Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:05:00 (2233)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegum hlutum. Í fyrsta lagi þá vil ég taka undir það með sitjandi formanni sjútvn. og formanni þingflokks Alþfl., hv. 17. þm. Reykv., að það má deila um hvort lögleysa fór fram í sjútvn. í gær. Mín skoðun á þessu er ákveðin. Ég vil líka taka undir það með honum að þetta er ekki til eftirbreytni. Svo ég skýri þetta nánar þá voru þarna mjög málefnalegar og efnislegar umræður alveg fram á seinustu mínútu. Á seinustu mínútum þessa fundar kom raunar fram að sennilega hafa sveitarfélög, þau sem treystu sér til að tjá sig um það frv. sem þarna var til umfjöllunar, gefið sína umsögn á fölskum forsendum og það er alvarlegt. Ég vil skýra það aðeins. Þau fengu gögn sem gátu bent til þess að verið væri að bæta þjónustu við sveitarfélög sem fara illa út úr kvótatapi. Þau fengu nefnilega gögn sem bentu til þess, og það er ekki minna mál en svo að þaulvanir og mjög góðir fréttaritarar útvarpsins misskildu málið á sömu lund og héldu að hér væri verið að stíga mikið framfaraskref. En það er nú eitthvað annað. Efnislega var þetta nákvæmlega öfugt. Því er von að sveitarfélögin hafi misskilið þetta eftir þeim gögnum sem þau fengu. Þetta eitt út af fyrir sig hefði átt að sannfæra hv. formann um að hér ætti ekki að fara að dreifa nál. sem mér skilst að hafi orðið til og verið prentað á örfáum mínútum. Að vísu upplýsti formaður þarna að hann hefði byrjað meðan við vorum að hlusta á röksemdir í málinu að útbúa nál. Það var alveg ljóst að hann ætlaði ekki að láta efnislega umfjöllun ráða niðurstöðu sinni í þessu máli og það er alvarlegt.
    Vegna þess hvað þessi fundur dróst lengi fór ég hingað af tilviljun á útbýtingarfund, sem ég vissulega vissi um, en hafði ekki tilkynnt nokkrum í mínum þingflokki um vegna þess að ekki hafði verið kynnt með nokkrum hætti að hér yrðu jafneldfim mál til útbýtingar eins og var og með jafnundarlegum hætti. Ég axla þá ábyrgð og mér heyrist það á öllum öðrum þingflokksformönnum að þeir hafi ekki tilkynnt þetta réttilega og mér þótti það miður. Það var hrein hending að ég var hér. Það var hrein hending að mér gafst tækifæri til þess að láta fulltrúa okkar kvennalistakvenna í efh.- og viðskn. fá þau nauðsynlegu gögn sem hún þurfti. Það var slembilukka og ekkert annað.
    Hér hefði ég getað óafvitandi brotið alvarlega á þingmönnum Kvennalistans og ég geri slíkt ekki með glöðu geði. Mér þætti gaman að vita hvort eitthvað slíkt hefur gerst þar sem aðrir þingflokksformenn virtust ekki heldur gera sér grein fyrir að slík útbýting mundi

fara fram.
    Ég vil jafnframt ítreka að ég sé í rauninni ekki að við stöndum frammi fyrir öðru en vandræðagangi af stjórnarinnar hálfu og ég lýsi fullri ábyrgð og tek undir með hv. formanni fjárln. þar sem hann kvartar undan því í Alþýðublaðinu í dag að mjög illa gangi að fá einhverjar skýrar línur í fjárlagaafgreiðslu frá stjórnvöldum. Þetta er alvarlegt. Hér höfum við setið á löngum fundum og ég held við höfum gert býsna margt til að greiða fyrir þingstörfum. Við fáum það síðan framan í okkur frá hæstv. forsrh., þegar farið er að tala um skynsamlegan vinnutíma fyrir starfsfólk þingsins, að það sé bara væmni. Ég vil segja það að margir hafa kvartað undan því við mig hve fundir eru orðnir miklir og ég hef spurt eftir þessa yfirlýsingu forsrh. hvort það sé ekki bara væmni. Eitthvað annað. Nei, fólki þykir það ekki væmni, fólki þykir það bara eðlileg krafa að ekki sé fundað hér allan sólarhringinn.
    Fleira hef ég ekki að segja um þetta en ég tel að það sem hef verið að tala um sé alvarlegt og beri að taka til greina.