Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 17:54:00 (2210)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Þessi umræða gefur tilefni til að staldra stuttlega við tvennt. Annars vegar þær umvandanir hv. 10. þm. Reykv. að sá sem hér stendur taki að hennar mati fullveldi og sjálfstæði ekki nógu alvarlega. Hins vegar þær athugasemdir hv. 7. þm. Reykn., fram bornar af góðum hug, um það að menn megi ekki fyllast svartsýni heldur hafa í huga tækifæri og vaxtarmöguleika þjóðar okkar þótt eitthvað blási í móti.
    Fullveldishugtakið hefur oft og iðulega verið dregið inn í þessa umræðu og þar hafa verið mörg stór orð látin falla um framsal fullveldis, um framsal á löggjafarvaldi, um framsal á framkvæmdarvaldi og framsal á dómsvaldi. Gamla sagan, gamla þulan um landsölu þegar kemur að samningum á jafnréttisgrundvelli við erlenda aðila. Ef slíkt mál er rætt við lögfræðinga þá ræða þeir gjarnan form, það er þeirra fræði, form fullveldis. Þeir mundu setja á ræðu um fullveldishugtak 19. aldar, um þá staðreynd að í vaxandi mæli eru ríki háð hvert öðru, hafa aukið með sér samstarf og alþjóðlegar skuldbindingar fela í sér að hluta til einhverja takmörkun á fullveldi en þá jafnframt rýmkun þess að sumu leyti vegna aukinna réttinda í staðinn. Þetta er svona hið lögfræðilega form.
    Í mínum huga er fullveldishugtakið og umræðan um fullveldishugtakið takmörkuð ef hún er bara við hið lögfræðilega form, ég tala ekki um ef hún er bara svona steinn í hleðslu pólitískrar síbylju fordómafullrar umræðu um landsölu í hvert skipti sem rætt er um samskipti við útlendinga. Ég held að þetta tvennt fari nokkuð saman, spurningin um raunsætt mat á möguleikum þjóðarinnar, raunsætt mat á því hversu traust fullveldi okkar er í reynd og svo hins vegar spurningin um þessa samninga. Ef ég tæki alvarlega ábendingar hv. 7. þm. Reykn. um það að missa ekki sjónar á tækifærunum, auka ekki á svartsýnina, reyna að ýta undir bjartsýni og framfarahug að fornum og þjóðlegum sið, þá tek ég undir það að svo fremi að þetta sé á raunsæi byggt þá mundi það styrkja fullveldi okkar. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að þrátt fyrir þau áföll sem við höfum vissulega orðið fyrir --- og það er reginmunur á því að segja: þú ert fullur af svartsýni eða að segja: þú hefur vissulega tíundað staðreyndir um versnandi ytri kringumstæður. Þetta tvennt er ólíkt. Við höfum orðið fyrir áföllum. Á tiltölulega mjög skömmum tíma. Til viðbótar við fjögurra ára stöðnunartímabil og reyndar hnignunartímabil blasir það nú við fram í tímann að sjá að afrakstursgeta fiskstofna fer minnkandi að mati fræðimanna. Það er vitað að þær vonir sem við bundum við nýtingu annarrar meginauðlindar okkar, orkunnar, þeim áformum hefur verið frestað. Það er vitað að mati Þjóðhagsstofnunar að frestun þeirra áforma þýðir minni þjóðarframleiðslu, minni þjóðartekjur á mann, lægra atvinnustig. Í því felst m.a. hætta á auknu atvinnuleysi.
    Við vitum líka að ef þessir samningar, sem við erum hér að gera að umtalsefni, færu forgörðum hefði íslenska þjóðin einmitt núna strax misst af verulegum tækifærum sem ekkert fer á milli mála að samningurinn býður upp á. Samningurinn býður nefnilega upp á tækifæri til þess að gera meiri verðmæti úr minnkandi afla á sjávarútvegssviðinu, samningurinn býður upp á tækifæri til frekari fullvinnslu á okkar sjávarafla. Það þýðir fjölgun atvinnutækifæra, fjölgun starfa. Samningurinn býður upp á svo margvísleg tækifæri, ekki bara í sjávarútvegi heldur einnig á sviði fjármagnsmarkaðar og þjónustu, að það er ekki nokkur vafi á því að hann mundi renna sterkari stoðum undir fullveldi íslensku þjóðarinnar í reynd. En ég er einn af þeim sem í fúlustu alvöru og að mínu mati af raunsæi er farinn að hafa af því áhyggjur að fullveldið íslenska sé orðið skuggalega djúpt sokkið í skuldir og skuggalega mikið veðsett erlendum lánardrottnum. Sá maður sem lítur á það mál eingöngu út frá formsatriðum lögfræðingsins hefur ekki fjallað um það með viðhlítandi hætti. Og sá sem segir: Palli er einn í heiminum, eða: við getum nú samt sem áður bara unnið okkur út úr þessu --- hann er ekki raunsær. En ef saman fer að samningur af þessu tagi gerir hvort tveggja, að bjóða þjóðinni einmitt í tæka tíð tækifæri til þess að nýta betur auðlindir sínar, til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi, til þess að fjölga störfum, til þess að bæta lífskjör, þá er það samningur sem rennir sterkari stoðum undir hið raunverulega fullveldi íslensku þjóðarinnar.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson vék að spurningunni um hvort samningurinn samrýmdist stjórnarskránni. Og hann komst að orði eitthvað á þá leið að ekki skyldum við láta það henda okkur eins og Evrópubandalagið að vera gripnir í rúminu með túlkun samningsins um svo þýðingarmikla spurningu. Ég er honum sammála um það. En eins og fram

kom í ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar, væri það jafnframt að sjálfsögðu, okkar eigið vandamál, og okkar eigið vandamál að leysa, ef svo væri. En þó að menn vilji lítt muna allar ræðurnar sem sumir fulltrúar stjórnarandstöðunnar settu á við fyrsta mat í þessari umræðu um það að þetta væri nú allt saman framsal, yfirleitt á öllu valdi, löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi --- þær umræður eru margar og auðvelt að finna þær tilvitnanir --- þá stoðar lítt að byggja það á vangaveltum ungs lögfræðings, sem varpar fram spurningum í útvarpsþætti en svarar engum. ( Gripið fram í: Hvað er hann gamall?) Hann er ungur að aldri.
