sér með því að ræða um þátttöku eða aðild annarra manna í forsögu þessa máls. (Gripið fram í.) Hæstv. utanrrh., ég var nú að reyna að vekja athygli manna á því að í dag væri desember 1991 og fram undan væri árið 1992. Það fer senn að verða nokkuð um liðið að virðisaukaskattur leysti söluskatt af hólmi en það er eins og hæstv. ráðherrar forðist jafnvel frekar en heitan eldinn að ræða um efni þessa frumvarps og það skil ég út af fyrir sig vel. Maður hlýtur að gefa sér það ef engin rök koma hér fram að hæstv. ríkisstjórn hafi þau alls ekki undir höndum og það sé þvert á móti bara valinn sá kostur að þegja um þá hlið málsins gegnum þykkt og þunnt, dengja þessu jöfnunargjaldi á fram eftir næsta ári upp á von og óvon, sennilega helst í trausti þess að það verði hvergi vakin á því athygli né muni nokkrir láta á rétt sinn reyna gagnvart ákvæðum þess á næsta ári. Ef hæstv. ríkisstjórn er ekki að stóla upp á það, hvað vakir þá fyrir henni? spyr ég. Vegna þess að ef hæstv. ríkisstjórn reiknar með þeim möguleika að til málshöfðunar gæti komið vegna ákvæða frv. á næsta ári á hún að byggja upp rökstuðning fyrir því hér strax við afgreiðslu laganna. Augljóslega getur það haft réttaráhrif, verið lögskýringaratriði þegar eða ef til málaferla kemur hvernig hæstv. ríkisstjórn hagar hér málflutningi sínum og rökstuðningi fyrir málinu þegar hún afgreiðir það. Ég sé ekki annað í ljósi þess að þegar liggja fyrir hótanir um málshöfðun. En að hæstv. ríkisstjórn sé nánast fyrir fram að gefa það mál, fyrir fram að tapa því með því að reyna ekki að halda uppi rökstuðningi og efnislegum málflutningi við afgreiðslu málsins hér á þinginu, þetta er svo aumingjalegur málatilbúnaður, hæstv. forseti, að engu tali tekur. Því miður hlýtur maður að draga þá ályktun af honum að hæstv. ríkisstjórn hafi í raun og veru gefist upp gagnvart þeirri hlið málsins og sé að nota þetta ásamt með öðru til að reyna að ljúga hér saman fjárlögunum, krækja þeim einhvern veginn saman, klóra yfir gatið í fullkominni óvissu um áhrif þess að standa svona að málum hvað þetta frumvarp snertir.
    Hvað mína afstöðu varðar er ljóst að við alþýðubandalagsmenn höfum verið tilbúnir til þess og viljað reyna standa vörð um hagsmuni íslenskra samkeppnisgreina eins og okkur var framast heimilt. Það er allt annar hlutur en sá að vera tilbúinn til að brjóta lög eða brjóta samninga. Það skal að vísu tekið fram hvað þann snertir sem hér talar að ég hef aldrei verið veikur fyrir rökum heilagleikamanna í þessum efnum, þeirra sem hafa viljað vera kaþólskari en páfinn og ævinlega lokað augunum fyrir því hvernig ýmsar aðrar þjóðir snúa málum sér í hag í þessum samskiptum og viljað vera heilagastir allra hvað þessa fríverslunarskilmála alla snertir. Ég fylli ekki þann hóp. Ég er alveg tilbúinn til að standa með þeim mönnum sem með rökum vilja reyna að sækja eins langt og hægt er innan ramma laga og samninga til að standa vörð um hagsmuni íslenskra samkeppnisgreina. En það er allt annað mál að ætla að ganga lengra. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki sýnt fram á fullnægjandi rökstuðning fyrir því að halda áfram þessari framlengingu jöfnunargjaldsins. Það er þó reynt í þeirri greinargerð gamla frumvarpsins sem hér var prentuð óbreytt. Þar er á ferðinni ákveðinn efnislegur rökstuðningur fyrir því að enn séu þrátt fyrir allt fyrir hendi ákveðin uppsöfnunaráhrif sem réttlæti það að halda áfram hluta af álagningu jöfnunargjaldsins á árinu 1991. Ég minni á að menn treystust ekki til þess þá að halda í það að fullu. Hér er ekki boðið upp á neitt slíkt. Hér er enginn rökstuðingur.
