Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 21:00:00 (2262)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér upp úr þingskapalögum, það sem þar stendur um meðferð efh.- og viðskn. á málefnum sem tengjast fjárlögunum. Þar

segir, með leyfi forseta, ( Gripið fram í: Úr hvaða grein?) þetta er í 25. gr.: ,,Til efh.- og viðskn. vísar fjárln. frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarps. Nefndirnar skila fjárln. áliti og tillögum svo tímanlega fyrir 2. umr. fjárlaga sem fjárln. ákveður. Efh.- og viðskn. skal gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umr. Álit og tillögur nefndarinnar skal prenta sem fylgiskjöl með nefndaráliti fjárln. eða meiri hluta hennar.`` --- Síðan að lokum: ,,3. umr. um frv. til fjárlaga skal hefjast eigi síðar en 15. desember.``
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að benda á það að ég tel að þau vinnubrögð sem viðhöfð eru um meðferð fjárlaga á þessu haustþingi hljóti að vera fordæmisskapandi fyrir komandi tíð. Þess vegna er mjög alvarlegt þegar þannig er staðið að málum að í raun er eyðilögð sú breyting sem var ætlast til með nýjum þingsköpum að yrði á störfum þingsins. Ég vil taka það skýrt fram að eins og ég skil þessa grein, og hún hljóðar í raun þannig, þá hlýtur að vera átt við það að efh.- og viðskn. hafi lokið umfjöllun um tekjuöflunarfrumvörpin áður en hún gefur sitt álit. Að öðrum kosti er álit efh.- og viðskn. markleysa. Og ég vil benda á það, virðulegi forseti, að við komum á fund efh.- og viðskn. í dag, sem var boðaður ofan í fastan þingflokksfundatíma, sem gerði það m.a. að verkum að ég valdi það að sitja frekar þingflokksfund í mínum þingflokki þar sem verið var að fara yfir brtt. við fjárlögin heldur en að sitja á nefndarfundi efh.- og viðskn. Þetta eitt út af fyrir sig, virðulegi forseti, eru náttúrlega forkastanleg vinnubrögð.
    En ég vil minna á að í upphafi fundarins lá fyrir bréf frá efh.- og viðskn. til hv. fjárln. varðandi það málefni sem átti að fara að fjalla um á viðkomandi fundi. Þar voru m.a. tekjutölur frumvarpa sem ekki hafa verið tekin fyrir í nefndinni. Ekki einu sinni verið ákveðið hvert á að senda til umsagnar. Þetta er það veganesti sem efh.- og viðskn. sendi frá sér núna til fjárln. Þetta, virðulegi forseti, er það fordæmi sem við erum að gefa varðandi vinnubrögð þessarar nefndar í framtíðinni.
    Ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram áður að þetta er ekki hægt að skrifa á meiri hluta hv. efh.- og viðskn. Þetta skrifast alfarið á hæstv. ríkisstjórn sem leggur mál svo seint fram að nefndirnar geta ekki tekið þau til efnislegrar umfjöllunar. Þetta hef ég margítrekað bent forseta á síðustu daga. Það hefur verið sagt á móti, m.a. af ráðherrum hæstv. núv. ríkisstjórnar, að þetta sé engin nýlunda. Það kann að vera rétt. En, virðulegi forseti, við ætluðum okkur að standa öðruvísi að málum með nýjum þingsköpum. Ég held að það sé mjög þarft fyrir þingheim að við skoðum stöðu mála núna, við skoðum þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í ljósi ummæla hæstv. forsrh., sem forðar sér alltaf af vettvangi þegar farið er að ræða hér um stöðu mála á Alþingi, við skoðum þessa stöðu mála í ljósi ummæla hæstv. forsrh. í margfrægu viðtali í morgunútvarpi. Þetta er því miður, virðulegi forseti, sú mynd sem við höfum af þingstörfum núna.