Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 13:23:00 (2224)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið að það er afar sérstakt að komin séu á dagskrá mál sem voru tekin út úr nefnd í gærkvöldi án þess að nefndarmönnum hafi gefist tækifæri til að fara ofan í alla þætti málsins og á ég þar sérstaklega við ráðstafanir í ríkisfjármálum. M.a. voru að koma fram nýjar upplýsingar á síðustu mínútu áður en málið var tekið út úr nefnd. Ég vil einnig benda á það, virðulegi forseti, að ég gerði grein fyrir því í ræðu þegar rætt var um frv. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt hver staða mála í nefndum væri og hver málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar er. Það er nú því miður að koma fram núna í störfum þingsins. Ég vil, virðulegur forseti, vekja athygli á því að við í efh.- og viðskn. erum að fást við mjög stór og erfið mál eins og breytingar á tekjuskatti og eignarskatti sem eru í því formi þegar þegar mælt er fyrir þeim hér á þingi að þau gætu verið fyrsta vinnuskjal inni í ráðuneyti. Þau eru í því formi að við fáum frá hagsmunaaðilum utan úr þjóðfélaginu stórfelldar athugasemdir nánast við hverja einustu grein. Þannig að ég held, virðulegur forseti, að það verði

að taka tillit til þessa. Við nefndarmenn í efh.- og viðskn. höfum unnið síðustu daga nánast nótt sem dag og tekið matarhléin til nefndarfunda. Því verður að gera þá kröfu að stjórnarandstöðunni gefist ráðrúm til að undirbúa sig undir umræðuna þegar þessi stóru mál koma hér inn aftur og ekki síst, virðulegi forseti, þar sem efnislegri meðferð í nefndum var í raun ekki lokið þannig að hún hlýtur þá eðli málsins samkvæmt að halda áfram hér inni í þingsal.
    Ég vil að vísu taka það skýrt fram að ég hef ekkert upp á vinnubrögð formanns okkar nefndar að klaga, hún hefur stýrt þessu samkvæmt þeim tíma sem henni hefur verið ætlaður eins og best verður á kosið að mínu mati. En eftir stendur þetta að efnislegri meðferð er ekki lokið. Ég vil sérstaklega nefna eitt atriði sem er tilfærslan á kostnaði við löggæsluna. Þar voru að koma inn í nefndina á síðustu stundu, nokkrum mínútum áður en málið var tekið út í gærkvöldi, veigamiklir þættir sem snerta hvaða áhrif þetta hefur á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og í framhaldi af því þá jöfnun sem hann átti að veita smærri sveitarfélögum. Þar komu fram upplýsingar sem benda til þess að þetta þýði að þar komi þetta fram með tvöföldum þunga vegna þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem hafa tækifæri til, fullnýti sína tekjustofna og fari inn á Jöfnunarsjóðinn af fullum þunga sem getur þýtt samkvæmt okkar upplýsingum allt að 30%--40% skerðingu á tekjujöfnunarframlaginu sem um verður beðið. Þetta eru svo stór mál, virðulegi forseti, að það er nánast ómögulegt að þau séu sett hér á dagskrá án þess að hægt sé að kynna sér þau frekar.