    Nú er það auðvitað svo að hv. þm. er væntanlega öllum ljóst að þetta gjald er á útleið. Það er alveg ljóst að það er eingöngu tímaspursmál hvenær menn verða að hætta að leggja á flatt og almennt gjald af þessu tagi. Reyndar boðar þetta frumvarp að það leggist niður um mitt næsta ár. Þess vegna finnst mér það mikið álitamál í svona veikri stöðu að velja þessa leið sem hæstv. ríkisstjórn gerir. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Af hverju var ekki frekar reynt að fara í þá vinnu, sem oft hefur verið rætt um og ljóst er að við höfum fullkomlega gildar heimildir til að gera, að leggja á sértæk jöfnunargjöld? Að fara í þá vinnu, sem að mínu mati hefur lengi verið trassað af hálfu skattyfirvalda á Íslandi, að útfæra og leggja á sértæk jöfnunargjöld á þau svið innflutts varnings sem er sannanlega niðurgreiddur erlendis frá og þar með er heimilt að leggja jöfnunargjöld á samkvæmt gildandi fríverslunarsamningum þeim sem við erum aðilar að. Hvers vegna er þetta ekki frekar gert? Því að í þessu getur verið framtíð og jafnvel tekjuöflun til handa ríkissjóði um árabil ef svo ber undir. Nærtæk dæmi eru ýmiss konar innflutt unnin matvæli sem flæða hér inn í landið, stórlega niðurgreidd, og keppa við innlenda framleiðslu með mjög ósanngjörnum hætti. Þarna væri hægt að afla ríkissjóði tekna með sértækum jöfnunargjöldum. Ef til vill eru það ekki mjög stórar upphæðir en það er alveg ljóst að í öllu falli brestur okkur ekki heimildirnar þarna.
    Hæstv. iðnrh. er sérstakur stuðningsmaður og velgerðarmaður kökugerðar í landinu. Þegar hallaði á kökugerðina í samkeppni við innflutning þá skorti hæstv. iðnrh. ekki viljann til að beita ótæpilega heimildum til jöfnunargjalda og það eru lögð á svínhá jöfnunargjöld á innfluttar kökur til að ekki afleggist bakstur í landinu og ég er ánægður með. Það er fínt. En ég vil bara láta gera það á fleiri sviðum. Skoða það í raun og veru á öllum þeim sviðum öðrum þar sem íslenskar greinar búa við óréttláta samkeppnisaðstöðu hvað þetta snertir. Það hefur hins vegar því miður komið í ljós að hæstv. iðnrh. er t.d. ekki tilbúinn til að beita heimildum til jöfnunargjalda gagnvart innfluttum niðurgreiddum skipasmíðaiðnaði eða framleiðslu niðurgreidds erlends skipasmíðaiðnaðar. Þar er auðvitað annað svið á ferðinni svo dæmi sé tekið þar sem við höfum fullar heimildir til að leggja á jöfnunargjöld. Auðvitað getur verið umdeilt mál hvort þjóðhagslega skynsamlegt eða rétt sé gagnvart sjávarútvegi okkar að hækka eitthvað verðið á innfluttum skipum. Það er sjálfstætt mál hvort menn af pólitískum eða hagkvæmnisástæðum falla frá því að nýta sér slíkar heimildir en hún er þarna fyrir hendi.
    Ég nefndi ýmsar vörur tengdar unnum matvælum. Mörg fleiri slík svið mætti nefna þar sem sannanlega er um að ræða niðurgreiðslur, styrki, útflutningsuppbætur eða aðra því um líka hluti sem framleiðslan nýtur í upprunalandinu, sem gefa heimild og rétt til að mæta því með jöfnunargjöldum eða tollum í innflutningslandi.
