Jöfnunargjald

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 15:14:00 (2189)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Það sem skiptir að sjálfsögðu meginmáli í sambandi við frv. til laga um breyting á lögum um jöfnunargjald er sú spurning hvort enn séu fyrir hendi uppsöfnunaráhrif í íslenskum atvinnurekstri sem réttlæta að þetta gjald verði áfram lagt á. Það eru færð fyrir því rök í greinargerð frv. að svo sé enda er ekki langt síðan að söluskattur var lagður af hér á landi og virðisaukaskattur tekinn upp í hans stað og allar fjárfestingarvörur iðnaðarins eru að meira eða minna leyti keyptar með söluskatti. Það á ekki eingöngu við um fasteignir heldur að nokkru leyti um vélar og tæki þó að það hafi verið endurgreitt í einhverjum mæli áður fyrr.
    En það eru fleiri uppsöfnunaráhrif en nefnd eru í greinargerðinni og má í því sambandi minna á hið margnefnda aðstöðugjald sem er sá opinberi skattur sem tíðkast ekki í samkeppnislöndum okkar og alveg ljóst að íslenskir atvinnuvegir þurfa að borga þann skatt umfram atvinnuvegi í helstu samkeppnislöndum okkar. Jafnframt eru fleiri skattar sem eru því marki brenndir að þeir eru ekki algengir í nágrannalöndum okkar. Ég hygg t.d. að sá skattur sem nú er verið að leggja á á atvinnureksturinn, sérstakur skattur til að leggja í sjóð vegna hugsanlegra gjaldþrota, 0,2%, sé ekki algengur skattur í helstu nágrannalöndum okkar þótt ég hafi ekki nákvæmar upplýsingar um það. Þannig má því færa fyrir því full rök að íslensk skattalöggjöf sé með þeim hætti og það vanti svo mikið upp á samræmingu við skattalöggjöf annarra landa, og þar að auki virðast ekki vera nein áform um það að hrinda slíkri vinnu af stað, að full rök séu með því að framlengja þetta gjald. Og e.t.v. séu enn þá meiri rök fyrir því nú en nokkru sinni fyrr, m.a. vegna þess hvað fram hefur komið frá núv. hæstv. ríkisstjórn. Þannig að það má vera að þrátt fyrir öll bréf sem send hafa verið og þrátt fyrir öll ummæli sem í málinu hafa fallið, hvort sem það er af núv. hæstv. utanrrh. eða öðrum, þá hafi ríkisstjórnin með stefnu sinni safnað í sarpinn til þess að rökstyðja málið gagnvart erlendum aðilum, samkeppnisaðilum okkar og samningsaðilum á öðrum mörkuðum.
    Ég hygg að svo sé og þess vegna má spyrja hvers vegna menn eru að fella gjaldið niður 1. júlí 1992. Er ekki ástæða til að halda því út allt árið 1992 og draga frekar úr annarri skattheimtu sem engin leið er að styðja af atvinnulífinu? Ég hygg að þrátt fyrir allt séu margir í íslensku atvinnulífi sem vilji þennan skatt fremur en marga aðra skatta sem núv. ríkisstjórn er með í töskum sínum og á borðum þingsins og jafnvel þótt full virðing sé borin fyrir skoðunum Verslunarráðs Íslands og væntanlegri málshöfðun þeirra undir forustu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Það er að sjálfsögðu hið alvarlegasta mál en ég hygg að ríkisstjórnin geti safnað nokkrum rökum til viðbótar í þá greinargerð sem hér liggur fyrir.
    En ég vildi aðeins fara nokkrum orðum um það sem hæstv. utanrrh. sagði um þá umræðu sem fram fór fyrr í dag um það sem Vinnuveitendasamband Íslands kallar aðför að atvinnurekstri í landinu og það sem menn kalla sérstaka óvild í garð atvinnurekstrar í landinu. Hann kom hér upp og taldi það vera mjög til bóta að breyta frádráttarreglum að því er varðar arð, og taldi að það hefði verið mikið afrek hjá Alþfl., þessum sósíalíska flokki, að berja það í gegn í samstarfi með sjálfstæðismönnum. Það væri mikið afrek og það gerði ekki mikið til þó að vinnuveitendurnir væru eitthvað að kvarta yfir því. Um væri að ræða framkvæmd sem ekki væri algeng í öðrum löndum.
    Hæstv. utannrh., því miður er málið ekki svo einfalt. Þannig vill nefnilega til að tekist hefur góð pólitísk samstaða um það hér á landi að það sé mikil þörf á því í íslensku atvinnulífi að efla áhuga einstaklinga til að fjárfesta í atvinnulífinu og taka þátt í því. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur m.a. gengið svo langt og haldið því fram að hér eigi að einkavæða í stórum stíl. Taka verkefni frá hinu opinbera, láta þau í hendur einstaklinga og hvetja einstaklingana til að fjárfesta í hinum ýmsu verkefnum samfélagsins. Menn hafa viljað taka þau áform hæstv. ríkisstjórnar öll með fyrirvara enda ekki verið þeim öllum sammála. En svo virðist vera að ríkisstjórnin hafi gleymt þeim áformum sínum þegar fjallað var um reglurnar.
