Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:20:00 (2237)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Það er nú löngu komið fram yfir þá mælendaskrá sem forseti tilkynnti fyrir nokkru um að hann ætlaði að tæma til þess að heyra viðhorf allra. (Gripið fram í.) Forseti ætlar að fá að ljúka máli sínu áður en hann gefur hv. 9. þm. Reykn. leyfi til að bera af sér sakir. Forseti vill nú bera það undir hv. þm., sem hafa sumir óskað eftir því að taka til máls að nýju og aðrir í fyrsta sinn um gæslu þingskapa, hvort þeir telja ástæðu til þess að halda þessu áfram. Forseti er eiginlega að bíða eftir því að geta haldið þennan ágæta samráðsfund sem fyrirhugaður er með fulltrúum eða formönnum þingflokkanna. Forseti hefur alla tíð lagt á það áherslu að hann vill eiga gott samstarf við alla þingmenn, og formenn þingflokka þar með, og halda með þeim samráðsfundi eins oft og þurfa þykir. Það höfum við gert undanfarna daga og vikur. Við höfum haldið fundi og hist hvenær sem við höfum talið þörf á því, hvort sem það er að frumkvæði forseta eða formanna þingflokka og forseti mun ekki gefast upp á slíkum samráðsfundum. Hún mun halda áfram að leggja sig fram um að eiga þetta ágæta samstarf. Að því tilefni vill forseti minna á fundadaginn í gær. Hann gekk mjög vel fyrir sig og mjög gott samstarf var við alla hv. þm. Þá höfðu þingflokksformenn verið á fundi með forseta og við höfðum komið okkur saman um hvernig við ætluðum að vinna í gær. Við vorum með utandagskrárumræðu, við tókum mörg mál sem við afgreiddum og þetta gekk með miklum ágætum og stóð algjörlega heima eins og um var samið. Þetta vill forseti láta koma fram af því að hér hefur verið talað um að ekki sé gott samráð eða gott samstarf. Forseti vill gjarnan þakka fyrir það og telur að mjög gott og auðvelt sé að ná góðu samstarfi hér við alla þingflokksformenn. Þess vegna er forseti bjartsýnn á að það takist líka nú þegar við höldum þennan fund.
    Nú vill hv. 9. þm. Reykn. bera af sér sakir eða taka aftur til máls og tala um gæslu þingskapa, hvort sem hafa vill, það er á hennar valdi. Forseti vill beina því til annarra sem hafa beðið um orðið að ef þeir falla frá orðinu er meiningin að gera hlé á þessum fundi um stund.