    Ég tel og vil láta það koma fram sem afstöðu mína, herra forseti, að það hefði verið miklu málefnalegra og meiri reisn yfir því af hálfu hæstv. ríkisstjórnar ef birst hefði á borðum þingmanna vel unnið og vandað frv. með sértækum jöfnunargjöldum á hinum ýmsu sviðum þar sem reynt væri að jafna samkeppnisstöðu þeirra greina sem þarna búa við óréttlæti, án þess að ég sé að útiloka eða falla frá þeim möguleika --- ef menn finna fullnægjandi réttlætingu fyrir því --- að halda áfram einhverri töku þessa jöfnunargjalds. Ég er þeirrar skoðunar að það sé enginn stórkostlegur skaði þó að við látum á það reyna. Annað eins er svo sem gert úti í heiminum. Ýmsar þjóðir vinna nánast samkvæmt þeirri reglu að hörfa aldrei með slíka hluti fyrr en þær eru nánast reknar til þess. Þannig hafa t.d. Japanar og Norðmenn verið alveg ófeimnir við það á undanförnum árum að standa á svona löguðu þangað til þeir eru reknir til baka með það. Menn geta skoðað þetta ef þeir t.d. fara yfir hvernig japanski rafeindaiðnaðurinn ver hagsmuni sína. Frægt er líka dæmi Norðmanna og deilur Norðmanna og Bandaríkjamanna, svonefnt eplastríð, sem snerist um nákvæmlega sams konar hluti. Ég fylli nú ekki, virðulegur forseti, flokk þeirra heilagleikamanna en það breytir ekki hinu að menn verða auðvitað að hafa einhverjar stoðir undir málatilbúnaði sínum og vera ekki bara marflatir hvað það snertir að fá á sig ásakanir um samningsrof og lögbrot.
    Hæstv. utanrrh. gaf tilefni til þess að ræða dálítið við hann síðar um afrek hæstv. ríkisstjórnar í skattlagningu á fyrirtæki. Hann blandaði inn í umræður um málið væntanlegri skattlagningu arðgreiðslna fyrirtækja eða öllu heldur niðurfellingu undanþágu eða heimild til þess að draga arð frá tekjum áður en til skattgreiðslna kemur. Hann taldi þetta mikið framfaraspor þar sem Íslendingar hefðu einir þjóða haft skattfrjálsan arð báðum megin, þ.e. af hálfu greiðanda og viðtakanda. Í fyrsta lagi er þetta ekki nema hálfur sannleikur hjá hæstv. utanrrh., eins og hann ætti að vita ef hann er á annað borð að tjá sig um þessi mál því að þetta hefur verið undir tilteknum þökum. Í öðru lagi er það auðvitað svo að það skortir á samræmi þessara hluta og gerir það að verkum að aðilar vinnumarkaðarins og atvinnurekendur ráðast mjög hart gegn breytingunum. Það er m.a. sú staðreynd að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki mannað sig upp í að skattleggja þá á móti vaxtatekjur. Þá spyrja menn eðlilega: Hvers vegna á að skattleggja arð, arðgreiðslur fyrirtækja, en ekki þær tekjur sem aðrir geta haft af vöxtum? Slíkt hlýtur auðvitað að beina fjármagninu frá hlutabréfakaupum og yfir í aðra pappíra. Þar með eru komin þau rök sem vega kannski þyngst í þessu, að þetta yrði nánast samstundis banahögg á hinn vanþróaða íslenska hlutabréfamarkað. Það er auðvitað reisn yfir því að hæstv. fjmrh. og fyrrum framkvæmdastjóri Stjórnunarfélagsins, sem bar þessa hluti mjög fyrir brjósti hér á árum áður, verði sá sem greiði íslenska hlutabréfamarkaðinum banahöggið, þessum eymingja sem er í raun og veru

vart búinn að slíta barnsskónum enn þá.
