Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 13:48:00 (2230)

     Jón Kristjánsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil segja örfá orð um starfið sem snýr að fjárln. Þar vorum við að vinna á fundi fram á nótt. Við höfum kvartað yfir því, minni hlutinn, að stórar ákvarðanir væru seint á ferðinni og gert við það stífar athugasemdir. Hins vegar hefur meiri hlutinn verið að tilkynna okkur um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans í þessum efnum og er út af fyrir sig ekkert um það að segja. Við komum til fundar í morgun og þar var byrjað á því að bera upp tekjuhlið frv. Við bentum á ákvæði þingskapa um að álit ætti að koma frá efnahagsnefnd þingsins á tekjuhliðinni fyrir 3. umr. fjárlaga. Formaður nefndarinnar varð strax vel við þessu og frestaði fundi, bar ekki tekjuhliðina upp og vil ég þakka það. Hann brást alveg hárrétt við því. En nú vil ég spyrja, af því að 1. þm. Austurl. upplýsir að þessi mál hafi lítið verið rædd í efnahagsnefnd. Þar hafi hvorki Þjóðhagsstofnun eða fjmrn. verið kallað fyrir út af tekjuhliðinni vegna þessara stóru mála. Vil ég þá spyrja formann nefndarinnar ef hann er hér staddur: Hvenær á þetta að fara fram? Hvenær á að kalla í sérfræðinga vegna tekjuhliðar fjárlaga og hvenær mun þetta nál. berast fjárln.? Og hvenær mun þá 3. umr. fjárlaga fara fram? Hún getur að sjálfsögðu ekki farið fram fyrr en búið er að skila nál. Mér er spurn: Hvenær eiga fjárlaganefndarmenn að semja sín nál. og undirbúa málflutning við 3. umr. sem verður gífurlega mikil því þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur kynnt varðandi heilbrigðismál og annað eru þess eðlis að þær hljóta að kalla á mjög mikla umræðu svo ekki sé meira sagt. Ég gæti talið upp mörg fleiri mál þannig að ég vildi fara fram á það að menn segðu eitthvað um það, bæði ríkisstjórn og forsetar þingsins og formaður efnahagsnefndar, hvenær niðurstaða af þessum störfum muni liggja fyrir og hvort það séu einhverjar líkur til þess að 3. umr. fjárlaga fari fram á morgun.
    Ég tel litlar líkur á því að það sé hægt með skikkanlegum hætti. Hér er verið að

rífa mál út úr nefndum og menn undrast að viðbrögð séu hörð við því. Ég hef einu sinni gerst sekur um að rífa mál út úr nefnd með valdi og viðbrögðin hjá Sjálfstfl. voru þau að ég var kallaður ofbeldismaður tvisvar úr þessum ræðustóli og var þó málið búið að vera fyrir nefndinni í tvo mánuði og 60 aðilar búnir að koma fyrir nefndina. Þetta var mál sem var Sjálfstfl. ekki að skapi. Viðbrögðin voru svona. Hér er talið allt í lagi að rífa hvert málið af öðru með valdi út úr nefndum og halda að stjórnarandstaðan segi ekki neitt og þegi. Einn þingmaður talaði í átta klukkutíma og 20 mínútur um þetta mál þegar ég var búinn að rífa það út. Svona var nú þá.