Samstarfssamningur Norðurlanda

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 20:31:00 (2252)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um staðfestingu samkomulags um breytingu á samstarfssamningi Norðurlanda. Það eru nokkrir dagar síðan þessi tillaga kom til umræðu innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, að það þyrfti að staðfesta þær breytingar sem þyrfti að gera á Helsingfors-samningnum til þess að hann gæti tekið gildi fyrir þingið sem verður í byrjun mars nk.
    Eins og kemur fram í því bréfi sem var sent öllum formönnum þingflokka var búið

að taka þetta fyrir óformlega í öllum þingflokkum og það var líka tekið fyrir í þingflokki Kvennalistans og teljum við rétt að standa að þessu. En ég vil þó, virðulegur forseti, geta þess að ég hef nýlega verið kjörin í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og var þar af leiðandi ekki viðstödd þegar þessar breytingar voru ræddar og þegar þær voru teknar fyrir á sínum tíma. En miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið frá þeim sem unnu þetta mál get ég alveg fallist á það sem hér kemur fram.
    Ég verð þó að viðurkenna það að eftir þennan eina fund sem ég hef sótt í Norðurlandaráði fannst mér mjög mikil áhersla og raunar óþarflega mikil áhersla lögð á starf flokkahópanna en minni áhersla lögð á gildi landsdeildanna. Þetta þykir mér frekar miður en geri mér þó grein fyrir því að það sem íslenska sendinefndin eða deildin hafði þó fram með þessum breytingum sem hafa verið gerðar núna var það að landadeildirnar, og þá Ísland, eiga að hafa meiri áhrif heldur en gert var ráð fyrir áður. Að því leyti til þá líst mér betur á það sem hér kemur fram en það sem upphaflega var gert ráð fyrir.
    Það er kannski sérstaklega erfitt fyrir þingflokk eins og Kvennalistann, hóp eins og okkur, þegar áhersla er lögð á starf í flokkahópum, þar sem við eigum --- ja, hvergi heima, ef þannig má að orði komast. Við erum þannig í nokkrum vanda t.d. þegar verið að skipta í nefndir og undirhópa og vinnuhópa, þá virðist sem málum sé þannig fyrir komið að við komum varla til greina, þ.e. að ég komi varla til greina í því sambandi. Það þykir mér mjög miður og hefði gjarnan viljað fara aðeins betur ofan í þetta, þó ég telji varla tímabært að ég geri það á þessu stigi. Og þá er spurning hvort Íslandsdeildin mundi hugsanlega geta breytt á einhvern hátt sínum starfsháttum, þ.e. um tilnefningar í nefndir og ráð. Þetta er það sem ég vildi segja við þessa umræðu, virðulegur forseti, en það þýðir ekki að þingflokkur Kvennalistans ætli á nokkurn hátt að koma í veg fyrir að þetta verði samþykkt því að ég tel að það sem þó er hér sé viðunandi.
    Mig langar líka, virðulegur forseti, að geta þess að á þessum fundi sem við sóttum á Álandseyjum var verið að ræða framtíð norrænnar samvinnu, þar sem flestir sem komu héðan frá Alþingi tóku til máls. Ég verð að viðurkenna það að ég hef vissar áhyggjur af framtíð norrænnar samvinnu vegna þess hve stíft Norðurlöndin, sum hver, horfa til Evrópubandalagsins. Ef flest Norðurlönd, nema þá e.t.v. Ísland og vonandi einhver fleiri, ákveða að standa utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem kannski er e.t.v. sjálfgert, og Evrópubandalagsins, þá getur verið mjög erfitt um norræna samvinnu. Ég verð að viðurkenna það að ég hef verulegar áhyggjur af norrænni samvinnu ef það verður að veruleika, sem nú lítur helst út fyrir, að Svíar gangi í Evrópubandalagið og Finnar e.t.v. líka. Eftir þær umræður sem þarna urðu finnst mér að menn séu jafnvel haldnir þeirri trú að ef öll Norðurlöndin gangi í Evrópubandalagið þá muni það verða til þess að Norðurlöndin muni geta starfað þar saman og að það muni þýða að Norðurlandasamstarfið muni blómstra. Ég er ekki sömu skoðunar og tel að það muni geta haft í för með sér að öll norræn samvinna mundi líða undir lok. Það þætti mér mjög miður því að ég tel að Norðurlandaráð sé mjög mikilvægur samstarfsvettvangur Norðurlanda.
    Það er auðvitað augljóst að ekki getur orðið mikið um efnahagssamstarf ef löndin ganga sum hver í Evrópubandalagið og önnur ekki, en á öðrum sviðum hef ég trú á að það eigi að auka samstarf og auðvitað vona ég að norræn samvinna blómstri í framtíðinni, eflist og aukist en ekki að samstarfið fari niður á við eins og ég óttast því miður einmitt nú.