Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 17:13:00 (2203)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu. Einkum og sér í lagi fagna ég því að mér finnst minna bera á milli en menn hefðu kannski haldið í ræðum þeim sem fluttar hafa verið. Mér finnst að allir ræðumenn hafi gert sér grein fyrir að í jafnalvarlegu og mikilvægu máli og þetta er ríður á miklu að við reynum að ná sem bestri samstöðu og það virðist mér að muni geta tekist.
    Fyrst langar mig að víkja aðeins að orkusáttmála Evrópu sem var ræddur í utanrmn. á löngum fundi í gær og þar varð niðurstaðan sú að menn fólu hæstv. utanrrh. að ræða við viðskrh., sem er erlendis, væntanlega til að undirrita þennan samning eða setja á hann stafi sína. Gerðar voru breytingar á ræðu þeirri, sem hann hugðist flytja, í samráði við okkur og hafði hæstv. utanrrh. forustu um það að ósk nefndarinnar. Ég held að rétt sé að undirstrika hér og nú á þessum stað, í Alþingi sjálfu, að allir þingmenn í utanrmn., og væntanlega allir þingmenn, voru sammála um að það yrði að vera rækilegur fyrirvari um að við hygðumst aldrei afsala okkur fullveldisrétti yfir orkulindum okkar fremur en fiskimiðum. Og í ljósi þess vilja Alþingis eru ekki athugasemdir gerðar við að undirskrifa þennan sáttmála sem er í rauninni ekki annað en viljayfirlýsing enn þá og verður ekki annað fyrr en eftir hálft eða eitt ár eða lengri tíma þannig að það mál er þá örugglega á hreinu og enginn getur haldið því fram að við höfum ekki gert alla nauðsynlega fyrirvara um fullveldi okkar og eignarrétt.
    Það fer auðvitað ekki á milli mála að þetta eru mikil tíðindi þegar Evrópubandalagið hefur klúðrað málum eins og hæstv. utanrrh. réttilega segir og kollega hans í Danmörku, Uffe Elleman, kallar hneyksli. Ég held að mér ætti að vera óhætt að taka mér þau orð í munn úr því að þeir gera það. Ég hef ekki þorað að segja þetta síðasta hálfa árið eða svo. Ég hef þó margsinnis bent á að það væri enginn samningur gerður og þetta væru ekki annað en drög og þau léleg í flestu tilliti. Það kom mér þess vegna ekkert á óvart að þetta klúður yrði opinbert. En það liggur sem sagt fyrir að þarna var um klúður að ræða og við hljótum auðvitað að gæta okkar í samskiptum við þá menn sem klúðra öllum hlutum sem geta varðað okkur lífið sjálft, líf þessarar þjóðar, og einnig það gera menn nú. Og ég er mjög þakklátur hæstv. utanrrh. einmitt fyrir að þora að segja hlutina, nefna þá réttum orðum og yfirleitt það sem hann sagði hér í sinni ræðu. Ég treysti honum eins og öðrum Íslendingum að standa á verði og við getum vel gert það. Við getum tryggt hagsmuni okkar og það eru engir aðrir sem geta tekið þá af okkur.
    Við eigum t.d. miklu stærra svæði af yfirborði jarðar heldur en Evrópubandalagssvæðið allt saman er. Við höfum fjallað um það og við höfum undirbúið okkur vel með þessari bók, t.d. sem Evrópustefnunefnd gaf út og ég leyfi mér nú að auglýsa í jólabókaflóðinu. Hún kom út fyrir ári síðan en þetta er bók sem allir Íslendingar þyrftu helst að kynna sér. Hér er grundvöllurinn lagður af Evrópustefnunefnd sem var nefnd alþingismanna og á þessum grunni höfum við byggt. Við höfum raunar líka byggt okkar landhelgisbaráttu og þar með fullveldisbaráttu á gömlum merkum lögum frá 1922 og allt til þessa dags hefur það verið grundvöllurinn og við þurfum að gæta að okkur að hvika ekkert frá þeim grunni sem lagður hefur verið af feðrum okkar og mæðrum að sjálfsögðu.
    Ég er ekki svo hræddur við það þó að við þurfum að fara í tvíhliða viðræður. Ég held að það geti verið af hinu góða og ég held að ég meti það rétt. Ég hef farið í þó nokkrar ferðir ýmist sem formaður Evrópustefnunefndar eða utanrmn. í heimsóknir til þessa ágæta fólks í Brussel eða öðrum stöðvum Evrópubandalagsins og það er enginn vafi í mínum huga að þetta fólk vill að við séum Evrópumenn og við fáum að vera það. Við viljum það sjálfir. Ég hef oft þegar ég hef þurft að flytja ávarp á einhverjum smásamkomum eða á fundum byrjað á að segja: Við erum Íslendingar og viljum vera Íslendingar og ráða okkar Íslandi og því sem hafréttarsáttmálinn og alþjóðalög tryggja okkur, þ.e. allt umhverfið, ekki bara 200 mílur heldur 350 á Reykjaneshrygg og með samvinnu við Breta 600 mílur suður í höfum. Þetta er allt á borðinu. Við höfum ekki sinnt því nægilega vel að koma þessu heim en það er allt saman á borðinu og engin fiskimið hér sem neinir aðrir mega nýta en við sjálfir, hvergi í okkar nágrenni. Það þarf þess vegna ekki að vera að tala um neina möguleika á því að gera við og þjónusta einhvern flota sem er að veiða hérna fyrir utan, flota sem ekki er íslenskur. Hann er auðvitað allur íslenskur og verður það bara hvenær sem við viljum framkvæma það. Þetta er okkar eign.
