Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

55. fundur
Miðvikudaginn 18. desember 1991, kl. 21:10:00 (2264)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Það gerist ekki á hverju kvöldi að ég neyðist til að bera blak af ríkisstjórninni. (Gripið fram í: Þá er kominn tími til.) Ríkisstjórn Íslands verður aldrei sökuð um það með réttu að hún hafi það vald að nefndir afgreiði mál illa undirbúin út úr nefndum. Það fær ekki staðist. Ríkisstjórn Íslands hefur engar heimildir til að kalla mál úr nefndum. Engar. Nákvæmlega engar. Forseti þingsins hefur heimild til að kalla mál úr nefndum. Þannig að það er gjörsamlega út í hött að sakfella ríkisstjórnina fyrir léleg störf í nefndum, gjörsamlega út í hött.
    Hins vegar er það mjög alvarlegt mál, þó ekki sé meira sagt, ef fullyrðingar hv. 9. þm. Reykv. eru sannar. Það er mjög alvarlegt mál. Það er svo alvarlegt mál að þingheimur getur ekki unað því. Eru menn að reikna reikningsdæmi úti í efh.- og viðskn. án þess að hafa þær upplýsingar undir höndum sem þeir þurfa að hafa til þess að geta reiknað dæmið? Er það rétt? Ef svo er, herra forseti, er þetta orðið að skrípaleik, þessi nefndarstörf í þinginu, algjörum skrípaleik. Og sá formaður, og þó að hann sé varaformaður, á að biðja þingið afsökunar á slíkum vinnubrögðum. Hann á að koma upp og biðjast afsökunar á því ef þetta hefur verið gert.
    Fari aftur á móti hv. 9. þm. Reykv. með rangt mál á hann að koma í pontu og biðjast afsökunar. Alþingi Íslendinga getur ekki liðið það að nefndarstörf séu unnin á þann hátt að ekki sé hægt að treysta því að menn hafi haft grundvallargögnin undir höndum þegar afstaða er tekin. Og að menn láti álit fara út úr nefndunum unnin á þann hátt að það sé glápt í grænar kúlur, eins og hv. 9. þm. Reykv. sagði að hlyti að vera aðalupplýsingagjafinn. Hér verða menn að gera sér grein fyrir því að Alþingi Íslendinga er ekki kosið til þess

að vera einhver afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn. Alþingi Íslendinga er kosið til að setja lög fyrir landið. Undan þeirri ábyrgð getur Alþingi Íslendinga ekki komið sér með því að segja að ríkisstjórnin hafi ekki gert hitt eða þetta á réttum tíma. Það er engin afsökun og getur aldrei verið afsökun fyrir slíkum vinnubrögðum.
    Ég tek því þess vegna ekki ef það er rétt, að sú nefnd sem hefur um áraraðir notið virðingar fyrir það að menn hafa trúað því að þar væri unnið faglega, ef hún er orðin á þann hátt að ekki megi treysta því að menn hafi grunngögnin undir höndum þegar þeir eru að afgreiða út úr nefndinni, ef það er rétt að menn hafi ekki undir höndum þau gögn sem vísað er til í útreikningunum. Ég vil fá þetta mál á hreint, herra forseti. Ég óska eftir því að starfandi formaður nefndarinnar geri grein fyrir því hvort þessar ásakanir eru réttar. Létu menn mál fara út úr nefndinni sem þeir höfðu ekki upplýsingar um til að taka afstöðu til? Það er gjörsamlega óverjandi hafi það verið gert.