    Virðulegi forseti. Ég held að tímans vegna geymi ég mér að ræða þetta frekar við hæstv. utanrrh. enda er væntanlega betra að hann sé þá viðstaddur því það eru þó frekar líkur á því að hann heyri eða skilji eitthvað af því sem við hann er sagt en þegar hann er fjarverandi. Ég ætlaði reyndar að spyrja hæstv. utanrrh., af því mér finnst það skipta máli í sambandi við þetta atriði: Ætlar hann að verða við óskum hv. 8. þm. Reykn. um að birta okkur það bréf sem utanrrn. sendi Evrópubandalaginu um þetta efni? --- Virðulegur forseti. Er hæstv. utanrrh. mjög vant við látinn? ( Forseti: Forseti veit ekki betur en að hæstv. ráðherra sé í hliðarherbergi en ég skal gera honum viðvart.)
    Já, ég vildi gjarnan fá að ítreka eina spurningu og bera fram aðra við hæstv. utanrrh., sem flutti auðvitað mjög merkilega ræðu og byggðist allur málflutningur hans á sérstökum neyðarrétti sem ég fékk ekki betur heyrt en hann væri að skilgreina í ræðustólnum. Hann gaf lönd og leið alla tilburði til að rökstyðja málið efnislega en vék að því að þvílík áföll hefðu dunið yfir íslensku þjóðina að hún ætti ekki annan kost en að grípa til neyðarréttar sem heimilaði henni að brjóta lög og samninga og halda áfram jöfnunargjaldinu. Þannig skildi ég málflutning hæstv. utanrrh. að svo væri komið á Íslandi í dag vegna þessara miklu áfalla, og nefndi hann þó ekki það sem stærst er og yfir þjóðina hefur dunið, sem er auðvitað að sitja uppi með hæstv. ríkisstjórn, að neyðarréttur Íslendinga væri orðinn virkur til þess að brjóta alþjóðlega samninga. Gaman væri að vita hvort hæstv. forsrh. er þessum málflutningi hæstv. utanrrh. sammála í ríkisstjórn hæstv. forsrh., að einhvers konar neyðarréttarákvæði þjóða séu orðin virk, sem hægt sé að grípa til þegar jafnmikil áföll hafi dunið yfir eins og nú hafa gengið yfir íslensku þjóðina. En hæstv. utanrrh. hélt því áðan fram að þetta neyðarástand, sem hæstv. utanrrh. lýsti yfir að væri gengið í garð á Íslandi, réttlætti þess vegna samningsrof og lögbrot af Íslands hálfu, og er merkilegt að ráðherra í hæstv. ríkisstjórn skuli gefa ástandinu þessa einkunn.
    Ég ætlaði að spyrja hæstv. utanrrh. að því en það má alveg eins bera þá spurningu upp við hæstv. forsrh., sem hlýtur að hafa kynnt sér þetta mál og náttúrlega hæstv. fjmrh., áður en ákveðið var að leggja þetta frv. fram um framlengingu jöfnunargjaldsins --- og kemur nú hæstv. utanrrh. í salinn. Mín spurning er í fyrsta lagi ítrekuð spurning hv. 8. þm. Reykn.: Mun hæstv. utanrrh. senda þingmönnum og sjá okkur í efh.- og viðskn. Alþingis fyrir bréfi því sem hann sendi Evrópubandalaginu þar sem tilkynnt var um niðurfellingu jöfnunargjaldsins? Ég tek það svo að hæstv. utanrrh. hafi heyrt spurningu mína og ætli að svara henni. Mun bréfi þessu verða komið til skila til okkar nefndarmanna í efh.- og viðskn. og gert þess vegna opinbert í þinginu eftir atvikum?
    Seinni spurning mín er svo afleidd og er svona: Mun hæstv. utanrrh. ekki --- verði þetta frv. afgreitt hér --- afturkalla bréfið til Evrópubandalagsins og senda nýtt þar sem tilkynnt verður um að fallið hafi verið frá áformum um að hætta töku jöfnunargjalds og þvert á móti verði það tekið fram á mitt næsta ár með sömu prósentu og var á síðari hluta þessa árs eða jafnvel allt þetta ár? Þetta eru tvær einfaldar, tiltölulega skýrar spurningar sem ættu ekki að vefjast fyrir reyndum manni eins og hæstv. utanrrh. að svara.