Úrskurður Evrópudómstólsins um EES-samninginn

54. fundur
Þriðjudaginn 17. desember 1991, kl. 18:07:00 (2211)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég má til að koma aftur í stólinn eftir þessa ræðu hæstv. utanrrh. Það er eiginlega ótrúlegt hversu lítið hann gerir úr þeim lögfræðingi sem vitnað var til áðan, Guðmundi Alfreðssyni. Hann talar um ,,ungan lögfræðing`` með mikilli lítilsvirðingu. Það er eins og þetta sé eini maðurinn sem hefur efast um að þarna sé um eitthvert valdaafsal að ræða. Ég vil benda hæstv. ráðherranum á það að Norðmenn eru ekki í nokkrum vafa um að verulegt valdaafsal felist í þessum samningi þannig að hann þarf ekkert að gera lítið úr þeim lögfræðingi sem þarna talaði. Það eru líka margir fleiri lögfræðingar hér á landi sem efast stórlega um að þau ákvæði sem felast í þessum samningi standist ákvæði stjórnarskrárinnar þannig að hann þarf ekkert að gera lítið úr ummælum þessa manns.
    Það er eins gott fyrir hann líka að fara varlega í að fullyrða allt of mikið í þessu máli, sérstaklega í ljósi þess að framkvæmdastjórnin taldi að þessi samningur stæðist stjórnarskrá EB, en það hefur komið í ljós að svo er ekki. Það má vel vera að Hæstiréttur Íslands komist að því að samningurinn standist ekki stjórnarskrána þannig að það er alveg óþarfi að vera með einhver gífuryrði í þessu máli.
    Ég vil líka benda hæstv. ráðherranum á það að Íslendingar eru ekki sammála um að samningurinn sé svo góður eins og hann er að tala um. Hann segir að ef hann færi forgörðum, þá mundum við missa af miklum tækifærum og notaði tímann til að lýsa því að við mundum geta látið okkar fólk gera mikil verðmæti úr minnkandi afla og hann talar um að þetta sé ómetanlegt tækifæri. Ég vil benda honum á það að það eru margir sem efast stórlega um að svo sé. Aðilar í sjávarútvegi hafa talað um að það sé nú ekki eins mikið í þessum samningi eins og af er látið eftir sigurinn mikla 22. október. Það hefur ekki nokkur einasti maður talað um það að þó að af þessum samningi verði ekki, sem ég vona auðvitað að menn séu farnir að átta sig á að getur aldrei orðið, þá erum við ekki þar með að segja að við ætlum að einangra okkur hérna norður í Atlantshafi. Auðvitað ætlum við að hafa góð samskipti við aðrar þjóðir eins og við höfum alltaf gert. Það er ekki þar með sagt að við eigum að afsala okkur verulegu af völdum okkar í hendur yfirþjóðlegra stofnana. Við getum haft samskipti við aðrar þjóðir á allt öðrum forsendum og á allt annan hátt.