Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 17:20:00 (2204)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Frú forseti. Ég ætlaði að nota þann takmarkaða tíma sem ég hef hér í pontunni til að ræða um það mál sem hér er til umfjöllunar, þ.e. skipbrotið í EES, við hæstv. utanrrh. en eins og þingheimur varð vitni að í upphafi umræðunnar átti sér stað svolítill pólitískur sjónleikur um afstöðu Kvennalistans í þessu máli og ég er að hugsa um að ganga frá því verki áður en ég tala við hæstv. utanrrh.
    Það var hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson sem var sem sagt höfundur þessa sjónleiks og aðalleikari og ég verð að segja að ég fékk ekki betur séð en þessi hv. þm. væri illa sligaður af stalínískum arfi síns flokks í því sem hann sagði hér áðan. Hv. þm. sagði: Það kom á óvart --- ég man ekki hvort hann tiltók mig sérstaklega --- að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eða Kvennalistinn væri að gæla við þá hugmynd að Ísland eigi heima í evrópska stórríkinu. Og hann vitnaði í Morgunblaðið í dag sér til fulltingis og taldi sig hafa lesið það út úr orðum mínum þar. Þessi hv. ræðumaður sagði hér í umræðunni fyrr í dag að menn yrðu að þekkja sinn gagnaðila og beindi þeim orðum til hæstv. utanrrh. Ég verð að segja við þennan ágæta þingmann að menn verða líka að sjá skóginn fyrir trjám. Það er afskaplega mikilvægt.
    Ég minnist hér á hinn stalíníska arf og ég ætla að halda mig við þá samlíkingu vegna þess að það hefur löngum viljað brenna við stalínismann að hann nærist á svikurum eins og púkinn á fjósbitanum nærist á blótsyrðum. Og mér fannst nú eins og hv. þm. fyndist hann hafa sett í feitt með tilvitnun í þessi blöð í dag. En ég verð að hryggja hann með því að það er ekki mjög feitan gölt að flá þar sem ég er annars vegar.
    Þessi stalíníski arfur birtist gjarnan í því að menn fara að velta því fyrir sér hvern fjandann það fólk sé að læðast sem fer ekki eftir þröngri línu sem því er uppálögð. Slíkt fólk er auðvitað til alls líklegt og því miður er það svo að stalínistar þola ekkert verr en að atburðir, talsmáti og tilfinningar fái eðlilega framrás. Það var ósköp einfaldlega það sem átti sér stað í þessu viðtali Morgunblaðsins og viðtali útvarpsins við mig að mínar hugsanir fengu bara eðlilega framrás og þetta er eins og maður segir gjarnan ,,non issue`` því það er ekkert nýtt í þessu. Ég ætla að leyfa mönnum að heyra hvernig þetta hljómar og þá geta þeir lagt sjálfir mat á það hvað í orðanna hljóðan felst. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær er ég spurð að því hvor kosturinn mér þætti betri ef við ættum aðeins tveggja kosta völ, þ.e. aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða að ganga í EB og þá segi ég, með leyfi forseta: ,,Mér finnst náttúrlega hvorugur þessara kosta góður en mér finnst í rauninni Evrópska efnahagssvæðið vera bara hálfgert skipulagslegt skrímsli og af tveimur vondum kostum kysi ég frekar inngöngu í EB, en þó verð ég auðvitað að gera þann fyrirvara að sjávarútvegsstefna bandalagsins er okkur mjög erfið. En eins og ég segi, ef ég stæði bara andspænis þessum tveimur vondu kostum. Ég hef alltaf viljað og við kvennalistakonur reyna að fara leið tvíhliða samninga og teljum að það væri heppilegast fyrir okkur.``
    Nú í Morgunblaðinu í dag segir, með leyfi forseta:

    ,,Aðspurð sagði hún það sína skoðun að af tvennu illu væri skárra að vera í EB en EES ef undan væri skilin sjávarútvegsstefna bandalagsins. Það væri nánast vonlaust að koma einhverjum lýðræðislegum böndum á Evrópska efnahagssvæðið. Það tryggði mjög takmarkað áhrifavald þjóðkjörinna fulltrúa og möguleikarnar til að hafa áhrif á lagasetningu væru að auki mjög takmarkaðir. Hún vildi hins vegar taka skýrt fram að hún teldi þriðju leiðina vænlegasta fyrir Íslendinga, það væri leið tvíhliða samninga við EB.``     Þess vegna verð ég nú að segja að þessi uppákoma hv. þm. hér í pontunni áðan er afskaplega sérkennileg ef eftir orðanna hljóðan er farið og eins og ég segi, þarna finnst mér að sé afturgenginn mjög erfiður arfur.