    En að því er varðar Evrópubandalagið og Evrópskt efnahagssvæði þá langar mig að vitna hér aðeins í ummæli Hennings Christophersens, varaforseta framkvæmdastjórnar EB, sem hann viðhafði 18. sept. 1990 þegar Evrópustefnunefnd var á fundi hjá þessum heiðursmönnum. Hann sagði t.d.: ,,Vissulega hafa Íslendingar opnað markaði sína fyrir iðnvarning frá EB og án þess að fá fríverslun með fisk og fiskafurðir. Jafnvægi þarf að nást á þessu sviði.``
    Þetta er af minnisblaði frá þessum fundi sem við öll úr nefndinni vorum á. Þá kvaðst Christophersen telja að spurningar um fisk og fiskveiðiréttindi yrðu ekki þær erfiðustu í EES-viðræðum.
    Spurt var um álit á ummælum Mitterands í Reykjavík sem hann hafði viðhaft nokkrum dögum á undan. Þetta eru ummæli sem Íslendingar allir þekkja, að það ætti að taka sérstakt tillit til hagsmuna Íslendinga, sérstaklega að því er varðar fiskveiðiréttindi, mjög vinsamleg ummæli. Christophersen kvaðst þekkja ummælin og telja að Mitterand hefði átt við að hann legði til að við Íslendingar tækjum upp tvíhliða viðræður við EB en ekki að þær komi í stað EES-samningaviðræðna, þ.e. hvort tveggja í senn eins og við höfum verið að gera og ég held að allir flokkar hafi meira og minna ályktað um, einmitt í sambandi við útgáfu þessarar bókar, að aðild að Evrópubandalaginu kæmi ekki til greina, væri ekki á dagskrá og ég vona að allir séu sammála um það, mér heyrist það. En hitt er annað mál að gjarnan má taka upp tvíhliða viðræður samhliða einhverjum viðræðum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég held að það væri mjög hyggilegt. Ég held að við höfum ekki misstigið okkur eitt eða neitt í þessu efni og munum sjálfsagt ekki fara að taka upp á því úr þessu.
    Og síðan leggur Christophersen mikla áherslu á það að í Evrópubandalaginu sé það eitthvað sem á að koma fyrir eitthvað, ekki fiskveiðar í staðinn fyrir markað endilega, en það sé hægt að semja um alla slíka hluti.
    Hann sagði t.d. líka, þegar spurt var um fríverslun með fisk og fiskafurðir gegn veiðiheimildum og um styrki í sjávarútvegi, að nauðsynlegt væri að komast út úr þeim þrönga farvegi sem þessi umræða væri komin í. Framkvæmdastjórum væri nauðsynlegt að geta gefið svör við gagnrýni heima fyrir og það væri gott að geta bent á að í staðinn fyrir fríverslun með fisk hefði náðst aðgangur að mörkuðum.
    Hann er sem sagt að ráðleggja okkur þarna, bæði á þessum formlega fundi og eins á eftir í fullkominni vináttu og það fór ekkert á milli mála að við eigum stuðning í þessum ríkjum og hann mjög mikinn. Það er þess vegna ánægjulegt að mér virðist að flestir eða allir hér í þessum sal séu sammála því að taka upp tvíhliða viðræður fljótlega eða undirbúa þær. Við þurfum ekkert endilega að loka fyrir að ræða áfram um Evrópskt efnahagssvæði. Það getur enginn sakað okkur um það sem hér hefur gerst. Það getur enginn haldið því fram núna að við höfum verið að reyna að splundra einhverju, jafnvel ekki ég, eða eyðileggja eitthvað fyrir samningaviðræðum, síður en svo. Við höfum haldið öllum

samningum gangandi og óskað eftir að okkar rétti og okkar kröfu væri fullnægt sem ekki hefur verið gert. En það eru þeir sjálfir sem hafa klúðrað þessu að samanber orðalag utanríkisráðherra okkar og að þetta hafi verið hneyksli samanber orðalag danska utanríkisráðherrans.
    Ég held að við getum verið ánægð með það sem hefur gerst og við skulum auðvitað vera vel á varðbergi en við fylgjum okkar rétti til hins ýtrasta. Það erum við öll sem erum sammála um og gerum það bara með hægðinni. Við höfum allt að vinna og engu að tapa ef við höldum rétt á málunum.