Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 17:27:00 (2205)

     Guðrún Helgadóttir :
     Frú forseti. Ég skal reyna að stytta mjög mál mitt svo ég taki nú ekki lokaorð af hv. fyrsta fyrspyrjanda í þessu máli. Ég vil þakka fyrir að hafa fengið þessa umræðu og þakka hv. 4. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni, fyrir að efna til hennar.
    Ég hef engu við hans orð að bæta, hvorki flokkslega né skoðanalega séð, og þess vegna mun ég ekki eyða tíma í það. Ég ætla að ræða um form og það er engin tilviljun vegna þess að ég á sæti í EFTA-nefnd þingsins og þar ræða menn bara um form, einungis um form. Þar ræða menn nefnilega aldrei um innihald samningsins. Þeir tveir fundir sem ég hef setið hafa fjallað um ósköp einfalt mál sem virðist geta orðið afar flókið, þ.e. hvernig sú nefnd eigi að vera skipuð sem á að vera tengiliður Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna.
    Það kom mér vitaskuld mjög á óvart þegar ég fór að sitja þessa fundi hversu lítið hafði borist inn í þingið frá þessu starfi. Um langt skeið eða allt síðasta kjörtímabil starfaði Evrópustefnunefnd sem gaf út þá merku bók sem hv. 4. þm. Reykv. minntist áðan á og ég ætla aðeins að lesa einn lítinn kafla úr á eftir. Evrópustefnunefnd vann ötullega. Á sama tíma voru tveir hv. þm. í eilífum ferðalögum suður í Evrópu, án þess að nokkur vissi eiginlega hvað þeir voru að gera og allra síst að mér skilst Evrópustefnunefndin. Þannig að sambandsleysið er mjög sérkennilegt.
    Auðvitað er ekkert hægt að segja: Þetta er innra vandamál Evrópubandalagsins. Menn hafa einfaldlega ekki stundað heimanámið sitt. Það er ekkert nýtt að menn hafi haft efasemdir um að svona gæti farið, grun um að þetta gengi ekki upp. Hér í umræddri bók, sem hv. 4. þm. Reykv. var að sýna okkur áðan, stendur á bls. 217 --- og hún kom út á síðasta ári, minnir mig, bara nokkuð snemma. ( Gripið fram í: Desember í fyrra.) Já, desember í fyrra, það er a.m.k. heilt ár síðan. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta, í kafla sem heitir Réttarreglur og stofnanir:
    ,,Framkvæmdastjórnin hefur gert EFTA-ríkjunum það ljóst að þessi hugmynd gerði atriði vafasöm varðandi stofnanalegt fyrirkomulag bandalagsins og sjálfstæði þess til ákvarðanatöku vafasamt og fæli í sér breytingu frá Rómarsáttmálanum. Þetta yrði þar af leiðandi óviðunandi fyrir framkvæmdastjórnina.``
    Ég held að þetta geti ekki skýrara verið. Þegar suður í Evrópu er komið --- þvert ofan í það sem hér hefur margsinnis verið stagast á, að um sé að ræða einhver skipti á jöfnu --- þá dettur engum í hug að leyna því að allar ákvarðanir Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna, þ.e. svokallaðrar Joint Committee --- sem nú á í framtíðinni bara að heita nefndin --- allar ákvarðanir verða á forsendum EB. Þetta reynir enginn að breiða yfir. Það er alveg ljóst að EFTA-ríkin og EFTA-nefndirnar eru svona eins konar svona ráðgefandi aðilar, geta komið með ábendingar, en þegar kemur að ákvarðanatöku skipta þær engu máli.
    Ég verð í þessum töluðum orðum að undrast það stórlega að hv. 5. þm. Norðurl. v. Vilhjálmur Egilsson skuli ekki vera í salnum. Hann er núna forseti EFTA-nefndarinnar, þ.e. allra ríkjanna. Ég vil taka fram að hann gerir það með miklum sóma og við höfum verið mjög hreykin af hans frammistöðu hvað sem líður skoðanaágreiningi. En að hann skuli ekki sitja undir þessari umræðu er náttúrlega alveg óskiljanlegt. Nú, ég nenni ekki að minnast enn einu sinni á þingmenn Sjálfstfl., þeir eru aldrei hér og það er ekkert við því að gera. En fyrir Vilhjálms hönd munum við Ingibjörg Sólrún reyna að halda uppi rykti nefndarinnar.
    Auðvitað væri hægt að segja marga hluti frá þeim fundum sem við sátum um daginn. Og af því að menn minntust á Sovétríkin og stalíníska arfinn sé ég ekki betur en þegar eitt slíkt ríki losnar í sundur sé nýtt að myndast, því að kommissararnir --- ég veit ekki hvernig þeir voru í Sovétríkjunum, ég hef aldrei komið þangað --- leggja á borðið hjá okkur drög að fundargerð fyrir fundina sem við eigum eftir að halda þá reikar nú hugurinn austur í Sovét eða fyrrverandi Sovét. Þannig að ég sé ekki annað en að vinnubrögðin séu þar dálítið kommissaraleg og skipti litlu hvaða skoðanir menn hafa á hlutunum.
    Nú er ég, frú forseti, orðin dauðhrædd um að ég sé að taka orðið endanlega af hv. 4. þm. Austurl. Ég get svo sem hætt hvenær sem er en ég ætlaði bara að segja að það leynir því enginn að þarna er ekki um að ræða skipti á jöfnu, það leynir því enginn að það skammast sín allir svolítið af því að menn unnu ekki heimavinnuna sína, hvorki EES né Evrópubandalagið. Við höfum sendiráð með fimm starfsmönnum suður í Genf --- ég veit ekki nema það hefði kannski mátt líta svolítið betur í pappírana --- og við höfum marga vitra menn í utanríkismálum. Auðvitað er þetta hneyksli, það er alveg rétt hjá Henning Christophersen eða hvaða hæstv. ráðherra sem sagði það.
    Og að lokum, frú forseti, Salolainen, utanríkisviðskiptamálaráðherra Finnlands og núverandi forseti EFTA-ráðherraráðsins, hvað þetta heitir nú, maður les þetta náttúrlega alltaf á ensku, sagði á hverjum fundinum eftir annan: Ef ekki verður undirritaður samningur nú fyrir jólin eða í byrjun janúar þá verður enginn samningur. Og ég held að við eigum að fara að snúa okkur að því að horfast í augu við að það verður enginn samningur. Menn ættu að snúa sér að því að fara að huga að tvíhliða viðræðum sem allra fyrst og ekki eyða tímanum í drauminn um EES.