Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 20:58:00 (2261)

     Halldór Ásgrímsson (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það að taka á tillit til þess að við getum unnið þau störf sem okkur eru ætluð. Ég mun þá hefja störf að því ásamt öðrum. Ég get því miður ekki fullyrt hvað við þurfum langan tíma til þess en vel má vera að það hjálpi til í því að margt er svo óljóst enn í þessu sambandi að erfitt er að gera það upp þó að ég telji það nú ekki mikla hjálp. En auðvitað getum við ekki tjáð okkur mikið um það sem ekki liggur fyrir. Hitt er svo annað mál að við höfum alloft rætt það í nefndinni í haust að nauðsynlegt væri að fara ofan í þessi mál, en það verður að segjast alveg eins og er að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki verið tilbúin til að fjalla um tekjuhlið fjárlaganna fyrr en nú. Ég vil ekki ásaka meðnefndarmenn mína í hv. efh.- og viðskn. í þessu sambandi. Það er hart pressað á meiri hluta nefndarinnar að skila áliti og þau reyna að gera sitt besta í því. Það verður jafnframt að taka tillit til þess að formaður nefndarinnar þurfti að fara frá vegna veikinda þannig að það er ekki alls kostar maklegt að ásaka meiri hluta nefndarinnar aðallega í þessu máli heldur fyrst og fremst að málin hafa ekki verið tilbúin. Það er fyrst núna sem hægt er að fjalla um þessi mál af einhverri alvöru, þó ekki nema að litlu leyti. Þá verður að gefast tími til þess og það erum við að fara fram á. Ég ætla ekki að eyða hér frekari tíma, hæstv. forseti, og mun þá snúa mér að þessum störfum. Ég get ekki fullyrt að við munum hafa lokið því eftir tvo klukkutíma. En ég tel að við höfum sýnt það í dag að við höfum ekkert skorast undan störfum eins og dæmin sanna. Og við munum gera okkar besta í því og það verður að koma í ljós hversu langt verki okkar hefur miðað kl. 11.