    Vegna þess að spurningar hans voru bara spurningar sem er mjög eðlilegt að lögfræðingur velti fyrir sér. Spurningar eins og þær: Hvernig er það með nýjar reglur samkvæmt þessum samningi sem kynnu að verða að frumkvæði Evrópubandalagsins og koma til athugunar síðar í framhaldi af samningnum? Þýðir þetta ekki það að efnislegt löggjafarvald sé í höndum annarra aðila?
    Þessu er margsvarað. Enginn lögfræðingur mundi treysta sér til þess að renna einhverjum rökum undir svona skoðun. Þetta er allt í lagi og sjálfsagt að lögfræðingur varpi fram svona spurningum til þess að velta vöngum yfir fræðilega. En það er allt og sumt, af þeirri einföldu ástæðu að það er vitað, ef maðurinn þekkir samninginn, skv. 110. gr. samningsins gerist ekkert slíkt án samráðs við stjórnvöld EFTA-ríkjanna. Þannig að þau hafa sinn áhrifarétt á undirbúningsstigi á slíkar tillögur. Í þeim skilningi hafa EFTA-ríkin neitunarvald. Eins er það gagnvart stjórnarskránni. Það er enginn vafi á því að samningurinn er í samræmi við ákvæði hennar að því er þetta varðar vegna þess að skv. 114. gr. samningsins verða slíkar nýjar reglur aðeins bindandi fyrir Ísland að þær hafi uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði að íslenskum lögum.
    Ein spurningin var vegna 6. gr. samningsdraganna þar sem segir að dóma eða úrskurði Evrópudómstólsins, sem hafa verið kveðnir upp fyrr á tíð, skuli stuðst við túlkun og geti þá Alþingi samþykkt slíka tilvísun án þess að þessi gögn séu lögð fram í heild á íslensku. Ekki er þetta veigamikil athugasemd. Það liggur við að það mætti segja að það ætti ekki að leggja Alþingi til þau fræðirit sem kynnu að hafa áhrif á túlkun. Að halda því fram að þetta varði spurninguna um tengsl þessa samnings við stjórnarskrána er að sjálfsögðu ekki einu sinni alvöruspurning.
    Vald eftirlitsstofnunar EFTA og EES-dómstólsins í sambandi við samkeppnisreglur virðast veita þessum stofnunum vald til þess að taka ákvarðanir sem ekki fái aðeins gildi sem þjóðarréttur heldur líka að landsrétti. Er letta leyfilegt miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar um innlent framkvæmdarvald og dómsvald? Svarið við því er það að þessi ákvæði gilda aðeins ef um er að ræða lögskipti sem hafa áhrif milli ríkja. Ef samningur fyrirtækis hefur aðeins áhrif innan lands á EES-samningurinn ekki við og það væri óeðlilegt að gera þá kröfu að aðeins dómstóll eins lands dæmdi í slíkum tilvikum. Og það er fjöldi fjöldi fordæma fyrir því að þetta sé svo. Ég nefni eitt dæmi hér. Það er norræni samningurinn um fullnustu dóma. Þannig að ég tek mönnum vara við því að hlaupa nú upp til handa og fóta jafnvel þótt í útvarpsþætti hafi verið varpað fram spurningum sem vissulega eru þess virði að spyrja að ætla að draga út frá því einhverjar meiri háttar ályktanir.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu miklu meira nema að einu leyti. Hv. 14. þm. Reykv. hefur í tvígang tekið þátt í þessum umræðum og í bæði skiptin valið þann kost að fara hér með aldeilis ótrúleg gífuryrði. Í umræðu í gær var því haldið fram af hennar hálfu að fréttatilkynning sem utanrrn. sendir frá sér og er fréttatilkynning EFTA um niðurstöður ráðherrafundar hafi verið lygi og falsanir. Nú eru höfð uppi stór orð um það að ýmsir aðilar hafi ekki unnið heimavinnuna sína og mér skildist af ummælum hennar að það væri sérstaklega átt við fastafulltrúa Íslands í Genf. Ræða hennar bar hins vegar öll merki þess að þótt hv. þm. sé kominn í nefnd þingmanna, þá hefur hún greinilega ekki setið þar lengi og á margt ólært. Hún þyrfti að læra af tveimur mönnum alveg sérstaklega um heimavinnuna sína. Hún gæti lært af hv. formanni nefndarinnar, Vilhjálmi Egilssyni en ekki síst af hv. 4. þm. Austurl. því hvað svo sem annars má segja um skoðanir hans, þá verður hann aldrei sakaður um það að hafa ekki unnið heimavinnuna sína.