    En ég ætlaði í sjálfu sér ekki að eyða öllum tíma mínum í þetta mál. Ég ætlaði að eiga orðastað við hæstv. utanrrh. og það sem hefur kannski komið mér mest á óvart í allri þessari umræðu --- því að í sjálfu sér kom niðurstaða dómstólsins mér ekki á óvart --- var að sjá hversu fimlega hæstv. utanrrh. er búinn að tileinka sér tilburði kattarins og reynir, eins og hann, ævinlega að koma niður á fótunum þó að með herkjum og erfiðismunum sé. Hann hefur útlistað þetta mál þannig og það hefur verið hans pólitíska analýsa á þessu máli að þarna sé um innra vandamál Evrópubandalagsins sjálfs að ræða og þeir í Evrópubandalaginu eigi bara að leysa það sjálfir og hann sagði meira að segja hér í dag: ,,þeir gætu í sjálfu sér gert það með einföldum hætti. Þeir eiga þess kost með því að breyta Rómarsáttmálanum.`` Auðvitað er þetta mál ekki svona einfalt. Bæði tekur það langan tíma að gera þessa breytingu og þar fyrir utan er þetta ekki bara innra vandamál Evrópubandalagsins vegna þess að þessi niðurstaða dómstólsins hefur veruleg áhrif á EFTA. Hún hefur veruleg áhrif á stöðu EFTA og á stöðu þeirra aðila sem hafa verið að semja um þessi mál innan EFTA, á pólitíska stöðu þeirra í sínum heimalöndum þannig að þetta er ekki einfalt og þetta er ekki bara innra vandamál Evrópubandalagsins sjálfs. Ég er hrædd um að þetta sé vandamál þeirra manna sem hafa verið að semja um þetta við Evrópubandalagið.
    Önnur söguleg eða pólitísk analýsa er á þá leið að þetta sanni það náttúrlega fyrir öllum mönnum að samningurinn hafi verið of góður fyrir EFTA og ríkin haldi fullveldi sínu. Það sé náttúrlega niðurstaða dómstólsins. En það er náttúrlega líka afskaplega einföld útskýring vegna þess að vandamálið er í hnotskurn að það átti að reyna að gefa Evrópska efnahagssvæðinu sjálfstætt líf. Og það öðlast ekki sjálfstætt líf nema það sé ákveðið líf gefið í það, bæði frá EB og frá EFTA-hlið, það sé ákveðið valdaframsal sem eigi sér stað bæði frá þessum sjö þjóðríkjum EFTA og frá Evrópubandalaginu. Það er m.a. það framsal sem dómstóllinn er í rauninni að mótmæla og hæstv. utanrrh. sagði hér, þegar hann svaraði spurningunum áðan, að það væri rétt að bíða átekta, kannski kæmi út úr þessu einhver pólitísk lausn sem væri m.a. sú að draga úr vægi dómstólsins og EES-nefndin fengi eitthvert úrskurðarvald í stað dómstólsins. Ég er hrædd um að þetta sé ekki svona einfalt vegna þess að það kom m.a. fram á fundi sem við sátum hér fjórir þingmenn á mánudaginn var með þingmönnum frá Evrópubandalaginu að menn höfðu miklar efasemdir um þingmannanefnd EES og höfðu miklar efasemdir við 106. gr. samningsins þar sem kveðið er á um þingmannanefndina og þeir höfðu líka miklar efasemdir um þessa EES-nefnd. Það hafði m.a. laganefnd Evrópubandalagsins og það var samdóma álit hennar að þar orkaði ýmislegt tvímælis.
    Það sem hefur aðeins stungið mig líka í þessari umræðu er þegar hæstv. utanrrh. er svona hálft í hvoru að hæðast að því sem hann kallar hið heilaga sjálfstæði Evrópubandalagsins. Ég vildi sannarlega að hæstv. utanrrh. tæki okkar sjálfstæði kannski svolítið alvarlegar heldur en hann gerir. Ég er nú ekki gömul hér á þingi og hef fylgst með því hvernig lagasetning á sér stað hér á Alþingi og finnst það svolítið sérkennilegt þegar menn

eru að semja lagatexta á hlaupum. Mér finnst að hæstv. utanrrh. sé kannski orðinn dálítið merktur af --- þú fyrirgefur, forseti --- lagasukkinu á Alþingi þegar hann segir svona hluti. Því að mér finnst hann ekki taka þessa hluti mjög alvarlega, sjálfstæði, fullveldi og dómstólinn.
    Hæstv. utanrrh. svaraði því áðan að hann væri ekki tilbúinn til þess að undirbúa tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um framtíðarsamskipti Íslands við bandalagið. Hann er enn við það heygarðshorn að Evrópskt efnahagssvæði væri best, þetta væri langtímasamningur. Þá verð ég að segja það sem mína skoðun að ég er alveg sannfærð um það að Evrópska efnahagssvæðið getur ekki verið langtímasamningur. Það er alveg ljóst að þessi ríki sem við erum með í EFTA stefna flest inn í Evrópubandalagið. Það kom skýrt fram í máli þeirra þingmanna sem sátu fundinn sl. mánudag að þeir sögðu: Það er ýmislegt í samningnum sem við höfum við að athuga, það er ýmislegt sem við erum ekki sáttir við, en það skiptir ekki máli, við ætlum ekki að lifa við þetta.
    Þannig er alveg ljóst að hagsmunir eru að mörgu leyti afskaplega ólíkir milli þeirra EFTA-þjóða sem eru að semja sig inn í Evrópubandalagið og milli þeirra EFTA-þjóða sem ætla að standa utan þess. Hagsmunirnir fara ekki saman og því get ég ekki ímyndað mér annað en að leiðir skilji milli þeirra EFTA-ríkja sem stefna inn í Evrópubandalagið og hinna sem ætla að standa utan við það og ég held að það væri vænlegast eins og mál standa núna.