Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:36:00 (2244)

     Geir H. Haarde :
     Virðulegur forseti. E.t.v. er hyggilegast, eins og hér hefur komið fram, að gera nú hlé í nokkra stund á þessum fundi til að menn geti ráðið ráðum sínum. Ég lít svo á, þrátt

fyrir yfirlýsingu varaformanns þingflokks Alþb. hér áðan sem reyndar hafði komið fram á fundi þingflokksformanna, um að frekari samtöl þingflokksformanna væru gagnslaus þá sé ástæða til að láta frekar á það reyna hvort samkomulag geti tekist hér um framgang þingmála í dag og næstu daga. Ég fullyrði að það er hægur vandi, ef allir aðilar vilja, að ljúka hér þingstörfum fyrir jól í þessari viku. Ég leyfi mér að fullyrða það en það er ekki víst að allir kæri sig um það. Þá hefur komið fram að það er auðvitað hægt að halda áfram eitthvað eftir jólin.
    En það er óhjákvæmilegt að mótmæla nokkrum fullyrðingum sem hér hafa komið fram m.a. í máli hv. 8. þm. Reykn. sem hélt því fram að það væri algert einsdæmi að mál væru tekin á dagskrá þingfundar daginn eftir að þeim hefur verið útbýtt að kvöldlagi, þ.e. að það væri einsdæmi ef nál. væri útbýtt að kvöldi að það væri tekið fyrir daginn eftir. Ég verð að leyfa mér að mótmæla þessu. ( ÓRG: Ég sagði þetta ekki.) Að það liði meira en hálfur sólarhringur. ( ÓRG: Án þess að nokkurt nál. frá minni hlutanum væri komið fram.) Ég mótmæli því sem fram kemur fram í frammíkalli hv. þm. og því sem fram kom í ræðu hans áðan um þetta atriði. Það er kannski ekki eðlilegt að hann muni eftir því vegna þess að hann var þá ráðherra. En haustið 1988 þegar hann var fjmrh. kom það fyrir hvað eftir annað að minni hlutinn í efh.- og viðskn., sem þá hét fjárhags- og viðskiptanefnd, var settur í mikinn vanda einmitt vegna þess hve þrýst var á að nefndin afgreiddi hratt mál sem þáv. fjmrh. lagði fyrir þingið. Og það voru engin smámál, það voru meiri háttar skattalagabreytingar sem þá var boðið upp á. Ég minnist þess að frv. um tekjuskatt og eignarskatt var lagt fram 13. des. það ár og afgreitt sem lög frá Alþingi 22. des. Í því voru mjög miklar og umfangsmiklar breytingar á skattalögum. Og það urðu eins og kunnugt er miklar deilur um það mál. Og það voru fleiri frv. þarna um haustið fyrir þremur árum þar sem var beitt svipuðum vinnubrögðum varðandi afgreiðslu mála og nú hefur verið gert. Þetta er því alls ekki nýmæli og það er alls ekki nýmæli að þingmál hafi verið tekin út í miklum ágreiningi milli stjórnar og stjórnarandstöðu á síðustu dögum fyrir jól.
    Að því er varðar síðan þá athugasemd sem fram hefur komið um að efh.- og viðskn. hafi borið að gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á fjárlög fyrir sl. laugardag, eins og hér kom fram hjá a.m.k. einum ræðumanni áðan, þá er auðvitað erfitt að ætlast til þess af nefndinni að hún geti gert grein fyrir breytingum á fjárlög sem skattalagafrv. hafa væntanlega í för með sér áður en hún er búin að fá slík frv. til meðferðar. Svoleiðis að ég hygg að það hafi ekki verið hægt að ætlast til þess af nefndinni að hún hefði slíkt álit tilbúið á þeim tíma. ( Gripið fram í: Hvað segja lögin?)
    Síðan urðu hér nokkrar umræður sl. laugardag um það hvort réttilega hefði verið staðið að því að fresta 3. umr. fjárlaga. Það varð samkomulag um þá leið sem þá var farin. Og ég hygg að hún hafi m.a. haft það í för með sér að efh.- og viðskn. gæti skilað sínu áliti um þessar skattalagabreytingar áður en hin efnislega umræða fer fram. Ég vildi því að þetta kæmi fram nú og ég tel að það sé ómaklegt að gagnrýna nefndina eða forseta þingsins vegna þessa atriðis.
    Ég vil síðan árétta það sem ég sagði í upphafi, virðulegi forseti, að það er e.t.v. skynsamlegast eins og nú standa sakir að gera hér hlé í einhverja stund til þess að menn geti ráðið ráðum sínum og síðan verði hægt að taka einhverjar ákvarðanir um framhaldið.