Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 16:57:00 (2202)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að hafa leyft þessa umræðu og málshefjanda að eiga frumkvæði að því að hún skuli fara fram. Það er að koma æ betur í ljós hve margir þættir í samningi um Evrópskt efnahagssvæði eru langt frá því að vera með þeim hætti að Íslendingar geti sætt sig við að gerast aðilar að efnahagssvæðinu. Álit EB-dómstólsins hefur sett málið í hnút sem óvíst er að verði leystur. Það var ljóst strax 22. nóv. þegar athugasemdir komu til framkvæmdastjórnar EB frá dómstólnum um að niðurstaðan yrði líklega sú sem nú er orðin. Dómstóllinn vill ekki framselja neitt af valdi sínu né láta skerða sjálfstæði sitt. Miðað við túlkanir og niðurstöður dómstólsins fram til þessa átti þessi niðurstaða dómstólsins ekki á neinn hátt að koma á óvart, allra síst hæstv. utanrrh. sem hefur haft þetta mál sem aðalatvinnu nú í nokkur ár.
    Ég get ekki verið sammála hæstv. utanrrh. þegar hann segir að þetta sé bara pólitískt mál heldur er þetta spurningin um sjálfstæði EB-dómstólsins gagnvart framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu. Ef dómstóllinn segir að EES-samningur samræmist ekki ákvæðum Rómarsáttmálans þarf annaðhvort að breyta Rómarsáttmálanum eða EES-samningi ef halda á til streitu að hann verði að veruleika. Það er ekkert smámál sem hægt er að kippa í liðinn með smáorðalagsbreytingum.

    Vitnað hefur verið til 144. gr. Rómarsáttmálans, þessarar stuttu greinar, þar sem segir að dómstóllinn eigi að tryggja að farið sé að lögum við túlkun og beitingu samnings þessa þannig að greinilegt er að dómstóllinn telur ekki að þarna sé farið að lögum.
    Ef við gerum okkur í hugarlund hvort líklegt sé að Rómarsáttmálanum verði breytt held ég að mjög ólíklegt sé að það muni gerast. Nú er verið að gera breytingar í átt til meiri samruna og þess vegna er mjög ólíklegt að Evrópubandalagið muni samþykkja að gera breytingar á Rómarsáttmálanum sem eru í þá átt að rýra sjálfstæði Evrópudómstólsins. Það er því mjög ólíklegt, auk þess sem það mundi taka þó nokkuð marga mánuði að gera það því að samkvæmt ákvæðum Rómarsáttmálans þarf að kalla saman ríkjaráðstefnu EB og síðan þurfa þing allra ríkjanna að samþykkja hann. Þetta er ekkert sem gert er yfir eina nótt. Einnig verður að hafa það í huga að tvö EFTA-ríkin hafa þegar sótt um inngöngu í EB og e.t.v. fylgja fleiri á eftir. Það er því varla raunhæfur möguleiki að EB-ríkin breyti Rómarsáttmálanum. Ég reikna ekki með að þau telji að nokkur vegur sé að gera það.
    Miðað við þær athugasemdir sem EB-dómstóllinn hefur gert við stofnanaþátt EES-samnings get ég ekki séð að þær breytingar geti orðið á honum með þeim hætti að það geti orðið ásættanlegt fyrir okkur. Samningsdrögin eru ótæk eins og þau eru nú og geta aðeins versnað. Þau eru þegar komin í mótsögn við ákvæði stjórnarskrárinnar og stofna efnahagslegu og stjórnarfarslegu sjálfstæði þjóðarinnar í mikla hættu. Ég get ómögulega fundið eða séð það neins staðar að EB-dómstóllinn hafi úrskurðað það að EFTA-löndin hafi ekki afsalað sér valdi. Ég hef að vísu ekki lesið þetta allt frá orði til orðs en það væri fróðlegt að fá ábendingar um það hvar í ósköpunum það stendur í þessum gögnum að það sé úrskurður EB-dómstólsins, að hægt sé að túlka samninginn á þann veg að EFTA-löndin hafi ekki afsalað sér valdi.
    Það sem hæstv. utanrrh. hefur hér nefnt, að draga eigi úr vægi dómstólsins og auka vald EES-nefndarinnar, eins og hann sagði áðan, og síðan e.t.v. koma á gerðardómi get ég ekki séð að samrýmist neitt frekar því sem EB-dómstóllinn hefur sagt nú ef á að ganga út frá því að sömu lög og reglur eigi að gilda á öllu svæðinu og túlkun á þeim. En eitt af því sem þeir hafa bent á er einmitt að erfitt sé að halda sömu lögum og reglum á öllu svæðinu ef tveir mismunandi dómstólar eiga að skera þar úr. Þess vegna skil ég ekki að það sé möguleiki á, ef um er að ræða að mynda þetta Evrópska efnahagssvæði með þeim hætti sem hingað til hefur verið gengið út frá, að það muni verða samrýmanlegt niðurstöðu dómstólsins. EB-dómstóllinn vill fá að túlka lög og reglur EB án þess að taka mið af túlkunum annarra dómstóla og þeir verða ekkert ánægðir með það að einhverjir aðrir eigi að úrskurða um hvað lög og reglur eigi að gilda.
    Að mínu mati er eina leiðin í þessu máli að stjórnvöld viðurkenni að það er komið í óefni. Við eigum ekkert erindi í áframhaldandi samflot með EFTA-ríkjunum sem eru að keppa um inngöngu í EB. Við eigum aðeins eina leið í þessari stöðu og það er ágætis leið að mínu mati. Við eigum góðra kosta völ í samskiptum við Evrópubandalagið og við eigum nú þegar að hætta öllum viðræðum, leggja yfirvegað mat á þjóðlega hagsmuni og leita eftir tvíhliða viðræðum við EB um endurbætur á gildandi fríverslunarsamningi og gagnkvæmum samskiptum á öðrum sviðum. Sú leið er farsælust fyrir land og þjóð fyrir alla framtíð. Við verðum að muna að við erum með sæmilega góða fríverslunarsamninga við Evrópubandalagið og við eigum auðvitað að leita að endurbótum á þeim.
    Aðild að Evrópsku efnahagssvæði var slæmur kostur en sýnu verri væri innganga í Evrópubandalagið sem tók í Maastricht viðbótarskref að stórríki með sameiginlegri mynt, óháðum seðlabanka og pólitísku samstarfi í utanríkis- og öryggismálum. Inn í það stórríki eiga Íslendingar ekkert erindi og Kvennalistinn hefur ekkert breytt stefnu sinni að því er

þetta atriði varðar.