Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 13:32:00 (2226)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Síðasliðinn laugardag kvaddi ég mér hljóðs um þingsköp og kom þeirri vinsamlegu ábendingu til ríkisstjórnarinnar --- það sést nú hvorki tangur né tetur af henni þessa stundina en æskilegt væri að ráðherrar fylgdust með umræðum um vinnubrögð í þinginu og hvernig framgangi mála sem koma frá ríkisstjórninni er háttað. En ég kom með þá vinsamlegu ábendingu að tekið yrði þinghlé til að ríkisstjórnin gæti komið sér saman um hvað hún ætlaði að gera í þeim málum sem hún hefur lagt fyrir þingið. Hér hefur ekki verið gert neitt hlé heldur hefur sami gangur verið á öllum málatilbúnaði að tillögur streyma stöðugt til hinna ýmsu nefnda sem eru að vinna í málum.
    Við sem sitjum í efh.- og viðskn. erum þessa stundina að fást við frv. um eignarskatt og tekjuskatt. Meðal þess sem þar er til umræðu er svokallaður sjómannaafsláttur. Það var upplýst af einum stjórnarþingmanni í sjónvarpinu í gærkvöldi að verið væri að vinna að breytingum á þessum afslætti. Og ég vil spyrja: Hvar er verið að vinna að breytingum á þessum afslætti? Þetta mál er til meðferðar hjá efh.- og viðskn., þangað hafa enn þá ekki komið neinar tillögur um breytingar á þessum sjómannaafslætti. ( Gripið fram í: Hvar er ráðherrann? Það þarf að sækja fjmrh.) Ég vil gjarnan óska þess forseti, að viðkomandi ráðherrar séu hér til staðar. ( Forseti: Forseti hefur nú þegar gert ráðstafanir til að óska eftir að hæstv. ráðherrar komi hér í salinn.) Á meðan vil ég beina spurningu til hæstv. forseta: Eins og hér kom fram áðan þá sat efh.- og viðskn. á fundi í gærkvöldi og ég fór hér út úr húsinu rétt fyrir hálfsjö, þá var hér í ræðustóli hv. þm. Sólveig Pétursdóttir. Við sátum á fundi til klukkan að verða hálfníu en þá fóru nokkrir nefndarmanna yfir á fund í sjútvn. Ég fór heim og hafði ekki hugmynd um að hér ætti að fara fram útbýtingarfundur. Það má kannski segja að minn þingflokksformaður hefði átt að vera á vaktinni og láta okkur vita. ( Forseti: Forseti tilkynnti það í lok fundar í gær að það yrði útbýtingarfundur.) Það sem ég var að segja, hæstv. forseti, er að þá sat ég á fundi í efh.- og viðskn. og

þeim boðum var ekki komið til okkar að þessi útbýtingarfundur ætti að fara fram. Ég tek þetta upp vegna þess að hér var dreift stórmáli, frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna, sem að sjálfsögðu verður komið í umræðuna í dag úti í þjóðfélaginu meðal námsmanna. Við verðum auðvitað spurð álits á þessu máli og því miður hefur mér ekki gefist kostur á að kynna mér það þótt minn ágæti þingflokksformaður hafi reyndar gert sér sérstaka ferð heim til mín í gærkvöldi til að koma þessu til mín. En efh.- og viðskn. hefur haft forgang.
    Hér eru sjútvrh. og forsrh. mættir. Ég varpaði fram þeirri spurningu: Hvar er verið að vinna að breytingum á sjómannaafslættinum? Er það rétt sem fram kom hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að verið væri að vinna að breytingum á honum? Málið er til meðferðar í efh.- viðskn. en þangað hafa enn þá ekki borist neinar breytingartillögur. Hvar er verið að vinna að þeim?