Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 17:52:00 (2209)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Frú forseti. Ég hefði bara þurft að nýta mér rétt til andsvara en þar sem hann er ekki í þessari umræðu, ef ég veit rétt, þá kaus ég að taka svolítið af þeim tíma sem mér skilst að við eigum eftir til þess að árétta tvo hluti.
    Í fyrsta lagi kom hér upp hv. þm. Björn Bjarnason og sagðist vera sammála því pólitíska mati mínu að ef ekki yrði af samningi um Evrópskt efnahagssvæði þá myndi þrýstingurinn aukast á inngöngu í Evrópubandalagið. Með öðrum orðum: Samningurinn drægi úr þrýstingi á það að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópubandalaginu.
    Mín skoðun er sú --- og ég hef sett hana fram og er væntanlega það sem Björn er að vitna til --- er að ég tel að Evrópska efnahagssvæðið fresti þessum þrýstingi. Það tappar svona því mesta af honum og svo verður restin tekin á tveimur, þremur árum. Það sem er að gerast er að verið er að fara bakdyraleiðina í stað þess að fara beint inn um aðaldyrnar. Það sem mér finnst eðlilegt er að taka þennan slag strax um það hvort menn stefna inn í Evrópubandalagið eða hvort þeir stefna að því að standa utan við það með gerð tvíhliða samnings.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson taldi mig hafa tekið óstinnt upp ummæli hans áðan og ég gerði það vegna þess að samkvæmt orðanna hljóðan sagði hann: Hvernig stendur á því að þingmaðurinn er að gæla við inngöngu í stórríkið Evrópu? Og hann gat ekki fundið því stað í mínum ummælum (HG: Það sagði ég ekki.) Jú, við getum bara séð það þegar útskrift kemur af ræðu þinni. Hann sagði að hann hefði talið eðlilegt að ég gæfi svar við því hér hvernig á því stæði að EB gæti verið umræðuverður kostur. Þannig er mál með vexti, hv. þm., að ég var að því spurð, ef ég stæði andspænis þessum tveimur kostum hvorn ég veldi. Og ég segi: Þeir eru báðir vondir. Ég hefði auðvitað getað farið í kringum þessa spurningu eins og köttur í kringum heitan graut, það er náttúrlega pólitíkusa háttur, en ég sá ekki ástæðu til þess og svaraði henni. Og svarið ber að skilja samkvæmt orðanna hljóðan.