Aukatekjur ríkissjóðs

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 15:47:00 (2194)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég ætla í örfáum orðum að gera grein fyrir því hvers vegna ég skrifaði með fyrirvara undir þetta frv. um aukatekjur ríkissjóðs. Tvær ástæður liggja þar aðallega að baki. Önnur er sú að í nokkrum tilvikum er um allverulega hækkun á gjöldum að ræða. Það var einhver sem reiknaði út að það væri allt að 5.000% hækkun á einu gjaldinu sem þarna væri um að ræða og benti á að enn væru þjóðarsáttartímar. Og það er eðlilegt að ríkisstjórnin beri ábyrgð á þessum hækkunum.
    Í öðru lagi vil ég nefna að mér þykir skorta á innra samræmi í þessum gjöldum og þar nefni ég einkum til kaflann þar sem fjallað er um atvinnuleyfi. Ég tel að hann þurfi að endurskoða og samræma þau gjöld sem þar er kveðið á um.