    Það var ákveðið í tíð síðustu ríkisstjórnar að hækka skattfrelsismörkin eða frádráttarregluna að því er varðar arð greiddan út úr atvinnurekstri úr 10% í 15% til samræmis við annan fjármagnskostnað á fjármagnsmarkaði. Vextir eru frádráttarbærir í atvinnurekstri. Ef menn meina eitthvað með því að auka eigið fé, hlutafé í íslenskum atvinnurekstri verður að líta á kostnaðinn af hlutafénu með sambærilegum hætti og vexti af öðru lánsfé eða eigin fé. Þetta er auðvitað kjarni málsins.
    En ef nú á að taka ákvörðun um það að ekki megi draga frá kostnað atvinnurekstrarins af hlutafé þá er verið að stefna inn á þá braut á nýjan leik að hætta við að auka slíka eiginfjármögnun íslensks atvinnurekstrar og stefna honum í meira mæli inn á lánamarkaðinn. Svo einfalt er það. Það hefur jafnframt verið skoðun flestra að nauðsynlegt sé að auka þátttöku lífeyrissjóða landsins í atvinnurekstrinum. Þær tekjur sem lífeyrissjóðirnir fá eru ekki skattskyldar. En ef arður af hlutafé er ekki lengur frádráttarbær í atvinnurekstri, aðeins vextir af lánsfé, er alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir munu ekki lengur vera tilbúnir að setja hlutafé inn í atvinnureksturinn heldur munu eingöngu vera tilbúnir til að setja lánsfé inn í atvinnureksturinn. Þetta er ekki flóknara en þetta. Það er mjög merkilegt að hæstv. núv. ríkisstjórn skuli ekki gera sér grein fyrir þessum einföldu staðreyndum. Í reynd er enn þá merkilegra að þær skuli ekki hafa verið ræddar við forsvarsmenn atvinnulífsins í landinu. Hér er um mikla skipulagsbreytingu að ræða, mikla skattalega breytingu sem varðar allan fjármagnsmarkaðinn. Það er því ekkert undarlegt þótt íslenskir atvinnurekendur kalli þessar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar aðför að íslensku atvinnulífi og sýni best skilningsleysi hæstv. ráðherra á því sem þeir eru sjálfir að tala um. Hvers vegna í ósköpunum eru þeir að skreyta sig með þessum orðum alla daga, að auka þurfi einkavæðingu og efla atvinnulífið, þegar þeir virðast ekki skilja nauðsyn þess að það sé samræmi í frádrætti fjármagnskostnaðar atvinnulífsins?
    Ég vil líka minna hæstv. utanrrh. á að það hafa lengi verið uppi fyrirætlanir um að samræma skattlagningu á vaxtatekjum, samræma skattlagningu á fjármagnstekjum við það sem gengur og gerist um launatekjur. Flestir, sem eitthvað þekkja til skattamála, eru sammála um að það sé orðið óeðlilegt í íslensku samfélagi að einstaklingar geti haft fjármagnstekjur skattfrjálsar nánast í hið óendanlega en menn þurfi að greiða skatt af hinum minnstu launatekjum.
    Ég hafði trúað því að hæstv. núverandi ríkisstjórn ætlaði að vinna að samræmingu þessara þátta en eftir að þessi áform eru komin fram verður því ekki lengur trúað. Hvaða vit er í því að hafa það sem fyrsta skref að arður verði í öllum tilvikum skattfrjáls hjá móttakanda? Í dag eru vaxtatekjur skattfrjálsar hjá móttakanda í langflestum tilvikum en ég hefði haldið að stefna bæri inn á þá braut að draga úr þessu skattfrelsi fjármagnsteknanna. Því er það ekki rétt skref, að mínu mati, að byrja á því að hafa skattfrelsi algjört hjá móttakanda af arði.
    Það er hins vegar alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að arður er í dag skattfrjáls hjá móttakanda upp að vissum mörkum og mætti vel hugsa sér að endurskoða það. Um það hefur jafnframt verið allrík pólitísk samstaða í landinu að halda nokkru skattfrelsi af tekjum

af arði til þess að auka og efla þátttöku almennings í atvinnurekstrinum. Nú á allt í einu að klippa á þetta, strika þetta út með einu pennastriki án þess að tala við atvinnulífið, án þess að tala við fjármagnsmarkaðinn. Það er svo sem ósköp eðliegt að mikið uppnám verði í atvinnulífinu, mikið uppnám á fjármagnsmarkaðnum, þegar menn henda þessu svona inn í fljótfærni án þess að vita almennilega hvað þeir eru að gera.
    Það virðist því miður vera svo að hæstv. núv. ríkisstjórn viti allt of lítið um það sem hún er að gera og væri þess vegna mikilvægt að fresta nú þingfundum þannig að menn fengju svefn í eins og tvo sólarhringa og athuga hvort menn verða ekki betur fyrir kallaðir þegar þeir vakna að nýju.