Um dagskrá og vinnubrögð í nefndum

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 14:42:00 (2246)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það hefði kannski verið skynsamlegast, eins og hv. þm. Geir Haarde sagði hér, að taka hlé. Það var alla vega ekki skynsamlegt hjá honum að halda þessa ræðu sem hann flutti hér. Og ég skil satt að segja ekki hvernig stjórnarliðið hugsar sér að halda á þingstörfum ef formenn þingflokka stjórnarflokkanna taka þátt í umræðum með þeim hætti sem þeir hafa gert í dag, sérstaklega þessi síðasta ræða. Því auðvitað, virðulegi forseti, væri ástæða til þess eftir þær fullyrðingar sem þar voru settar fram að fara rækilega yfir málin, vegna þess að hv. þm. Geir Haarde sagði að það væru full fordæmi fyrir því sem hér væri að gerast. Ég bið hv. þm. að nefna eitt fordæmi frá haustinu og desember 1988 um það að stórmál, eins og ráðstafanir í ríkisfjármálum eða Hagræðingarsjóðurinn, hafi verið rætt í nefnd og síðan klukkutíma síðar í fyrra tilvikinu, 10 mínútum síðar í seinna tilvikinu, hafi verið haldinn útbýtingarfundur að kvöldi þar sem prentuðum nefndarálitum meiri hlutans hafi verið dreift. Getur þingmaðurinn fundið eitthvert fordæmi þess? --- Nei, það getur hann ekki, vegna þess að á þeim tímum var stjórnarandstöðunni sýndur sá skilningur að hún fengi tíma til að undirbúa sinn málflutning. Vissulega gerði stjórnarandstaðan það með góðum vilja að taka þátt í afgreiðslu málsins eins og við höfum verið að sýna hér að við værum tilbúin til að gera en við tökum ekki þátt í undirmálum, það er alveg ljóst.
    Ef forsetinn hefði gefið það til kynna hér á forsetastól, sem nú er verið að gefa í skyn, að það hafi ekki verið ætlunin að taka ráðstafanir í ríkisfjármálum eða Hagræðingarsjóðinn til umræðu í dag, þó að þau mál hafi verið sett á dagskrána, þá hefði enginn okkar gert athugasemd við það. Og þá hefði stjórnarliðið getað sparað sér þessar tvær klukkustundir sem hér hafa farið í þingskapaumræður. Algjörlega sparað sér það ef formenn þingflokka stjórnarflokkanna hefðu komið til okkar jafnvel utan fundar og lýst því yfir að það ætti ekki að ræða þessi mál hér í dag þó þau væru á dagskránni. Af hverju var það þá ekki gert? Af hverju vorum við látin standa í þeirri meiningu í tvær klukkustundir í þessari umræðu að ætlunin væri að ræða þessi mál í dag? Ef það er hins vegar þannig að þetta hafi bara verið sett á dagskrána til að sýna þetta hér í prentuðu formi en alls ekki verið ætlunin að taka þetta á dagskrá í dag, þá fögnum við því auðvitað. Því þá fær stjórnarandstaðan eðlilegan tíma til þess að undirbúa sín nefndarálit líkt og gert hefur verið á undanförnum þingum og það er farsæl niðurstaða þessa máls. Hitt þarf svo að ræða betur, hvort verið er að brjóta samráðsgreinar laganna um fiskveiðistefnu. Og það er rétt að forseti þingsins og aðrir ræði það hér utan þingsalarins vegna þess að Alþingi verður auðvitað að fara að lögum.