Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:31:00 (2241)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Það hafa margir viljað gefa forseta góð ráð á þessum fundi og forseti hlustar á þau með athygli og tekur það til greina sem hann telur vera sett fram til leiðréttingar. En varðandi það að forseti hafi verið að brjóta þingsköp með því að setja mál hér á dagskrá er alger misskilningur. Forseti getur sett mál á dagskrá og það er ekkert einsdæmi, þótt minnihlutanefndarálit liggi ekki fyrir. Það er hins vegar annað mál hvort málin eru tekin til umræðu þótt þau séu sett á dagskrá og þar skulum við bíða og spyrja að leikslokum. Mál geta verið sett á dagskrá og sýnd þó að þau séu ekki tekin til umræðu á viðkomandi fundi.