Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 13:43:00 (2228)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Það ber þá nýrra við ef stjórnarandstaðan og aðrir kvarta undan því að það séu vaskir menn til verka í sjútvn. Ég tel það gott fordæmi hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni og öðrum að menn hafi snör handtök eins og hann kýs sjálfur að kalla þau vinnubrögð sem þar voru viðhöfð við þetta nál. Alveg hárrétt er að þar voru hafðar hraðar hendur. Ég skal fúslega viðurkenna að eftir að fundur hófst í sjútvn. klukkan átta bað ég starfsmann nefndarinnar að hefja undirbúning að þessu nál. og þegar fundi lauk, u.þ.b. 7 mínútur í tíu, gengum við endanlega frá því og nál. var síðan útbýtt hér á fundinum. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn þurftu ekki að velkjast í neinum vafa um hvað stæði til. Ég hafði sagt þeim með tveggja daga fyrirvara að ég hygðist afgreiða málið úr nefnd, þannig að það er ekki hægt að segja að þar hafi verið nein undirmál.
    Það kom líka upp á fundi okkar í gær hvort þetta mál yrði rætt á þingi í dag. Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson varpaði því fram í umræðu. Ég svaraði því svo til að ég hygðist beita mér fyrir því sem þingflokksformaður að þetta yrði tekið á dagskrá. Ég hygg að þessi afstaða mín sem starfandi formanns í nefndinni hafi átt að vera ljós. (Gripið fram í.) Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. kunni að lesa og hann hafi lesið þetta, a.m.k. las hann þetta fyrir mig tveimur sinnum á síðustu tveimur dögum. ( StG: Og veitir ekki af.) Hins vegar er alveg ljóst og rétt að það komi fram að stjórnarandstaðan telur að hér sé um lögleysu að ræða. Um það má deila. Ég gerði það sem í mínu valdi stóð sem formaður nefndarinnar til þess að hún gæti undirstrikað þessa skoðun sína með því að kalla til fundar við nefndina að beiðni stjórnarandstöðunnar bæði svokallaða undirnefnd um mótun sjávarútvegsstefnu og yfirnefnd líka. Rétt er að það komi fram að ég átti samtöl við stjórnarandstöðuþingmenn í minni hlutanum þar sem það kom fram að þeir óskuðu sérstaklega eftir því að oddvitar hinnar tvíhöfða yfirnefndar kæmu til þess að hægt væri að fá það fram í nefndinni hvort haft hefði verið samráð við þá. Ég taldi alveg sjálfsagt að verða við þessum óskum til að þeir gætu þá komið fram með þessar skoðanir sínar eins og Halldór hefur raunverulega gert núna.
    Hins vegar er það rétt, eins og ég ætlaði að segja áðan þegar ég var truflaður með

frammíköllum þingmanna, að þetta eru auðvitað hröð vinnubrögð. Það kann vel að vera að þau séu ekki til eftirbreytni og ég geri mér alveg fyllilega ljóst að þarna var um mikið vinnuálag að ræða á nokkrum þingmönnum sem eru bæði í efh.- og viðskn. annars vegar og hins vegar í sjútvn. Þeir höfðu ekki ráðrúm til þess að vinna sitt minnihlutaálit. Ég kýs að túlka orð Steingríms J. Sigfússonar, varaformanns Alþb., þannig að hann hafi í rauninni verið að óska eftir því að gert yrði stutt hlé á þessum fundum til að formenn þingflokka gætu hist ásamt forseta til þess að ræða það með hverjum hætti væri hægt að finna tíma til þess að vinna þetta minnihlutaálit og með hvaða hætti væri síðan hægt að haga umræðum um Hagræðingarsjóð.
    Sem formaður þingflokks annars stjórnarflokksins tek ég undir þessa ósk varaformanns Alþb. Ég hygg að það væri viturlegt að við gerðum örstutt hlé þegar þessari þingskapaumræðu er lokið og formenn þingflokkanna og forseti ræddu um það hvernig best væri að haga umræðu um Hagræðingarsjóðinn þannig að minni hlutanum gæfist ráðrúm til að gefa þetta álit.