Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 17:36:00 (2207)

     Björn Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns andmæla því sem fram kom í ræðu hv. 14. þm. Reykv. að þingmenn Sjálfstfl. væru lítið í þingsalnum eða sinntu þingstörfum með ámælisverðum hætti. Ég tel að þessi ummæli eigi ekki við rök að styðjast.
    Varðandi það mál sem er til umræðu vil ég þakka þær umræður sem hafa farið fram. Það var fullt tilefni til þess að taka nokkurn tíma í það að ræða um stöðuna varðandi Evrópska efnahagssvæðið miðað við það sem gerðist þegar Evrópudómstóllinn svaraði framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins og lét í ljós álit sitt á þeim atriðum sem framkvæmdastjórnin hafði beint til dómstólsins og þessir aðilar höfðu fjallað um.
    Það var alveg hárrétt sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar að um þetta mál má segja hið sama og ef upp kæmi deila innan lands um það hvort samningurinn væri í andstöðu við íslensku stjórnarskrána að það yrði spurning um gildi hans. Ef slík deila kæmi upp hér á landi, sem ég tel að sé óþörf, ég tel að það hafi þegar verið fjallað um það með þeim hætti að rök hnígi að því að samningurinn í sjálfu sér standist ekki á við íslensku stjórnarskrána, en ef um það væri deilt væri það ljóst að þar væri um innra vandamál okkar að ræða sem við yrðum að leysa úr og greiða úr með þeim hætti sem við teldum skynsamlegastan. Það er einmitt þetta sem blasir við Evrópubandalaginu eftir að þessi niðurstaða dómstólsins liggur fyrir að fyrst verður að taka ákvörðun um það innan bandalagsins hvernig úr málinu eigi að leysa.
    Í máli hæstv. utanrrh. kom fram að ráðherraráð Evrópubandalagsins hefur ákveðið að gefa sér tíma fram í febrúar til þess að fjalla um málið og taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til þess að Evrópska efnahagssvæðið komi til framkvæmda og það hefur jafnframt látið orð falla um að það komi til sögunnar 1. janúar 1993. Það er alls ekki í fyrsta sinn nú sem menn standa frammi fyrir spurningunni um það hvort EES-skútan hafi strandað, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson komst að orði, og hann velti fyrir sér að kannski hefði skútan núna strandað fyrir fullt og allt. Menn hafa oft í þessum ræðustóli fjallað um það að nú væri komið að endalokum í þessu máli og að tímabært væri fyrir Íslendinga að horfa á málið með öðrum augum og taka það öðrum tökum en gert hefur verið þar sem samningar tækjust hvort eð er ekki og málið kæmist aldrei á lokapunkt. Ég minnist þess að í sumar í lok júlí og byrjun ágúst gáfu margir hv. þm. yfirlýsingar þess efnis að þessu öllu væri lokið varðandi EES og nauðsynlegt fyrir Íslendinga að huga að nýjum leiðum og taka upp tvíhliða viðræður eins og menn segja nú. Munurinn er hins vegar sá núna að það liggur fyrir samningur sem var vísað til Evrópudómstólsins og Evrópudómstóllinn tók þessa afstöðu til þeirra þátta samningsins sem snerta dómstólakerfið og lögfræðilegu hliðina og snertir úrskurðaraðilana sem koma til sögunnar til þess að dæma um gildi athafna í samræmi við samninginn. Það sem á strandar er það, eins og fram hefur komið hér í umræðunum, að dómstóllinn leggur áherslu á það að hann eigi að fjalla um þau lög sem snerta Evrópubandalagið og þar eigi að gilda ein lög. Vandinn er nefnilega

sá, eins og dómstóllinn bendir á í hinu langa svari til framkvæmdastjórnarinnar, að erfitt er fyrir dómstólinn að átta sig á EES-samningnum nema hann meti það svo að hugsanlega kunni einstök aðildarríki Evrópubandalagsins að skuldbinda sig samkvæmt samningnum til þess að lúta öðrum lögum en hinum einu evrópsku lögum sem Evrópubandalagið hefur sett sér. Um það snýst vandinn m.a. að dómstóllinn veltir því fyrir sér hvort að þessi eina heild bandalagsins hafi verið rofin með EES-samkomulaginu. Þetta er því alfarið innra vandamál bandalagsins, því getur enginn á móti mælt, sams konar vandamál og kæmi upp hér hjá okkur ef niðurstaðan væri sú að samningurinn bryti í bága við íslensku stjórnarskrána sem ég tel að vísu ekki vera. Ég tel að það vandamál komi ekki upp og ég tel raunar að í tíð fyrrv. ríkisstjórnar hafi verið um þetta mál fjallað og á það hefur verið drepið í skýrslum sem utanrrh. lagði fram þegar hann gegndi ráðherrastörfum í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Ljóst er að íslensk stjórnvöld hafa fjallað um þessa spurningu varðandi íslensku stjórnarskrána og gildi þessa samnings og tekið til hennar afstöðu.
    Hvað bandalagið gerir er óvíst. Það ætlar sér að koma með niðurstöðu innan ákveðins frests. Það kann að geta leyst þetta mál sjálft heima fyrir, það kann að þurfa að taka upp málið í viðræðum við EFTA-ríkin á einhverjum þröngum forsendum. Hins vegar telja þeir svartsýnustu að málið kunni að vera úr sögunni með þessu. En ég lít ekki þannig á, ég lít þannig á að það eigi að skoða þetta eins og önnur vandræði sem upp hafa komið á hinu langa samningaferli, að greiða þurfi úr því og finna á því lausn og ég tel tvímælalaust að unnt sé að finna á þessu lausn ef menn vilja gera það á annað borð.
    Vegna þeirra umræðna sem fram hafa farið út af ummælum hv. 10. þm. Reykv. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, um það hverju það breytti ef það yrði niðurstaðan að með þessu áliti Evrópudómstólsins yrði allur samningurinn úr sögunni og við stæðum uppi samningslaus, þá er ég henni sammála um það að takist þessi samningur ekki eða nái hann ekki fram, réttara sagt, að þá muni þrýstingur á það að við gerumst aðilar að Evrópubandalaginu aukast. Ég tel að það sé alveg hárrétt mat hjá hv. þm. að samningurinn dregur úr þrýstingi á það að við gerumst aðilar að Evrópubandalaginu. Spurningin hefur komið upp oft í umræðum í þingi og menn hafa velt henni fyrir sér og ég held að það sé samdóma niðurstaða að með því að gera samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sé komið til móts við þau sjónarmið sem byggja á því að við þurfum að tengjast þessari þróun í Evrópu og að við gerum það náttúrlega með afdrifaríkustum hætti með aðild að Evrópubandalaginu en hér sé millistig sem víðtæk samstaða geti tekist um. Þannig að mér finnst að það sé ástæðulaust á þessu stigi málsins að líta þannig á að þetta samstarf sé úr sögunni og þess vegna ótímabært að huga að tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið. Það er mikils virði að halda þeirri góðu niðurstöðu sem fékkst efnislega í samningunum fyrir okkur Íslendinga og ég tel að við eigum ekki að hverfa frá henni eða hverfa frá vilja okkar til þess að framfylgja því sem við höfum þegar samið um fyrr en í fulla hnefana. Enn á eftir að reyna á það hvernig á þessu máli verður tekið innan Evrópubandalagsins, og eins og hæstv. utanrrh. hefur bent á er hér fyrst og fremst um innra vandamál bandalagsins að ræða.