Lánsfjárlög 1991

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 15:50:00 (2197)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 243 sem undirritað er af mér og það er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur haft til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingar á lánsfjárlögum fyrir árið 1991. Frumvarpið felur í sér heimild til ríkisstjórnarinnar um erlenda lántöku upp á 12,8 milljarða kr. til viðbótar því sem heimilað var í lánsfjárlögum þeim sem samþykkt voru í mars sl. Það er ljóst að lánsfjárþörf ríkisins hefur farið mjög úr böndum og einnig kemur til að lántaka á innlendum markaði hefur ekki gengið eftir svo sem áformað var. Slík fjármálastjórn kann ekki góðri lukku að stýra og sannar enn einu sinni að ár eftir ár reynast áætlanir ríkisins byggðar á afar veikum grunni.
    Síðastliðinn vetur gagnrýndu þingkonur Kvennalistans áherslur í frumvarpi til lánsfjárlaga fyrir árið 1991 en í áliti 2. minni hluta fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar segir: ,,Annar minni hluti lítur svo á að þau lánsfjárlög, sem hér um ræðir, byggist á óraunsæi um þróun á lánamarkaðinum og augum lokað fyrir yfirvofandi áföllum eins og hruni mastra á Vatnsendahæð, en skollaeyrum skellt við hógværum beiðnum og andmælum fulltrúa hinna mjúku mála.``
    Það má segja að þessi orð hafi ræst. Nefndarálit þetta var skrifað í desember 1990 en í óveðrinu mikla sem yfir gekk í febrúar hrundi langlínumastrið á Vatnsendahæð! Þá hefur ástandið á lánamarkaðinum þróast mjög til hins verra, með háum vöxtum og mikilli samkeppni um lánsfé sem ríkið á ekki hvað minnstan hlut í að skapa. Fulltrúar Kvennalistans sátu hjá við afgreiðslu lánsfjárlaga ársins 1991 og munu einnig gera það við afgreiðslu þessa viðbótarfrumvarps enda stendur Alþingi frammi fyrir gerðum hlut.``